Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 44/2011

Mánudaginn 16. september 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Þórhildur Líndal og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. ágúst 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. ágúst 2011, þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 2. september 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. september 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. september 2011 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 2. nóvember 2011. Athugasemdir kæranda voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 8. nóvember 2011 sem skilaði framhaldsgreinargerð 24. nóvember 2011.

I. Málsatvik

Kærandi býr ásamt syni sínum í fasteign sinni að B götu nr. 60 í sveitarfélaginu C. Að sögn kæranda hefur hún verið í sambandi með barnsföður sínum. Kærandi starfar sem markaðsgreinir hjá X og nettótekjur hennar eru 242.881 króna á mánuði. Auk þess fær hún mánaðarlega 15.691 krónu í barnabætur, 41.667 krónur í vaxtabætur og 16.648 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu.

Í málinu liggja fyrir tvær greinargerðir af hálfu kæranda. Í þeirri fyrri, frá september 2010, kemur fram að kærandi sé einstæð móðir. Jafnframt kemur fram að kærandi telji fjárhagserfiðleika sína einkum mega rekja til offjárfestinga, aðallega í bifreiðum. Á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað hafi hún verið í sambandi með barnsföður sínum og ráðstöfunartekjur heimilisins því verið hærri. Þau hafi síðan slitið samvistum og hún setið uppi með skuldbindingarnar á sínu nafni. Þegar til skuldbindinganna var stofnað hafi kærandi talið sig geta staðið undir þeim en hafi ekki séð fyrir hrunið og afleiðingar þess, frekar en aðrir. Í seinni greinargerð kæranda, frá maí 2011, kemur fram að kærandi sé í sambandi með barnsföður sínum og að fjárhagur þeirra sé nátengdur.

Heildarskuldir kæranda eru 51.330.391 króna samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þær falla allar undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Helstu skuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara skiptast þannig:

Kröfuhafi Tegund Ár   Höfuðstóll Staða 2011
Arion banki hf. Veðkrafa 2004   12.000.000 kr. 19.514.505 kr.
Landsbankinn hf. Skuldabréf 2004   1.000.000 kr. 681.937 kr.
Landsbankinn hf. Veðkrafa 2005   1.895.000 kr. 2.886.698 kr.
Lýsing hf. Bílasamningur 2006   4.811.268 kr. 1.306.077 kr.
Lýsing hf. Bílasamningur 2006   2.810.175 kr.
Lýsing hf. Bílasamningur 2006   63.406 kr.
Arion banki hf. Veðkrafa 2006   5.740.722 kr. 8.916.680 kr.
Arion banki hf. Veðkrafa 2006   2.290.000 kr. 3.121.297 kr.
Arion banki hf. Skuldabréf 2007   1.200.000 kr. 1.280.386 kr.
Lýsing hf. Veðkrafa 2007   976.523 kr. 994.141 kr.
Avant hf. Bílasamningur 2007   6.485.271 kr.
Arion banki hf. Yfirdráttarskuld     1.786.616 kr.
Landsbankinn hf. Kreditkort     333.015 kr.
Valitor Kreditkort       545.336 kr.
Aðrir Aðrar skuldir     604.851 kr.
Samtals: 51.330.391 kr.

Þann 26. júlí 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Umsókn hennar var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. ágúst 2011 með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að fallist verði á umsókn hennar um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010.

Kærandi telur ótækt að umboðsmaður skuldara skuli ekki byggja almenna greiðslufærni hennar árin 2006 og 2007 á þeim fjárhæðum sem lagðar hafi verið inn á reikning hennar á tímabilinu. Kærandi telur að umboðsmaður hafi ekki gert ráð fyrir við mat sitt að þær fjárhagslegu ákvarðanir sem kærandi tók árin 2006 og 2007 hafi miðast við nátengdan fjárhag við maka hennar og barnsföður. Þær fjárhæðir sem lagðar voru inn á reikning hennar á tímabilinu, samtals um 6.347.804 krónur, eigi að sýna greiðslufærni hennar.

Kærandi bendir á að þrátt fyrir að bú barnsföður kæranda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og hann lagt fé inn á reikning kæranda sé það rangt að hann hafi með þessu skotið tekjum undan eins og fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Kærandi kveður ástæðuna fyrir því að fjármunir hafi verið lagðir inn á reikning hennar hafa verið þá að barnsföður hennar hafi verið neitað um að opna almennan bankareikning vegna gjaldþrotsins. Kærandi telur það ekki koma máli sínu við hvort greiddur hafi verið tekjuskattur af tekjum barnsföður síns.

Kærandi hafnar þeirri fullyrðingu umboðsmanns skuldara að hún hafi kosið að skila ekki inn frekari gögnum til skýringa á þeim fjármunum sem lagðir voru inn á reikning hennar. Umboðsmaður hafi gefið henni kost á að leggja fram frekari gögn án þess að tilgreina hvaða gögn hann vildi. Kærandi hafi litið svo á að öll gögn lægju fyrir til að útskýra þessar fjárhæðir.

Kærandi bendir á að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið byggð á huglægu mati en í því felist að kærandi hafi verið greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar á þeim tíma sem hún stofnaði til skulda sinna. Einnig sé það huglægt mat umboðsmanns að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar. Kærandi telur að ekki sé hægt að líta fram hjá því að þau fjármálafyrirtæki sem lánuðu kæranda gerðu á sínum tíma greiðslumat og töldu í kjölfarið að kærandi gæti staðið undir þeim skuldbindingum sem hún stofnaði til gagnvart þeim.

Kærandi hafi ástundað bifreiðaviðskipti í hagnaðarskyni og því keypt nokkrar bifreiðir á þeim tíma sem um ræðir. Umboðsmaður skuldara líti framhjá því að yfirleitt hafi tekist að selja bifreiðirnar aftur með hagnaði en verðmæti þeirra hafi átt að standa undir þeim lánum sem kærandi hafi tekið vegna kaupa á þeim. Það sé því rangt að kærandi hafi verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar á þessum tíma. Hún hafi þvert á móti sýnt fram á að hún hafi getað staðið við þær, enda hafi hún gert það framyfir bankahrun að frátöldum tveimur samningum frá 2006, sem rift hafi verið um mitt ár 2007. Þá samninga hafi kærandi ætlað að uppfylla með því að selja þær bifreiðir sem samningarnir lutu að. Kærandi dragi jafnframt í efa að eftirstöðvar þessara tveggja samninga samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara séu réttar.

Kærandi bendir á að hún hafi ekki gert ráð fyrir að þau lán sem hún tók væru ólögmæt og að þau myndu hækka upp úr öllu valdi. Kærandi telur að allir útreikningar og kröfur um greiðslu eftirstöðva séu því tölulega rangar og að umboðsmaður eigi ekki að taka öllum upplýsingum um eftirstöðvar lána frá kröfuhöfum sem gefnum 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 3. ágúst 2011 með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. lagagreinarinnar komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi jafnframt fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara bendir á að samkvæmt gögnum málsins hafi nettótekjur kæranda verið að meðaltali um 223.187 krónur á mánuði tekjuárið 2006 og 190.741 króna á mánuði tekjuárið 2007. Árið 2006 hafi kærandi keypt fasteignina að B götu nr. 60 og tekið til þess þrjú lán hjá Arion banka. Fyrir hafi kærandi verið með tvö lán hjá Landsbankanum. Í janúar 2007 hafi hún aftur tekið lán hjá Arion banka. Mánaðarlegar afborganir vegna þessara sex lána námu 190.856 krónum í ársbyrjun 2007.

Kærandi hafi síðan stofnað til enn frekari skuldbindinga árin 2006 og 2007 með gerð fimm bílasamninga við Lýsingu og Avant. Um mitt ár 2007 hafi afborganir vegna þessara bílasamninga og húsnæðislána sem voru áhvílandi á kæranda í ársbyrjun 2007 verið samtals u.þ.b. 473.856 krónur á mánuði. Á sama tíma, þ.e. árið 2007, hafi nettótekjur kæranda verið að meðaltali 190.741 króna á mánuði. Umboðsmaður telur því ljóst að kærandi hafi verið greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar á grundvelli uppgefinna tekna.

Umboðsmaður bendir jafnframt á að tveimur bílasamningum kæranda frá 2006 hafi verið rift um mitt ár 2007 og vörslusvipting bifreiðanna farið fram. Engar útskýringar hafi komið frá kæranda um hver hafi verið ástæðan fyrir riftununum, en samkvæmt greinargerð kæranda telur hún sig hafa verið greiðslufæra á þessum tíma.

Umboðsmaður skuldara bendir á að í skýringum kæranda hafi komið fram að tekjur barnsföður hennar að fjárhæð 6.347.804 krónur hafi verið lagðar inn á reikning hennar á tímabilinu 2006 til 2007. Umrædd fjárhæð eigi samkvæmt kæranda að sýna fram á greiðslufærni hennar.

Að mati umboðsmanns skuldara sé ótækt að byggja almenna greiðslufærni kæranda árin 2006‒2007 á þeim fjárhæðum sem lagðar voru inn á reikning hennar. Að sögn kæranda hafi launatekjur barnsföður hennar verið lagðar inn á reikning hennar vegna þess að hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota. Ekki hafi verið greint frá því hvernig þessara fjármuna hafi verið aflað eða hvort greiddur hafi verið af þeim tekjuskattur. Enn fremur sé óljóst hvort kærandi hafi mátt gera ráð fyrir að launatekjur barnsföður yrðu áfram lagðar inn á reikning kæranda og henni til ráðstöfunar þannig að miða mætti greiðslugetu hennar til lengri tíma við þær. Kærandi hafi alla tíð verið skráð einstæð móðir og einungis hún og sonur hennar eigi lögheimili að B götu nr. 60. Kærandi hafi ekki lagt fram frekari gögn, gert sérstaklega grein fyrir ætluðum launatekjum barnsföður síns eða upplýst um hvort þær hafi verið nýttar að fullu til helmings framfærslu heimilisins á undangengnum árum. Umboðsmaður telur að gögn sem skýri þetta séu nauðsynleg við mat á þeirri fjárhagslegu áhættu sem kærandi tók árin 2006‒2007. Þau hafi ekki borist umboðsmanni þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, meðal annars í tölvupósti frá 17. maí 2011.

Um þá fullyrðingu í ákvörðun umboðsmanns að barnsfaðir kæranda hafi lagt tekjur sínar inn á bankareikning kæranda til að komast hjá því að tekjurnar færu upp í kröfur gjaldþrotabús hans, tekur umboðsmaður fram að í ákvörðuninni sé vitnað til þess sem starfsmaður umboðsmanns segi að fram hafi komið í samtali við umboðsmann kæranda. Í tölvupósti 17. maí 2011 hafi jafnframt verið óskað eftir að umboðsmaður kæranda staðfesti að taka ætti ákvörðun meðal annars á grundvelli þessara upplýsinga, sem hann hafi ekki gert. Þar sem þetta atriði sé ekki hluti rökstuðnings fyrir synjun um greiðsluaðlögun verði ekki séð að máli skipti hvort þetta sé rétt eða ekki.

Umboðsmaður telur ljóst að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Einnig sé óhæfilegt að veita heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 1. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til b-liðar, og 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til c-liðar. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í c-lið 2. mgr. 6. gr. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Eðlismunur er á ákvæði 1. mgr. 6. gr. laganna annars vegar og 2. mgr. 6. gr. hins vegar. Fyrrnefnda ákvæðið leiðir til þess að umboðsmanni er skylt að synja umsókn en það síðarnefnda veitir umboðsmanni aftur á móti heimild til synjunar á umsókn í kjölfar heildarmats á umsókn og með tilliti til þeirra þátta sem fram koma í a‒g-liðum ákvæðisins. Eigi eitthvert þeirra atriða sem talin eru upp í 1. mgr. 6. gr. við í málinu kemur ekki til þess mats sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 6. gr.

Að mati kærunefndarinnar þykir rétt að ganga út frá því að niðurstaða umboðsmanns skuldara byggi fyrst og fremst á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., en þar er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærandi hafi ekki útskýrt hvernig þeirra fjármuna var aflað sem barnsfaðir hennar og þáverandi sambýlismaður lagði inn á reikning hennar árin 2006‒2007. Kærandi hafi heldur ekki útskýrt hvort greiddur hafi verið tekjuskattur af þeim. Þá sé enn fremur óljóst hvort kærandi hafi gert ráð fyrir að greiðslur frá barnsföður hennar myndu halda áfram að berast inn á reikning hennar þannig að greiðslugetu hennar til lengri tíma mætti miða við þær greiðslur sem hluta ráðstöfunartekna, sem og getu hennar til að stofna til frekari skuldbindinga. Að lokum hafi kærandi ekki lagt fram gögn eða gert sérstaklega grein fyrir launatekjum barnsföður síns og hvort þær tekjur hafi verið notaðar ásamt hennar tekjum til framfærslu heimilisins undanfarin ár.

Þegar kærandi sótti um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara haustið 2010 kom fram í greinargerð með umsókn hennar að hún væri einstæð móðir og byggi með syni sínum. Þegar stofnað var til helstu skuldbindinga árin 2006‒2007 hafi kærandi verið í óskráðri sambúð með barnsföður sínum en sæti nú ein eftir með skuldirnar úr þeirri sambúð. Í annarri greinargerð sem umboðsmaður kæranda skilaði inn vorið 2011 kemur aftur á móti fram að kærandi hafi tekið upp sambúð við barnsföður sinn að nýju.

Í 4. gr. lge. eru talin upp fjölmörg atriði sem skuldari skal tilgreina í umsókn sinni um greiðsluaðlögun. Í 3. mgr. 4. gr. er mælt fyrir um að umsókn skuldara skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hafi að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Fylgigögnum með umsókn um greiðsluaðlögun er þannig ætlað að draga upp heildarmynd af fjárhag skuldara undanfarin ár og hvernig ætla megi að hann þróist næstu árin. Nauðsynlegt er að gögnin séu nægilega skýr til að hægt sé að leggja mat á hvort atriði sem tilgreind eru í 2. mgr. 6. gr. lge. girði fyrir að skuldara verði veitt greiðsluaðlögun. Þegar skuldari sækir um greiðsluaðlögun er þannig nauðsynlegt að þau gögn sem hann leggur fram umsókn sinni til stuðnings varpi skýru ljósi á fjárhag hans, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr.

Í framlögðum viðbótargögnum hefur kærandi borið því við að hún hafi getað staðið skil á skuldbindingum sínum þegar helstu lán voru tekin 2006‒2007 með aðstoð barnsföður síns. Til marks um það kveðst kærandi hafa lagt fram gögn sem sýni að tekjur hennar frá apríl 2006 til mars 2008 hafi verið lagðar inn á bankareikning hennar, samtals 11.287.055 krónur. Umrædd gögn eru 21 reikningur útgefnir á tímabilinu apríl 2006 til mars 2008. Ekki kemur fram hver er útgefandi reikninganna. Framlagðir reikningar bera með sér að um verktakavinnu hafi verið að ræða. Þær fjárhæðir sem kærandi tiltekur að hafi verið lagðar inn á reikning hennar bera ekki með sér að gert hafi verið ráð fyrir skilum virðisaukaskatts, staðgreiðsluskatts eða launatengdra gjalda í ríkissjóð vegna vinnunnar. Þannig er enn óljóst hver er hin raunverulega fjárhæð sem sambýlismaður kæranda hafi verið fær um að leggja til sameiginlegs heimilisreksturs og afborgana af lánum. Miðað við framangreint gefa fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar svo sem áskilið er í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir telur kærunefndin að fallast beri á það með umboðsmanni skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar og verður ákvörðun umboðsmanns því staðfest með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta