Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 10/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. janúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 7. janúar 2013 fjallað um fjarveru hans á boðað námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með 8. janúar 2013. Ákvörðun stofnunarinnar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 13. janúar 2013, og krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 18. ágúst 2010.

 

Kærandi var boðaður á námskeiðið „Upplýsingatækni og samskipti“ í október 2012. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar við kæranda er meðal annars skráð 29. október 2012 að kærandi hafi hringt og sé ósáttur við að vera boðaður á námskeið á Hvolsvelli, en honum finnist námskeiðið vera haldið of langt frá sér. Kæranda var þá bent á að sækja um akstursstyrk. Honum var einnig bent á að honum bæri skylda til þess að mæta og skráð er að kærandi hafi sagt að hann myndi mæta. Þá er skráð sama dag í samskiptasöguna að kærandi hafi sent stofnuninni tölvupóst þar sem fram kemur að hann hafi sótt um styrk/laun úr rithöfundasjóði til að vinna að bók. Hann hafi ekki fengið svar en hann muni mæta á námskeiðið sé ekkert annað í boði.

 

Vinnumálastofnun bárust upplýsingar um mætingu 11. desember 2012 þegar kennslu var lokið á námskeiðinu. Samkvæmt þeim upplýsingum mætti kærandi aldrei á fyrrgreint námskeið.

Með bréfi, dags. 12. desember 2012, var óskað eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hann hafi ekki sinnt mætingarskyldu. Skýringar kæranda bárust í bréfi, dags. 14. desember 2012, þar sem hann tilgreinir meðal annars að ástæður þess séu að hann hafi ekki bifreið til umráða, engar almenningssamgöngur séu á milli og hann hafi engin not fyrir námskeiðið. Enn fremur greinir hann frá því að hann sé að vinna að ólaunuðu verkefni.

 

Kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun eins og fyrr greinir með bréfi, dags. 8. janúar 2013.

 

Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram í kæru, dags. 13. janúar 2013, að hann hafi mótmælt því að sitja umrætt námskeið, hann hefði með engu móti getað sótt námskeiðið og ekkert haft með það að gera. Hann kveðst ekki eiga bifreið og engar almenningssamgöngur séu á milli. Um sé að ræða 80 km leið og sökum fárviðris hefði hann heldur ekki getað sótt námskeiðið. Stuttu eftir að hann hafi bjargað eignum sínum frá frekari skemmdum eftir fárviðri og þegar því var lokið hafi læknir ráðlagt honum að spara það að aka bifreið eða vera einn á ferð. Þrátt fyrir það sé hann vinnufær.

 

Í greinargerð Vinnumálstofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. mars 2013, kemur fram að málið lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna skýrt nánar. Þar komi fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 


 

 

Vinnumálastofnun bendir á að skv. g-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun býður upp á.

 

Vinnumálstofnun greinir frá því að í kæru og í skýringarbréfi kæranda til stofnunarinnar séu margvíslegar ástæður fyrir því að kærandi telur sig ekki þurfa að mæta á boðað vinnumarkaðsúrræði stofnunarinnar. Í skýringarbréfi, kæranda, dags. 12. desember 2012, segi hann meðal annars að hann hafi ekki þörf fyrir boðað námskeið. Einnig komi fram að hann hafi sótt um atvinnu á tveimur stöðum og námskeið á Hvolsvelli. Vinnumálastofnun greinir frá því að það sé mat stofnunarinnar að þó svo að kærandi hafi áður óskað eftir því að sitja á námskeiði á vegum stofnunarinnar eða sótt um störf á vinnumarkaði sé ekki hægt að fallast á að hann sé undanþeginn virkri atvinnuleit eða öðrum skyldum sem birtist í tilvitnuðum ákvæðum.

 

Vinnumálastofnun vísar til þess að kærandi segi meðal annars að ekki hafi verið fært á milli staða einhverja kennsludagana. Þó svo ófært hafi verið suma daga sé ljóst að kærandi gerði ekki tilraun til að mæta þá daga sem veður og færð stóð því ekki í vegi. Ekki verði séð að færð á vegum landsins hafi verið ástæða þess að kærandi kaus að virða úrræði stofnunarinnar að vettugi. Þeir dagar sem kæranda hafi verið ófært að mæta á námskeiðið sökum veðurs hefðu ekki leitt til ákvörðunar á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem Vinnumálastofnun geri ekki kröfur um að atvinnuleitendur mæti á boðuð námskeið þegar þeim sé það ómögulegt sökum veðurofsa eða ófærðar. Þar sem kærandi hafi aldrei mætt á umrætt námskeið telur stofnunin ekki tilefni til að horfa til ástæðna sem rekja megi til ófærðar.

 


 

Varðandi þá málsástæðu kæranda að hann hafi ekki bifreið til umráða og engar almenningssamgöngur séu á milli greinir Vinnumálastofnun frá því að þegar kærandi hafi verið boðaður á námskeiði hafi hann tjáð fulltrúa stofnunarinnar 29. október 2012 að hann hefði aðgang að bifreið en hann teldi sig þurfa að greiða óþarflega mikinn bensínkostnað. Hafi kæranda þá verið bent á að sækja um akstursstyrk. Þá telur Vinnumálastofnun að hvort sem kærandi hafði aðgang að bifreið eða ekki geti framangreindar skýringar ekki talist gildar fyrir höfnun á vinnumarkaðsúrræði á vegum stofnunarinnar. Kærandi búi á B sem sé um 42 km fjarlægð frá Hvolsvelli þar sem námskeiðið var haldið. Því verði ekki fallist á að atvinnuleit kæranda sé bundin við heimili hans og nærliggjandi sveitir. Eigi það jafnt við um boðun í vinnumarkaðsúrræði sem og aðrar skyldur sem lög um atvinnuleysistryggingar feli í sér. Óséð sé hvernig kærandi teljist uppfylla skilyrði h-liðar 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að hafa getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standi honum til boða, ef hann sé almennt ófær um að mæta í boðað vinnumarkaðsúrræði í því bæjarfélagi sem næst sé heimili hans. Bendir Vinnumálastofnun einnig á að samkvæmt skýringarbréfi kæranda hafði hann sjálfur óskað eftir því að sækja annað námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi ekki haft uppi framangreindan fyrirvara þegar hann sótti um þátttöku á þeim tíma.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. mars 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 12. apríl 2013. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 4. apríl 2013.

 

Í athugasemdum kæranda kemur meðal annars fram að hann hafi mætt á námskeiðið og talað við námskeiðshaldara sem hafi verið sammála um hans sjónarmið um námskeiðið. Hann hafi ekki fengið greinargóð svör við fyrirspurn sinni um bensínstyrk ef hann yrði á lánsbíl. Þá vekur kærandi athygli á skráningu í samskiptasögu Vinnumálastofnunar þar sem sú fullyrðing var skráð um hann 18. nóvember 1998 að hann væri maður sem hefði lent upp á kant við kerfið. Krefst kærandi þess að fullyrðingin verði þurrkuð út úr gögnum sjóðsins.

 

 


 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

 

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og þeir sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir eru vinnumarkaðsúrræði meðal annars einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni. Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til atvinnuleitanda. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða. Í 3. mgr. 13. gr. laganna er kveðið á um heimild til handa Vinnumálastofnun til þess að boða atvinnuleitanda til stofnunarinnar með sannanlegum hætti og skal atvinnuleitandi vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

 

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti aldrei á námskeið sem hann var boðaður í á vegum Vinnumálastofnunar. Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram að hann hafi ekki bifreið til umráða, engar almenningssamgöngur séu á milli og veðrið hafi verið vont. Þá hafi hann fengið óljósar upplýsingar um bensínstyrk. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar við kæranda er skráð 1. og 2. nóvember 2012 að kærandi komist ekki á Hvolsvöll vegna veðurs. Samkvæmt bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. desember 2012, var tímabil námskeiðsins 1. nóvember til 4. desember 2012. Ekki er að finna frekari upplýsingar um fjarveru kæranda.

 

Með vísan til þessa, þess sem fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar og þeirrar skyldu atvinnuleitenda að tilkynna án ástæðulausrar tafar til Vinnumálastofnunar ef hann telur að hann geti ekki mætt á boðað námskeið verður ekki talið að skýringar kæranda réttlæti það að hann hafi aldrei mætt á umrætt námskeið. Af þeim sökum ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 58., sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi krefst þess að sú fullyrðing í samskiptasögu Vinnumálastofnunar frá 19. nóvember 1998 að hann hafi lent upp á kant við kerfið verði þurrkuð út. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Umrædd fullyrðing fellur ekki undir framangreinda skilgreiningu og er kröfu kæranda þar að lútandi því vísað frá.


 

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. janúar 2013 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.

 

Kröfu kæranda um að nánar tiltekin fullyrðing í samskiptasögu Vinnumálastofnunar frá 19. nóvember 1998 verði þurrkuð út er vísað frá.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta