Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 327/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 327/2023

Föstudaginn 6. október 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2023, um að synja beiðni hennar um gerð námssamnings.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 6. júní 2023. Með erindi, dags. 23. júní 2023, óskaði kærandi eftir því að gerður yrði námssamningur við hana vegna náms á haustönn 2023. Vinnumálastofnun synjaði beiðni kæranda 30. júní 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. júlí 2023. Með bréfi, dags. 7. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 24. ágúst 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun frá og með 1. júlí 2023. Tímabundinni ráðningu hafi lokið 30. júní 2023 og hún hafi ráðið sig aftur í vinnu frá og með 22. ágúst 2023. Atvinnuleysisbæturnar sem hún sæki um séu því einungis til skamms tíma. Vinnumálastofnun kjósi að líta eingöngu á þá staðreynd að hún hafi verið í námi á síðasta misseri í Háskóla Íslands og komi til með að halda því áfram á næsta misseri. Með náminu hafi kærandi hins vegar verið í 87% starfi og komi til með að vera í sama starfshlutfalli frá og með 22. ágúst. Kærandi sé því ekki að óska eftir því að vera í námi og fá greiddar atvinnuleysisbætur samhliða líkt og Vinnumálastofnun vilji meina í svari sínu og rökstuðningi.

Vinnumálastofnun segi einnig að þar sem kærandi hafi ekki lokið námi og ætli sér að halda áfram í námi teljist hún ekki í virkri atvinnuleit í námsleyfi. Kærandi hljóti að hafa sýnt fram á að hún virkilega ætli sér að halda áfram að vinna þar sem hún hafi margoft bent Vinnumálastofnun á að hún hafi nú þegar ráðið sig í vinnu frá 22. ágúst. Ef Vinnumálastofnun sé að gera ráð fyrir því að kærandi sé ekki í atvinnuleit yfir sumartímann sé verið að mismuna henni þar sem stofnunin hafni því að kærandi eigi rétt á bótum og gefi henni ekki sama tækifæri og öðrum til þess að fá bætur á meðan hún leiti að vinnu. Það hefði stofnunin hugsanlega ekki gert ef kærandi hefði ekki verið í námi með vinnu.

Að vera með fjögur börn 12 ára og yngri á framfærslu sé kostnaðarsamt og það sé bæði kvíðavaldandi og óeðlilegt að Vinnumálastofnun geti valið að horfa einungis til þess að einstaklingur hafi stundað nám en líti algerlega fram hjá því að einstaklingur hafi verið í vinnu á sama tíma.

Kærandi óski eftir því að Vinnumálastofnun endurskoði niðurstöðu sína og samþykki umsókn hennar um atvinnuleysisbætur og veiti henni þar með sama tækifæri og öðrum til þess að fá greiddar bætur á meðan hún sé í atvinnuleit.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 6. júní 2023. Meðfylgjandi hafi verið ráðningarsamningur kæranda við fyrri vinnuveitanda. Þar komi fram að kærandi hafi verið tímabundið ráðin í 87% starfshlutfalli til 30. júní 2023. Á umsókn hafi kærandi tilgreint að hún hefði verið skráð í nám á síðustu námsönn og væri sömuleiðis skráð í nám á næstu námsönn. Á meðal umsóknargagna hafi jafnframt verið skólavottorð, útgefið 23. maí 2023, þar sem fram komi að kærandi sé skráð í nám við Háskóla Íslands háskólaárið 2022-2023. Hún hefði lokið 25 ECTS-einingum á vormisseri.

Með erindi, dags. 21. júní 2023, hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum um tilhögun náms kæranda. Kæranda hafi verið greint frá því að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum stundaði hún nám við Háskóla Íslands og stefndi á áframhaldandi nám á næstu önn. Aftur á móti teldist hver sá sem skráður hefði verið í nám á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hygðist halda náminu áfram á næstu námsönn ekki í virkri atvinnuleit. Kæranda hafi verið boðið að koma að skriflegum skýringum teldi hún þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun hefði undir höndum rangar eða ef aðstæður hennar hefðu breyst.

Vinnumálastofnun hafi borist frekari upplýsingar frá kæranda í tölvupósti þann 22. júní 2023. Kærandi hafi sagst stunda nám við Háskóla Íslands. Hún hefði unnið samhliða námi sínu og verið tímabundin ráðin til 30. júní 2023. Hún yrði því atvinnulaus frá og með þeim tíma. Þá færi hún í nám aftur um haustið, sem hún hygðist stunda samhliða vinnu, en hún hefði verið ráðin til vinnu sem myndi hefjast þann 22. ágúst 2023. Tölvupósti kæranda hafi verið svarað sama dag, þann 22. júní, og henni greint frá því að einstaklingar í fullu námi ættu ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í námshléum.

Í tölvupósti 23. júní 2023 hafi kærandi skýrt nánar frá aðstæðum sínum. Kærandi hafi tekið fram að hún hefði verið í fullri vinnu samhliða nám sínu. Hún væri skráð í 20 ECTS-eininga nám á næstu haustönn. Hún hefði aðeins verið tímabundið ráðin hjá fyrri vinnuveitanda til 30. júní 2023 og því yrði hún launalaus frá þeim tíma. Þá hafi kærandi sagst vera komin með nýja vinnu frá og með 22. ágúst 2023. Því myndi atvinnuleysi hennar aðeins standa yfir í tæpa tvo mánuði. Kærandi hafi jafnframt óskað þess að við hana yrði gerður námssamningur vegna náms hennar á haustönn 2023.

Þann 30. júní 2023 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem henni hafi verið tjáð að umsókn hennar um námssamning hefði verið hafnað. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að hámarks einingafjöldi náms samhliða atvinnuleit væru 20 ECTS-einingar. Ekki væri heimilt að stunda umfangsmeira nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði kærandi verið skráð í 25 ECTS-eininga nám á vorönn 2023 og hygðist stunda 20-ECTS eininga nám á næstu önn, haustönn 2023. Aftur á móti teldist umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem skráður hefði verið í nám á síðustu námsönn án þess að hafa lokið náminu og hygðist halda námi áfram á næstu námsönn ekki í virkri atvinnuleit í námsleyfum samkvæmt kennslu- eða námkrá hlutaðeigandi skóla. Því væri beiðni kæranda um námssamning hafnað þar sem litið væri svo á að hún væri námsmaður á milli anna.

Vinnumálastofnun hafi borist tölvupóstur frá kæranda þann 30. júní. Kærandi hafi ítrekað að hún hefði verið á vinnumarkaði undanfarin ár samhliða námi sínu og kæmi til með að halda því áfram. Hún yrði nú hins vegar atvinnulaus þar sem hún hefði verið tímabundið ráðin í 87% starfshlutfalli. Atvinnuleysi hennar myndi aðeins standa yfir í nokkrar vikur þar sem hún væri komin með vinnu frá og með 22. ágúst 2023. Kærandi hafi greint frá því að hún væri með fjögur börn á framfæri og hefði sinnt námi sínu á kvöldin og að nóttu til. Alla virka daga hefði hún verið í vinnu þar sem hún þyrfti tekjur til að framfleyta fjölskyldu sinni.  Kærandi hafi óskað skýringa á því hvers vegna stofnunin teldi hana ekki í virkri atvinnuleit í ljósi þessi að hún hefði samhliða námi sínu sinnt vinnu og væri jafnframt með vinnu frá og með 22. ágúst 2023. Tölvupósti kæranda hafi verið svarað þann 3. júlí 2023 af Vinnumálastofnun. Áréttað hafi verið að ekki væri heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til þeirra sem hefðu verið skráðir í nám og myndu koma til með að halda námi áfram á næstu námsönn. Ekki skipti máli í því samhengi þó viðkomandi einstaklingur hefði sinnt vinnu samhliða námi. 

Með erindi, dags. 6. júlí 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur atvinnuleysisbóta hefði verið synjað þar sem fyrir lægi að hún stundaði nám. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. jafnframt 6. mgr. 14. gr. sömu laga.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi borist kæra þann 2. júlí 2023. Af kæru megi ráða að kærð sé sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna beiðni kæranda um námssamning, sem hafi verið tilkynnt kæranda með tölvupósti 30. júní 2023. Eins og að framan hafi verið rakið hafi kæranda síðar með erindi, dags. 6. júlí, verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysistrygginga væri hafnað. Rökstuðningur kæranda í kæru sé efnislega samhljóða þeim skýringum sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun. Kærandi ítreki að hún sé ekki að óska eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur samhliða námi sínu. Hún hafi verið ráðin til vinnu frá 22. ágúst 2023 og því óski hún eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga aðeins til skamms tíma. Kæranda telji sér mismunað þar sem henni sé ekki gefið sama tækifæri og öðrum til þess að fá greiðslu atvinnuleysisbóta á meðan hún leiti starfa. Þá þyki kæranda óeðlilegt að stofnun geti valið að líta einungis til þess að einstaklingur hafi stundað nám og á sama tíma litið fram hjá því að sami einstaklingur hafi verið í vinnu. Kærandi fari fram á það að Vinnumálastofnun endurskoði niðurstöðu sína og samþykki umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta og veiti henni þar með sömu tækifæri og öðrum til þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur samhliða virkri atvinnuleit.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í c-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Fyrir liggi að kærandi hafi stundað 25 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2023 og muni samkvæmt vottorði skóla stunda áframhaldandi nám á næstu námsönn. Kærandi muni stunda 20 ECTS-eininga nám á haustönn 2023. Að mati Vinnumálastofnunar sé ljóst með vísan til fyrirliggjandi gagna að kærandi sé sannarlega námsmaður í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Hver sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þau rök er standi að baki þeirri meginreglu að námsmenn í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga samhliða námi séu að slíkt þyki ekki samrýmast markmiðum laganna. Á meðal almennra skilyrða fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í því felist meðal annars að viðkomandi hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Ljóst þyki að námsmenn geti að jafnaði ekki talist í virkri atvinnuleit í skilningi laganna. Þá sé Menntasjóði námsmanna ætlað það hlutverk að aðstoða námsmenn um framfærslu þann tíma sem þeir stundi nám.

Eins og áður segi hafi kærandi stundað 25 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2023 og muni samkvæmt vottorði skóla stunda áframhaldandi nám á næstu námsönn, haustönn 2023. Að sögn kæranda ætli hún að stunda 20 ECTS-eininga nám. Að mati Vinnumálastofnunar teljist kærandi því „námsmaður á milli anna“ en í 6. mgr. 14. gr. sé sérstaklega kveðið á um rétt slíkra einstaklinga til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Ákvæði 6. mgr. 14. gr. sé svohljóðandi:

„Sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.“

Ákvæði þetta hafi fyrst komið inn í lög um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 134/2009. Með lagabreytingunni hafi réttur námsmanna til greiðslu atvinnuleysistrygginga verið þrengdur að verulegu leyti. Á móti hafi sá tími sem námsmenn geti geymt bótarétt sinn samkvæmt lögunum verið lengdur, sbr. 7. gr. laga nr. 134/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar.

Í athugasemdum frumvarpsins er hafi orðið að lögum nr.  134/2009 segi meðal annars að ekki þyki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla, enda sé kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjái námsmaður fram á að halda áfram námi sínu á næstu námsönn takmarki það verulega þau störf sem unnt sé að bjóða viðkomandi, enda eingöngu tímabundin störf sem þá komi til greina. Í athugasemdum frumvarpsins komi skýrt fram að námsmenn teljist ekki tryggðir í námsleyfum skóla, svo sem jólaleyfum, páskaleyfum og sumarleyfum.

Ljóst sé að kærandi hafi verið skráð í 25 ECTS-eininga nám á vorönn 2023. Þá liggi fyrir að kærandi sé skráð í áframhaldandi 20 ECTS-eininga nám á haustönn 2023 við sama skóla. Samkvæmt skýru orðalagi 6. mgr. 14. gr. laganna teljist kærandi því ekki tryggð á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma sem námsleyfi hennar vari. Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að hafna hafi átt beiðni kæranda um námssamning við stofnunina. Á sama hátt sé það mat stofnunarinnar að kærandi sé ekki tryggð í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að stofnuninni hafi því borið að hafna umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki átt rétt á námssamningi við stofnunina. Sömuleiðis sé það mat stofnunarinnar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga og því beri að hafna umsókn hennar. Máli sínu til stuðnings vísi Vinnumálastofnun til c-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, 1. mgr. 52. gr. og 6. mgr. 14. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um gerð námssamnings.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Þá kemur fram í 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 að sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla á milli námsanna eða fara á milli skólastiga.

Kærandi óskaði eftir að gerður yrði námssamningur við hana vegna haustannar 2023 en hún hugðist stunda 20 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands. Beiðni kæranda var synjað á þeirri forsendu að hún væri námsmaður á milli anna og því ekki í virkri atvinnuleit.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi var námsmaður á milli anna, í skilningi 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006, þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í júní 2023. Þrátt fyrir að kærandi hafi einnig verið á vinnumarkaði verður ekki hjá því litið að sá sem stundar nám telst ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006, nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 52. gr. laganna. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um gerð námssamnings sé reist á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2023, um að synja beiðni A, um gerð námssamnings, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta