Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 110/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 110/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. ágúst 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 6. ágúst 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 16. júní 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 60 daga sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá 1. júní 2009, með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi 21. október 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að honum hafi verið refsað með 40 dögum fyrir að segja sjálfur upp starfi sínu, en það hafi hann gert vegna launalækkunar úr rúmum 300.000 kr. á mánuði í 200.000 kr. á mánuði og hann hafi jafnframt átt við langvarandi veikindi að stríða. Síðan hafi honum verið refsað með 60 dögum fyrir ítrekað brot, þegar honum var sagt upp fyrirvaralaust hjá X.

Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 13. mars 2008, starfaði kærandi sem bensínafgreiðslumaður frá 4. janúar til 24. febrúar 2008 hjá X. Um hafi verið að ræða tímabundna ráðningu en samkvæmt uppsagnarbréfi X, dags. 28. febrúar 2008, var kæranda sagt upp störfum vegna samskiptaörðugleika.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 3. mars 2008. Með bréfi Vinnumálastofnunar til hans, dags. 17. apríl 2008, var honum tilkynnt að stofnunin hefði frestað afgreiðslu umsóknar hans vegna upplýsinga um starfslok hjá X. Með öðru bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 28. apríl 2008, kemur fram að umsókn hans hafi verið samþykkt en með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði um starfslok hans hjá X hafi réttur hans til atvinnuleysisbóta verið felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hóf störf að nýju hjá Y hf. þann 12. mars 2008 og hafði þá ekki tekið út 40 daga biðtíma. Því starfi lauk þann 7. nóvember 2008 samkvæmt vottorði vinnuveitanda með því að kærandi hafi „horfið“. Kærandi kveður laun sín hafa verið lækkuð verulega eftir átta mánaða starf úr 300.000 kr. í 200.000 kr. Hann kveðst ekki hafa sætt sig við að hafa verið settur í lægsta byrjendataxta enda sé hann lærður bifvélavirki og vélvirki. Hann hafi því hótað uppsögn ef þetta yrði ekki leiðrétt. Hann hafi ekki gert nein mistök í starfi og gert allt sem fyrir hann hafi verið lagt. Stöðvarstjóri hafi síðan afhent honum bréf sem væri síðasta viðvörun um fyrirvaralausa uppsögn vegna brota í starfi en kærandi telur rangt að hann hafi brotið af sér. Hann kveðst hafa misskilið stöðvarstjórann og haldið að verið væri að segja sér upp fyrirvaralaust og hafi hann því neitað að taka við bréfinu. Hann hafi síðan snúið sér til Eflingar og þegar misskilningurinn hafi komið í ljós hafi hann viljað snúa aftur til vinnu en hafi verið neitað um það. Þetta túlki Y hf. þannig að þar sem hann hafi ekki mætt nokkra daga til vinnu hafi hann stungið af eða „horfið“.

Í læknisvottorði B, dags. 17. júlí 2009, kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær á tímabilinu frá nóvember 2008 til júní 2009 vegna veikinda en sé nú vinnufær.

Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur þann 16. júní 2009 eins og fram hefur komið. Umsókn hans var samþykkt en með vísan til starfsloka hans hjá Y hf. var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 60 daga.

Meðal gagna málsins er bréf frá svæðisvinnumiðlun Suðurnesja, ódagsett en móttekið 22. október 2009. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi verið í viðtölum hjá ráðgjafa hjá svæðisvinnumiðlun Suðurnesja. Fram hafi komið að kærandi hafi átt við þunglyndi að stríða sem hafi haft áhrif í fyrra starfi hans. Í seinna starfi hafi laun hans verið lækkuð umtalsvert og hafi það örugglega haft áhrif á að hann sagði upp því starfi. Bréfritara finnist bera á því að taumur atvinnurekanda sé dreginn og sé það óeðlilegt miðað við veikindi og hremmingar sem þessi maður hafi mátt þola. Bréfritara finnist að skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig. Hvað þetta mál varði ætti að fella niður 40 daga biðina á undan 60 dögunum.

Meðal gagna málsins er vinnuskjal starfsmanns Vinnumálastofnunar, dagsett 31. júlí 2009, þar sem meðal annars er lýst samtali hennar við fyrrverandi vinnuveitanda kæranda hjá Y hf. Í því samtali hafi komið fram að kæranda hafi verið sagt upp vegna samstarfsörðugleika. Hann hafi neitað að taka við uppsagnarbréfi og því hafi það verið sent með ábyrgðarpósti. Honum hafi í raun verið gefin lokaaðvörun þegar hann rauk út með látum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. janúar 2010, er vísað til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 61. gr. laganna um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvörðunar. Í máli þessu sé um að ræða ítrekunaráhrif og sé tilgangur þeirra beinlínis að stuðla að virkri atvinnuleit. Fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bóta til kæranda í 40 daga er frá 28. apríl 2008 og sé kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar liðinn skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Til umfjöllunar sé því hvort kærandi hafi misst starf sitt hjá Y hf. af gildum ástæðum í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að skýringar kæranda á starfslokum og athugasemdir í kæru til úrskurðarnefndar vísi meðal annars til launaágreinings. Það sé mat Vinnumálastofnunar að ágreiningur milli launamanna og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma og aðstæður á vinnustað flokkist almennt ekki sem gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að þær ástæður sem kærandi færi fram geti ekki talist gildar í skilningi laganna og að nægilega sé komið fram að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Kærandi eigi því að sæta biðtíma skv. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna um ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma. Vinnumálastofnun hafi ekki metið skýringar kæranda á starfslokum hjá Y hf. gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og hafi ákvarðað viðurlög vegna þessa. Ekki sé unnt að fella niður biðtíma á grundvelli 3. mgr. 54. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 61. gr. laganna leggist sá tími sem eftir sé af fyrri viðurlagaákvörðun eða biðtíma saman við viðurlög skv. 1. mgr. 61. gr. laganna. Engin heimild sé til að fella niður biðtíma þegar komi að ítrekunaráhrifum skv. 61. gr. laganna og í 5. mgr. 61. gr. komi fram að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður er nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Viðurlögin sem felist í 1. mgr. 61. gr. séu því þess eðlis að 60 daga biðtími falli ekki niður nema viðkomandi bótaþegi fari á nýtt bótatímabil. Lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur séu greiddar samfellt fyrir séu þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn viðkomandi. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar teljist hluti tímabilsins, sbr. 1. mgr. 29. gr. laganna. Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það þegar nýtt bótatímabil hefst áður en fyrra tímabili lýkur að fullu. Nýtt tímabil hefjist þegar hinn tryggði sæki um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi uppfylli ekki þessi skilyrði greinarinnar til að fara á nýtt bótatímabil. Af þessu leiði að núverandi bótatímabil kæranda haldi áfram að líða, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta teljist hluti þess tímabils.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. janúar 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. janúar 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Gögn málsins benda til þess að vinnuveitandi kæranda hafi ákveðið að segja honum upp störfum og honum hafi verið afhent lokaaðvörun vegna þess. Hann hafi neitað að taka við henni og því hafi hún verið send honum með pósti. Kærandi hafi hins vegar gengið út og hætt að mæta, að eigin sögn þar sem hann taldi að verið væri að segja sér upp störfum. Viðleitni hans til að komast aftur í starfið þegar honum urðu ljós þessi mistök styðja að hann hafi ekki viljað hætta í starfinu. Með hliðsjón af þessu verður lagt til grundvallar að kæranda hafi verið sagt upp störfum.

Þótt telja verði að kærandi hafi átt þátt í að hafa misst starf sitt leiða gögn málsins það ekki í ljós að hann hafi átt sök á uppsögn sinni í skilningi 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til þess sem að framan er ritað verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. ágúst 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í 60 daga er felld úr gildi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta