Hoppa yfir valmynd

Nr. 654/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 15. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 654/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100043

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 14. október 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Gana (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. október 2021, um að synja henni um dvalarleyfi vegna vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna vistráðningar hinn 4. maí 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. október 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar hinn 14. október 2021 og bárust athugasemdir kæranda hinn 23. október 2021.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt vistsamningi væru vistforeldrar kæranda annars vegar ríkisborgari Spánar og hins vegar ríkisborgari Gana. Dvöl EES-borgarans hefði verið skráð í Þjóðskrá Íslands hinn 20. nóvember 2017 og nyti hann því tímabundins dvalarréttar til fimm ára, sbr. 84. gr. laga um útlendinga. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að vistforeldrar kæranda uppfylltu ekki skilyrði 2. mgr. 68. gr. og var umsókninni því synjað.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Ekki er þörf á að rekja það sem fram kemur í athugasemdum kæranda fyrir úrlausn málsins.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 68. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna vistráðningar. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli samnings um vistráðningu á heimili fjölskyldu hér á landi. Umsækjandi þarf að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. og má ekki vera yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára þegar umsókn er lögð fram. Í 2. mgr. 68. gr. kemur fram að vistfjölskylda skuli samanstanda af hjónum eða sambúðarmökum með barni eða börnum eða einstæðu foreldri með barn eða börn. Ef vistfjölskylda samanstendur af aðilum sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar þarf a.m.k. annað hjóna eða sambúðarmaka að vera komið með ótímabundið dvalarleyfi. Ekki mega vera fjölskyldutengsl milli umsækjanda og vistfjölskyldu.

Samkvæmt vistráðningarsamningi samanstendur vistfjölskylda kæranda af […], ríkisborgara Spánar, og maka hans, […], ríkisborgara Gana. Dvöl […]á Íslandi var skráð í Þjóðskrá Íslands hinn 20. nóvember 2017 og grundvallast dvöl hans á landinu á XI. kafla laga um útlendinga sem fjallar um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, sbr. 84. gr. laganna. […] fékk útgefinn dvalarétt fyrir aðstandendur EES-borgara hinn 23. október 2019.

Samkvæmt 1. mgr. 87. gr. laga um útlendinga hefur EES- eða EFTA-borgari sem skv. 84. eða 85. gr. hefur dvalist löglega í landinu í samfellt minnst fimm ár rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Í 2. mgr. 68. gr. er gerður sá áskilnaður að ef vistfjölskylda samanstendur af aðilum sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar þurfi a.m.k. annað hjóna eða sambúðarmaki að vera komið með ótímabundið dvalarleyfi. Eins og áður greinir er […] ekki með ótímabundinn dvalarrétt á Íslandi en hann mun að öllu óbreyttu og að fullnægðum öðrum skilyrðum XI. kafla laganna uppfylla slíkan rétt hinn 20. nóvember 2022. Að framangreindu virtu uppfyllir vistfjölskylda kæranda ekki ófrávíkjanlegt skilyrði 2. mgr. 68. gr. laga um útlendinga og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta