Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 134/2012

Mánudaginn 25. ágúst 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 17. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. september 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. október 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1963. Hún býr ásamt eiginmanni og dóttur í eigin 339,6 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 29 í sveitarfélagin C. Á heimilinu búa einnig uppkomin dóttir kæranda og barnabarn.

Kærandi starfar hjá X ehf. Ráðstöfunartekjur hennar eru að meðaltali 213.724 krónur á mánuði að barnabótum meðtöldum.

Að sögn kæranda má einkum rekja fjárhagserfiðleika hennar til hækkunar á erlendum húsnæðislánum og ábyrgðarskuldbindinga sem fallið hafa á hana. Einnig hafi fjárhagur hennar versnað vegna minnkandi tekjumöguleika í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 77.462.366 krónur. Innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), falla skuldir að fjárhæð 74.549.329 krónur. Utan samnings fellur skattsekt yfirskattanefndar að fjárhæð 2.913.037 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 og 2007.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi hefur gengist í ábyrgðir vegna lána ýmissa lögaðila og einstaklinga samtals að fjárhæð 54.514.147 krónur en þar af séu 38.105.742 krónur í vanskilum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 25. janúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2.

mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt skattframtali vegna ársins 2007 var fjárhagur kæranda eftirfarandi í krónum:

  2007
Árstekjur kæranda 1.630.076
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 118.139
Meðaltekjur maka á mánuði (nettó) 89.857
Samanlagðar meðaltekjur á mán. (nettó) 207.996
Skattfrjálsar tryggingabætur 5.490.000
Framfærslukostnaður á mán.* 78.733

* Miðað við helming framfærslu hjóna með eitt barn samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara, uppgefnum upplýsingum kæranda í umsókn og neysluvísitölu 281,8.

Tekjur kæranda og maka hennar hafi verið lágar á árinu 2007 og rétt dugað til framfærslu. Greiðslugeta kæranda til að mæta skuldum reiknist 39.406 krónur. Þrátt fyrir lágar tekjur samkvæmt skattframtali hafi kærandi gert þrjá bílasamninga það ár auk þess að gangast í umtalsverðar ábyrgðir fyrir lögaðila. Á sama tíma hafi kærandi verið í vanskilum með ýmsa reikninga. Þrátt fyrir að tekið sé tillit til tekna maka hafi lántökur á árinu 2007 verið meiri en kærandi hafi getað staðið við. Lántökur kæranda á árinu 2007 voru eftirfarandi:

Kröfuhafi Tegund Fjárhæð
Frjálsi fjárfestingarbankinn Skuldabréf 7.000.000
Avant Bílasamningur 4.615.385
SP-fjármögnun Bílasamningur 2.461.531
SP-fjármögnun Bílasamningur 4.000.000

Áætluð mánaðarleg greiðslubyrði kæranda á árinu 2007 var samkvæmt gögnum málsins þessi í krónum:

Tegund Fjárhæð
Bílasamningar 166.117
Fasteignalán 144.212
Samtals 310.329

Kærandi hafi gengist í ábyrgðir fyrir félagið Y ehf. á árinu 2007 með fasteignaláni upphaflega að fjárhæð 8.000.000 króna sem tryggt hafi verið með veði í fasteign hennar við B götu. Óljóst sé hver tengsl kæranda við nefnt félag hafi verið en hún hafi ekki verið skráð í stjórn félagsins er til skuldbindingarinnar var stofnað. Einnig hafi kærandi gengist í ábyrgð fyrir félagið Z ehf. vegna skuldabréfs að fjárhæð 1.500.000 krónur.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á meðan greiðsluaðlögunar er leitað. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að eftirfarandi fjárhæðir hafi verið lagðar inn á og teknar út af reikningi kæranda nr. 0101-15-... hjá Landsbankanum á meðan kærandi naut greiðsluskjóls:

Dags. millifærslu Innlegg Úttekt
11. og 12. júlí 2011 4.000.000  
5. október 2011   1.500.000
13. október 2011   350.000
7. nóvember 2011   2.000.000

Óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvernig umræddum fjármunum hafi verið ráðstafað en þær hafi ekki borist.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í málinu liggi fyrir að á kæranda hvíli skattsekt samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 146/2008. Upphafleg fjárhæð sektarinnar hafi verið 3.300.000 krónur en eftirstöðvar séu 2.913.073 krónur. Skuldin sé vegna rekstrar U ehf. vegna rekstraráranna 2003 og 2004. Kærandi hafi verið stjórnarmaður í félaginu og hafi sekt hennar verið ákvörðuð á grundvelli 6. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Sem stjórnarmanni hafi hvílt á henni sú skylda sem tilgreind sé í 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og 90. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

Eignir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu 80.212.465 krónur. Persónulegar skuldir hennar séu 77.462.366 krónur. Að teknu tilliti til ábyrgðarskuldbindinga kæranda að fjárhæð 54.514.147 krónur, þar sem 38.105.742 krónur séu í vanskilum, verði ekki annað séð en að sú skattskuld sem kærandi hefur bakað sér nemi einhverju miðað við fjárhag hennar þar sem eignastaða hennar samkvæmt þessu sé neikvæð.

Á árinu 2008 hafi tekjur kæranda og maka hennar í krónum enn verið lágar:

  2008
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 166.261
Meðaltekjur maka á mánuði (nettó) 144.000
Samanlagðar meðaltekjur á mán. (nettó) 310.261
Framfærslukostnaður á mánuði* 93.144

*Miðað við helming framfærslu hjóna með eitt barn samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara, uppgefnum upplýsingum kæranda í umsókn og neysluvísitölu 332,9.

Á árinu 2008 hafi greiðslubyrði kæranda og maka hennar verið eftirfarandi í krónum:

Heildargreiðslur fasteignalána 2.951.184
Mánaðarleg greiðslubyrði fasteignalána 245.932
Mánaðarleg greiðslubyrði bílasamninga 166.117
Alls mánaðarleg greiðslubyrði 412.049

Vanskil hafi orðið á fleiri skuldbindingum kæranda á árinu 2008 en þrátt fyrir framangreint hafi kærandi gengist í enn frekari ábyrgðir fyrir lögaðila, þar á meðal með tryggingarbréfi útgefnu af Þremur litlum P ehf. upphaflega að fjárhæð 5.000.000 króna tryggt með veði í fasteign kæranda. Þá hafi hún gengist í ábyrgð vegna skuldabréfs upphaflega að fjárhæð 6.315.542 krónur sem Þrír litlir P ehf. hafi gefið út. Maki kæranda hafi verið stjórnarmaður í félaginu.

Af framangreindu virtu er það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga þegar hún var ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað og bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hennar með háttsemi er varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. b-, c- og d-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða kærunefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011. Af þeim verði ráðið að taka beri tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem skuldari stofni til skuldbindinga. Ef ljóst þyki að þeir hafi ekki getað staðið við þær þegar til þeirra hafi verið stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar.

Að því er varði d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. verði að telja að þar sem kærandi skuldi skatt á grundvelli sektar frá yfirskattanefnd hljóti ákvæðið að koma til skoðunar. Fyrir liggi að kærandi skuldi eftirstöðvar skattsektar að fjárhæð 2.913.073 krónur. Fjárhæðin sé í sjálfu sér nokkuð há og verði að telja að d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu miðað við tekjur og eignastöðu kæranda og fjárhæð sektarinnar.

Kæranda hafi verið veitt tækifæri til þess að tjá sig skriflega um efni málsins og leggja fram gögn er styddu frásögn hennar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge. og c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Engin svör hafi borist frá kæranda þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og því byggi umboðsmaður ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum.

Með hliðsjón af eðli og fjárhæð skulda kæranda og öðrum atvikum málsins er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c- og d-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skal taka sérstakt tillit til atriða sem talin eru upp í stafliðum a–g. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. grundvallast öll á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Á meðal þeirra er d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars á grundvelli þess ákvæðis.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi er skuld vegna skattsektar yfirskattanefndar frá 2008, upphaflega að fjárhæð 3.300.000 krónur. Sektin var lögð á kæranda sem stjórnarformanns skattaðilans U ehf. vegna brota hennar á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 vegna rekstrarársins 2003 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 vegna rekstraráranna 2003 og 2004.

Að því er varðar skattsektina verður að líta til ákvæða d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sem hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með brotum sínum á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 hefur kærandi bakað sér skuldbindingu, sbr. nefnda skattsekt, sem til álita kemur á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Það svigrúm sem kærunefndin hefur til mats í máli þessu að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er hvort fjárhæð skattsektar nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra veðbanda sem hvíla á fasteign kæranda vegna skulda lögaðila sem eru gjaldþrota er eignastaða hennar neikvæð um liðlega 21.000.000 króna. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi, þ.e. skattsekt að fjárhæð 2.913.037 krónur miðað við árið 2012, nemur 3,8% af heildarskuldum hennar. Verður að telja sektarfjárhæðina mjög háa með tilliti til eignastöðu og tekna kæranda. Þetta er skuld sem ekki fellur undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessarar skuldar með refsiverðri háttsemi eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur, sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuld sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að hana verði að telja verulega miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar. Þykir því ekki vera þörf á að meta hvort aðrir stafliðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun leiði einnig til þeirrar niðurstöðu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta