Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 116/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 116/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni.

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. júlí 2009, var kæranda, A, tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri hafnað á grundvelli 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún hafi látið hjá líða að sækja um atvinnuleysisbætur a.m.k. fjórum vikum fyrir brottfarardag til Noregs. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hún fái viðurkenndan bótarétt sem atvinnuleitandi í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Hún krefst þess einnig að hún fái undanþágu frá kröfum um E-303 vottorðið og enn fremur að hún fái heimild til þess að staðfesta skráningu sína sem atvinnulausa rafrænt. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kæranda var sagt upp störfum sem skattasérfræðingi hjá X þann 1. mars 2008 vegna samdráttar. Hún fór til Noregs ásamt fjölskyldu sinni þann 2. júní 2009 í atvinnuleit. Kærandi kveðst hafa skráð sig á Netinu hjá Vinnumálastofnun sem atvinnulausa. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar þann 9. júní 2009 og hún hefur ekki sótt formlega um E-303 vottorð. Hún hefur ekki staðfest umsókn sína um atvinnuleysisbætur skriflega eins og ber að gera samkvæmt leiðbeiningum sem fram koma á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi kveðst hafa leitað sér upplýsinga hjá Vinnumálastofnun fyrir brottför varðandi rétt sinn til atvinnuleysisbóta en hún hafi fengið ónógar og rangar upplýsingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur einnig fram að kæranda hafi verið gefinn kostur á að vera skráð einungis í þrjá daga með gilda umsókn um atvinnu og atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar en hún hafi ekki þegið það. Kærandi mótmælir því að hún hafi verið upplýst um þriggja daga undanþáguna áður en hún fór til útlanda.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. febrúar 2010, kemur fram að E-303 vottorðið feli í sér staðfestingu Vinnumálastofnunar á bótarétti atvinnuleitanda í íslenska atvinnuleysistryggingakerfinu og gefi umsækjendum kost á því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan þeir séu í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleitanda beri skv. 1. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hafa uppfyllt eftirtalin skilyrði:

a. hefur sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar,

b. hefur uppfyllt skilyrði laga þessara á a.m.k. 4 næstliðnum vikum fyrir brottfarardag,

c. er heimilt að vera í frjálsri atvinnuleit í öðru aðildarríki samkvæmt lögum þess ríkis og

d. skráir sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleitin fer fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur þann 9. júní 2009 eða eftir að hún var farin til útlanda og hafi sú umsókn ekki verið staðfest með komu á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar. Kærandi hafi ekki sótt formlega um útgáfu E-303 vottorðs. Vinnumálastofnun hafnar þeirri staðhæfingu kæranda að hún hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar þegar hún spurðist fyrir um E-303 vottorð hjá stofnuninni. Vinnumálastofnun telji útilokað að kæranda hafi ekki verið tjáð að sækja þyrfti um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni áður en sótt væri um E-303 vottorðið. Verði ekki séð hvernig kærandi hafi getað staðið í þeirri trú að hún væri búin að fá undanþágu frá ákvæði b-liðar 1. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafði hvorki sótt um atvinnuleysisbætur með fullnægjandi hætti né sótt um útgáfu E-303 vottorðs. Í tölvupósti til sérfræðings Vinnumálastofnunar dags. 15. júní 2009 segist kærandi hafa ætlað að skrá sig sem umsækjanda að atvinnuleysisbótum þann 1. júní 2009. Ekki hafi komið fram í máli kæranda hvað hafi valdið því að hún hafi fyrst sótt rafrænt um atvinnuleysisbætur þann 9. júní 2009. Þar sem kærandi hafi ekki sótt um útgáfu E-303 vottorðs og ekki skilað umsókn um atvinnuleysisbætur með fullnægjandi hætti fyrir brottfarardag beri að hafna kröfu hennar um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. mars 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. mars 2010. Bréf kæranda ásamt frekari gögnum barst 17. mars 2010.

 

2.

Niðurstaða.

Óumdeilt er í máli kæranda að hún sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn sinni dagsettri þann 9. júní 2009. Kærandi hafði hinsvegar flutt búferlum með fjölskyldu sína til Noregs þann 2. júní 2009, þ.e. viku áður en hún sótti um atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þarf umsækjandi atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit til að eiga rétt á þeim. Þar sem umsókn kæranda barst eftir að hún hafði flutt búferlum erlendis gat hún ekki talist vera í virkri atvinnuleit í skilningi framangreindra ákvæða. Staðfesta verður því hina kærða ákvörðun að þessu leyti.

Kemur þá til skoðunar hvort kærandi gat átt rétt til E-303 vottorðs þar sem hún var á leið til atvinnuleitar í öðru EES-landi. Til að geta fengið slíkt vottorð þarf að uppfylla margvísleg skilyrði sem mælt er fyrir um í 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, m.a. að sá sem sækir um slíkt vottorð njóti atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögunum. Kærandi var ekki tryggð þegar hún óskaði eftir því að fá vottorðið útgefið. Þegar af þeirri ástæðu bar að hafna beiðni hennar um slíkt. Staðfesta ber því hina kærðu ákvörðun einnig að þessu leyti.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja A um atvinnuleysisbætur og útgáfu E-303 vottorðs er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta