Hoppa yfir valmynd

Nr. 26/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 26/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23100159

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 25. október 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Taílands ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2023, um að afturkalla dvalarleyfi hans á grundvelli sambúðar með íslenskum ríkisborgara.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Fram kemur að hann hafi lagt inn nýja umsókn um dvalarleyfi 9. október 2023, á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á grundvelli sambúðar með íslenskum ríkisborgara 28. apríl 2020 með gildistíma til 30. mars 2021, en leyfið hefur verið endurnýjað þrisvar sinnum, síðast með gildistíma til 16. júní 2025. Hinn 19. júní 2023 var skráð í þjóðskrá að óvígðri sambúð kæranda og sambúðarmaka hans hefði verið slitið. Með bréfi, dags. 19. september 2023, tilkynnti Útlendingastofnun kæranda að til skoðunar væri hvort afturkalla ætti dvalarleyfi hans. Samkvæmt bréfinu var honum veittur 15 daga frestur til þess leggja fram andmæli gegn hugsanlegri afturköllun eða að leggja fram umsókn á nýjum dvalarleyfisgrundvelli. Kærandi lagði inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga 9. október 2023. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2023, var dvalarleyfi kæranda afturkallað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 12. október 2023. Hinn 25. október 2023 kærði lögmaður kæranda ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Hinn 30. október 2023, var skipunarbréf gefið út til handa lögmanni kæranda. Með tölvubréfi, dags. 6. nóvember 2023, lagði talsmaður kæranda fram greinargerð og frekari fylgigögn vegna málsins. Með tölvubréfum kærunefndar, dags. 12. og 14. desember 2023, óskaði nefndin eftir frekari gögnum og skýringum Útlendingastofnunar sem stofnunin svaraði með tölvubréfum, dags. 13. og 14. desember 2023.  

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga frestaði kæra réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í stjórnsýslukæru, dags. 16. október 2023, kemur fram að kærandi vilji ekki una ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi vísar einkum til nýrrar umsóknar um dvalarleyfi sem hann hafi lagt fram. Vísað er til fyrri sambúðar kæranda en kærandi kveðst ekki lögfróður og hafa verið ómeðvitaður um breytta réttarstöðu sína í kjölfar slita á sambúð. Í greinargerð, dags. 6. nóvember 2023, vísar kærandi til stjórnsýslukæru sinnar þar sem fram kemur að hann hafi þegar sótt um nýtt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til bréfs sem hann hafi fengið frá Útlendingastofnun um hugsanlega afturköllun dvalarleyfis, vegna þess að skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna sambúðar væru ekki lengur uppfyllt. Kærandi kveðst hafa lagt fram umrædda umsókn innan þeirra tímafresta sem tilgreindir voru í bréfinu og mótmælir þeim sjónarmiðum Útlendingastofnunar að engin andmæli hafi borist af hans hálfu. Kærandi vilji ekki una ákvörðun Útlendingastofnunar og krefst þess að ákvörðuninni verði hrundið og að umsókn hans um nýtt dvalarleyfi verði tekin til greina.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun m.a. heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings ef ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annað hvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 7. mgr. 70. gr. kemur fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi.

Kærandi var með útgefið dvalarleyfi frá 28. apríl 2020 en 19. júní 2023 var skráð í þjóðskrá að óvígðri sambúð kæranda og fyrrverandi sambúðarmaka hans hefði verið slitið og að þeir væru ekki lengur skráðir með sameiginlegt lögheimili. Dvalarleyfi á grundvelli sambúðar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, er bundið við tiltekna sambúð. Samkvæmt framangreindu uppfyllir kærandi því ekki lengur skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sambúðar og var því heimilt að afturkalla leyfið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga.

Líkt og þegar hefur komið fram grundvallast málsástæður kæranda einkum á þeirri dvalarleyfisumókn sem hann hefur lagt fram hjá Útlendingastofnun og fjallar um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Um aðskilin stjórnsýslumál er að ræða en Útlendingastofnun hefur ekki tekið efnislega afstöðu til þeirrar umsóknar kæranda. Í þessu máli hefur kærunefnd til meðferðar ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2023, um afturköllun dvalarleyfis kæranda á grundvelli sambúðar en kærandi hefur ekki haldið uppi sérstökum mótbárum gagnvart efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kærunefnd hefur yfirfarið gögn málsins, m.a. skráningu sambúðarslita kæranda í þjóðskrá og komist að sömu niðurstöðu, þ.e. að heimilt sé að afturkalla dvalarleyfi hans og verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki 9. október 2023 en ákvörðun um afturköllun fyrra dvalarleyfis hans var móttekin 12. október 2023. Með tölvubréfi kærunefndar til Útlendingastofnunar, dags. 14. desember 2023, voru málsatvik reifuð gagnvart 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Með tölvubréfi Útlendingastofnunar þann sama dag staðfesti Útlendingastofnun að ný dvalarleyfisumsókn kæranda félli undir síðastnefnt lagaákvæði. Kærandi nýtur því heimildar til dvalar á meðan dvalarleyfisumsókn hans er til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Þegar efnisleg ákvörðun liggur fyrir um afgreiðslu umsóknar kæranda kann hún að vera kæranleg til kærunefndar eftir ákvæðum 7. og 8. gr. laga um útlendinga. Á þessu stigi málsins hefur kærunefnd þó engar forsendur til þess að taka afstöðu til umsóknar kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta