Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 38/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                       

Miðvikudaginn 8. október 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 38/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 25. júní 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Kópavogsbæjar, dags. 7. maí 2014, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ sumarið 2013 en var synjað á þeirri forsendu að hann væri í lánshæfu námi. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 19. júlí 2013 sem kvað upp úrskurð í málinu á fundi nefndarinnar, dags. 12. febrúar 2014, þar sem hin kærða ákvörðun var felld úr gildi og lagt fyrir Kópavogsbæ að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Með bréfi, dags. 24. mars 2014, óskaði Kópavogsbær eftir að kærandi legði fram yfirlit eða staðfestingu á umsóknum um þau störf sem hann hafi sótt um fyrir sumarið 2013. Kærandi veitti Kópavogsbæ umbeðnar upplýsingar með tölvupósti þann 7. apríl 2014. Með bréfi, dags. 9. apríl 2014, var beiðni kæranda synjað á ný á þeirri forsendu að hann hafi ekki sinnt því að sækja um sumarstarf hjá Kópavogsbæ eða Vinnumálastofnun innan tilskilins umsóknarfrests. Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálaráðs Kópavogsbæjar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 6. maí 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Félagsmálaráð staðfestir synjun velferðarsviðs Kópavogs þann 9. apríl sl.“     

Niðurstaða félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. maí 2014, og með bréfi, dags. 15. maí 2014, var kæranda veittur rökstuðningur vegna synjunarinnar. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 25. júní 2014. Með bréfi, dags. 16. júlí 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Kópavogsbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 19. ágúst 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 22. ágúst 2014, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi telur að Kópavogsbær hafi ekki og ætli ekki að taka umsókn hans til löglegrar meðferðar líkt og úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hafi lagt til í úrskurði sínum frá 12. febrúar 2014.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að samkvæmt 23. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð njóti þeir einstaklingar sem stundi lánshæft nám ekki fjárhagsaðstoðar. Ákvæðið byggi á því sjónarmiði að öllum þeim sem sæki um aðstoð sé skylt að leita sér atvinnu og taka þeirri atvinnu sem bjóðist nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar vottfestar ástæður hamli því, sbr. 3. gr. reglnanna. Hafi einstaklingur sem ljúki námi á vorönn sótt um áframhaldandi skólavist að hausti sé litið svo á að hann sé áfram í námi. Einstaklingar í námi teljist ekki vera í virkri atvinnuleit og jafnframt sé talið að framfærsla þeirra sé trygg í formi námslána. Kæranda hafi því verið synjað um fjárhagsaðstoð en boðið lán sem hann hafi þegið. Fjárhagsaðstoð sveitarfélags geti verið lán eða styrkur og því hafi kærandi í raun fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu.

Mál kæranda hafi verið tekið aftur til meðferðar í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar og kannað hvort skilyrði 26. gr. reglna Kópavogsbæjar ættu við um kæranda líkt og kveðið hafi verið á um í úrskurðinum. Í 26. gr. reglnanna sé kveðið á um heimild til að veita þeim sem ekki hafi lokið grunn- eða framhaldsskóla vegna félagslegra erfiðleika námsstyrk. Kærandi hafi ekki sótt um slíkan styrk heldur hafi hann farið fram á framfærslu í þrjá mánuði þar sem hann hafði ekki fundið sumarvinnu. Ákvæði 26. gr. reglnanna hafi því ekki átt við um kæranda.

Á einstaklingum hvíli sú skylda að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Kærandi hafi ekki getað sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann hafi leitað sér að starfi, sbr. 3. gr. reglnanna, en Kópavogsbær hafi tryggt öllum námsmönnum sumarvinnu árið 2013. Vinnumálastofnun hafi einnig verið með atvinnuátak fyrir námsmenn þetta sumar. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi sótt um vinnu hjá Kópavogsbæ sumarið 2013.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 30. desember 2003, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Kópavogsbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Samkvæmt 2. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er fjárhagsaðstoð veitt þeim einstaklingum og fjölskyldum sem eiga lögheimili í Kópavogi í þeim tilgangi að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi. Er fjárhagsaðstoð veitt í þeim tilvikum þegar einstaklingar hafa ónægar tekjur sér til framfærslu og geta ekki séð sér og sínum farboða, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 3. gr. reglnanna kemur fram að þeim sem sækir um fjárhagsaðstoð sé skylt að leita sér atvinnu og taka þeirri atvinnu sem býðst nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar vottfestar ástæður hamli því. Kærandi hefur veitt upplýsingar um þau störf sem hann sótti um fyrir sumarið 2013 en ekki lagt fram staðfestingu eða sönnun þess efnis. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi því ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann hafi sinnt skyldu sinni samkvæmt 3. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Að því virtu verður hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 7. maí 2014, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta