Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 136/2013

Mánudaginn 23. september 2013

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnardóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 6. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B héraðsdómslögmanns, sem tilkynnt var með bréfi 13. ágúst 2013 þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 25. maí 2011. Þann 10. júní 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda en skipun hans var afturkölluð í maí 2012. B héraðsdómslögmaður var skipuð umsjónarmaður með greiðsluaðlögun kæranda 7. maí 2012.

Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi var fyrst sent kröfuhöfum 28. júní 2012. Kröfuhafar gerðu ýmsar athugasemdir við frumvarpið og var lagfært frumvarp sent kröfuhöfum 9. ágúst 2012. Landsbankinn óskaði skýringa á því hvers vegna kærandi hafi ekki lagt til hliðar frekari fjármuni á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Umsjónarmaður leitaði skýringa hjá kæranda hvers vegna ekki hafi verið lagt fyrir í samræmi við greiðslugetu. Samkvæmt skýringum kæranda hafi hún þurft að standa straum af miklum tannlæknakostnaði og kostnaði vegna fermingar sonar síns. Lagði kærandi fram reikninga sem sýndi greiðslur uppá samtals 554.574 krónur. Skýringar kæranda voru sendar Landsbankanum. Umsjónarmaður sendi kröfuhöfum uppfært frumvarp 14. maí 2013.

Athugasemdir við frumvarpið bárust frá Íbúðalánasjóði sem gerði meðal annars athugasemdir við sparnað kæranda á tímabili greiðsluskjóls. Benti sjóðurinn á að þegar frumvarp var sent út í ágúst 2012 hafi kærandi aðeins lagt fyrir 64.590 krónur. Síðan frumvarpið hafi verið lagt fram væru liðnir níu mánuðir og hafi kærandi aðeins lagt fyrir 173.819 krónur þrátt fyrir að greiðslugeta hennar á mánuði væri um 90.000 krónur undanfarna mánuði. Að mati Íbúðalánasjóðs væri þetta vísbending um að kærandi gæti ekki staðið við samninginn.

Umsjónarmaður upplýsti kæranda um stöðu málsins og óskaði skýringa á því að ekki hafi verið lagðir fyrir frekari fjármunir á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Fram kemur í fyrirspurn umsjónarmanns til kæranda að samkvæmt útreikningum hafi verið lagðar fyrir 322.819 krónur á níu mánaða tímabili, en samkvæmt greiðslugetu kæranda upp á 90.000 krónur á mánuði ætti kærandi að hafa lagt fyrir 810.000 krónur.

Kærandi sendi umsjónarmanni skýringar með tölvupósti 28. júní 2013 þess efnis að hún hafi þurft að leggja út fjármuni vegna viðhalds bifreiðar. Kærandi sendi umsjónarmanni ítarlegri skýringar 1. ágúst 2013 þar sem fram kemur að umrædd fjárútlát hafi verið vegna varahluta og viðhalds bifreiðar sambýlismanns hennar. Meðfylgjandi var yfirlit vegna greiðslna af reikningi sambýlismanns kæranda að fjárhæð 557.149 krónur.

Með tölvupósti 3. júlí 2013 upplýsti umsjónarmaður kæranda um að hún teldi samninga fullreynda og kærandi gæti leitað nauðasamninga fyrir dómstólum væri það ósk hennar. Kærandi tilkynnti umsjónarmanni með bréfi 6. ágúst 2013 að hún vildi leita nauðasamninga.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 13. ágúst 2013 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að við mat á því hvort mælt sé með nauðasamningum skuli líta til þeirra atriða sem vísað sé til í 18. gr. lge. og fjallað er um í athugasemdum við frumvarp laganna. Þar segi meðal annars að líta beri til þess hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge., þar á meðal hvort hann hafi lagt til hliðar af tekjum sínum umfram framfærsluþörf sína og fjölskyldu sinnar. Kærandi hafi einungis lagt fyrir 238.409 krónur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitanar. Þegar drög að frumvarpi voru send til kröfuhafa í maí og ágúst 2012 hafði kærandi einungis lagt fyrir 64.590 krónur þar sem hún hafi þurft að leggja út í talsverðan tannlæknakostnað og kostnað vegna fermingar sonar síns. Frá því frumvarpið var sent til kröfuhafa í ágúst 2012 og þar til í það var sent út aftur í maí 2013 lagði kærandi aðeins fyrir 173.819 krónur þrátt fyrir að hafa átt að geta lagt fyrir 810.387 krónur.

Skýringar kæranda hvers vegna sparnaður hennar hafi ekki verið meiri en raun bar vitni voru á þá leið að hún hafi þurft að leggja út í talsverðan kostnað vegna viðgerðar á bifreið sambýlismanns hennar. Lagði kærandi fram yfirlit af bankareikningi en gat ekki lagt fram kvittanir þar sem megnið af varahlutunum voru keyptir í gegnum Netið. Áður hafi kærandi lýst því yfir í tölvupósti 4. júní 2013 að hún hefði lagt fyrir 150.000 krónur sem hefðu átt að nýtast henni sem varasjóður vegna óvæntra atvika. Þessa fjármuni hafði umsjónarmaður enga vitneskju um fyrr en með þessum tölvupósti.

Samkvæmt úttektaryfirliti af reikningi sambýlismanns kæranda hafa 557.149 krónur farið í flokk sem merktur sé bílaviðgerðir og viðhald á tímabilinu 21. nóvember 2012 til 1. mars 2013. Þar sem kærandi sé ein í greiðsluaðlögun en í sambúð sé eðlilegt að áætla að sambýlismaður hennar greiði að minnsta kosti helming af viðgerðarkostnaði. Hlutur kæranda ætti því að vera 278.575 krónur.

Sparnaður kæranda á tímabilinu ágúst 2012 fram til maí 2013 hafi einungis verið 173.819 krónur en að viðbættum hennar hlut í viðgerð á bifreið nemi fjárhæðin 452.394 krónum. Þetta sé rétt rúmlega helmingur þeirrar fjárhæðar sem hún hefði getað lagt til hliðar á tímabilinu.

Með vísan til þess að skuldari hafi ekki sinnt skyldu sinni að leggja til hliðar fjármuni umfram framfærslu og að umsjónarmaður hafi ekki verið upplýstur um viðbótarsparnað kæranda, var það niðurstaða umsjónarmanns að mæla hvorki með að reyndir verði nauðasamningar fyrir dómstólum né greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að reyndir verði nauðasamningar og eftir atvikum greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

Í ljósi breyttra aðstæðna, þar sem fasteign kæranda sé nú í útleigu og standi þar af leiðandi undir þeim greiðslum sem um hafi verið rætt, fari kærandi fram á að tekið verði tillit til þess.

Fasteign kæranda hafi verið leigð út 1. september 2013 til tólf mánaða á 150.000 krónur á mánuði að frádregnum rafmagns- og hitakostnaði. Kærandi leggur til að sú fjárhæð, að frádregnum fjármagnstekjuskatti, verði mánaðarleg greiðsla hennar á tímabilinu. Upphaflega hafi verið rætt um 90.000 króna greiðslugetu á mánuði, og því sé staðan betri að svo komnu máli. Sé það von kæranda að málið verði tekið upp að nýju og afgreitt, enda hafi ferlið tekið nógu langan tíma.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á byggðist í fyrsta lagi á því að kærandi hefði ekki staðið við skyldur sínar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í öðru lagi byggðist ákvörðun umsjónarmanns á því að kærandi hafi ekki upplýst umsjónarmann um viðbótarsparnað að fjárhæð 150.000 krónur.

Í 1. mgr. 18. gr. lge. kemur fram að áður en umsjónarmaður tekur ákvörðun um hvort hann mæli með nauðasamningi og/eða greiðsluaðlögun fasteignveðkrafna og eftir að kærandi hefur óskað eftir úrræði 18. gr., skal umsjónarmaður gefa skuldara kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Í þessu felst að umsjónarmaður skal í samstarfi við skuldara leggja fram nýtt frumvarp sé það ósk hans. Í tilfelli kæranda gerði Íbúðalánasjóður athugasemdir við sparnað kæranda og var kærandi með skýringar vegna athugasemdanna. Samkvæmt gögnum málsins bauð umsjónarmaður kæranda ekki að endurskoða frumvarpið eins og kveðið er á um í 1. mgr. 18. gr. lge. og hefur því ekki gætt þeirra málsmeðferðarreglna sem fram koma í lagaákvæðinu. Mat umsjónarmanns á þessum tíma var að ekki hafi verið skilyrði fyrir því að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærandi hafi lagt til hliðar minni fjármuni en hún gat. Bar umsjónarmanni því að fara með málið eftir 15. gr. lge. þar sem fram kemur að undir slíkum kringumstæðum skuli senda málið til ákvörðunar umboðsmanns skuldara að fengnum skýringum kæranda.

Með vísan til framangreinds ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til meðferðar umboðsmanns skuldara.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn nauðasamningi A er felld úr gildi og málinu vísað til umboðsmanns skuldara.

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta