Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 359/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 359/2020

Fimmtudaginn 22. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júlí 2020, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 19. apríl 2020. Meðfylgjandi umsókn kæranda var vottorð frá fyrrverandi vinnuveitanda þar sem fram kemur að kærandi hafi farið í fæðingarorlof og ekki komið aftur til starfa hjá B. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. júní 2020, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna starfsloka. Í skýringum kæranda kom fram að hún hefði sagt upp vegna flutninga frá B til C. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hennar hjá síðasta vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi sendi Vinnumálastofnun frekari skýringar þar sem fram kemur að kærandi hafi keypt húsnæði á C og sagt upp vegna flutninga. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júlí 2020, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun í máli hennar væri staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. júlí 2020. Með bréfi, dags. 22. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. ágúst 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. september 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sagt upp vinnu sinni vegna flutnings frá B til C og hún geti því ekki sótt börnin sín í dagvistun. Þetta séu 57 kílómetrar í vinnuna og það taki rúmlega 50 mínútur að keyra aðra leiðina. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur og fengið tveggja mánaða viðurlög. Hún hafi fengið fund hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem hafi ekki verið sammála niðurstöðu Vinnumálastofnunar og leiðbeint henni að fá málið endurupptekið.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í greinargerð með frumvarpi því, sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar, sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf sé ekki í boði. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerðinni sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður, sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum, séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik verið talin falla þar undir. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir á því hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun vísar til þess að tilgangur laga nr. 54/2006 sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Ljóst sé að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu. Ágreiningur málsins lúti að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar komi fram að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu vegna þess að hún hafi flutt frá B til C. Kærandi gaf þær skýringar að hún myndi ekki komast til og frá vinnu. Auk þess myndi hún ekki ná að sækja börnin sín í dagvistun. Hún hafi í kjölfarið sagt starfi sínu lausu vegna flutninga. Vinnumálastofnun tekur fram að búferlaflutningar hafi einir og sér ekki talist gild ástæða fyrir uppsögn á starfi í skilningi laga nr. 54/2006, enda hafi kærandi sjálf tekið ákvörðun um að flytja búferlum. Slíkar ástæður hafi helst verið taldar gildar í þeim tilfellum sem maki hins tryggða hafi hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hafi af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Þar að auki, í ljósi d- og e-liða 14. gr. laga nr. 54/2006, hafi lengd frá vinnustað kæranda ekki verið nægjanleg ástæða fyrir uppsögn í skilningi 1. mgr. 54. gr. Ekki verði fallist á að aðrar ástæður er kærandi hafi fært fram í máli sínu geti talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir á því hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi sagt upp starfi sínu vegna flutnings til C. Samkvæmt framangreindum skýringum ákvað kærandi að flytja til C sem varð þess valdandi að hún sagði upp starfi sínu. Líkt og fram hefur komið eru gerðar ríkar kröfur um ástæður uppsagnar og hafa búferlaflutningar fjarri vinnustað almennt ekki verið talin gild ástæða. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilgreindar ástæður kæranda fyrir starfslokum hennar séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu bar kæranda að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júlí 2020, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta