Mál nr. 6/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. maí 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 6/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. janúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum, þann 8. janúar 2009, hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur, með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 19. janúar 2009 og mótteknu 21. janúar 2009. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta meðan hann stundar nám sitt.
Kærandi starfaði hjá X ehf. frá 21. maí til 31. ágúst 2007 sem ófaglærður verkamaður. Hann starfaði síðan hjá Y ehf. sem bílstjóri frá 5. júní til 26. október 2008, en þá var honum sagt upp vegna samdráttar. Samkvæmt staðfestingu á skólavist frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, dags. 19. nóvember 2008, er kærandi skráður í dagskóla á listnámsbraut skólans og er hann í 13 einingum sem eru 74% af fullu námi en 17,5 einingar er fullt nám.
Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. mars 2009, að af stundaskrá kæranda megi ráða að hann stundar nám allan daginn á mánudögum og fimmtudögum og sækir tvo tíma á miðvikudögum. Þá beri að athuga að flestum námskeiðum á framhaldsskólastigi fylgi umtalsverður undirbúningur og heimavinna sem eigi sér stað utan skólatíma. Vinnumálastofnun vísar til 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en greinin hljóðar svona:
„Vinnumálastofnun skal jafnframt meta sérstaklega hvort sá er stundar nám en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.“
Vitnað er til þess að í greinargerð þeirri er fylgdi frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segi um 3. mgr. 52. gr. að gert sé ráð fyrir því að Vinnumálastofnun meti sérstaklega hvort atvinnuleitandi sem stundi nám í skilningi frumvarpsins en sé í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði ákvæðisins þrátt fyrir námið. Mikilvægt sé að Vinnumálastofnun meti aðstæður atvinnuleitanda heildstætt og þá einkum með tilliti til þess hvort hann teljist geta verið í virkri atvinnuleit. Þurfi þá meðal annars að líta til þess hvernig tímasókn í skóla sé háttað í því skyni að meta líkur á því að hlutaðeigandi geti tekið almennu starfi samhliða náminu. Enn fremur beri að líta til umfangs námsins en sem dæmi megi ætla að lokaverkefni í háskóla þar sem ekki sé krafist viðveru í skóla sé eigi að síður svo viðamikið að ekki verði unnt að meta námsmanninn í virkri atvinnuleit þann tíma sem unnið sé að verkefninu.
Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að í ljósi þess hve matskennd 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé hafi Vinnumálastofnun sett sér ákveðnar verklagsreglur til að tryggja samræmda stjórnsýsluframkvæmd við beitingu ákvæðisins en þó sé hvert tilfelli metið sjálfstætt. Í verklagsreglunum sé það gert að skilyrði að atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit samhliða námi sínu. Þá sé almennt talið að hægt sé að stunda nám í kvöldskóla og fjarnám, sem ekki sé lánshæft samkvæmt reglum LÍN og almennt bóknám á framhaldsskólastigi sem nemi 1/3 af fullu námi ef verið sé að ljúka námi. Þó þurfi námið að nýtast atvinnuleitandanum beint við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar.
Vinnumálastofnun telur ljóst að nám kæranda sé það umfangsmikið að það gangi gegn framangreindum verklagsreglum sem stofnunin hafi sett sér. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur enn fremur fram að verklagsreglur stofnunarinnar geti ekki einar og sér réttlætt höfnun á umsókn kæranda heldur verði að leggja sérstakt mat á aðstæður hans. Af gögnum málsins megi ráða að kærandi stundi umfangsmikið nám á framhaldsskólastigi og stundi skólann tvo daga í viku algerlega samfleytt.
Að mati Vinnumálastofnunar stundar kærandi umfangsmikið nám á framhaldsskólastigi og getur ekki talist í virkri atvinnuleit meðan á því námi stendur.
Kærandi kveðst vera í minna en 75% námi. Hann hafi fyllt út umsókn um atvinnuleysisbætur ásamt umsókn um atvinnu. Hann hafi einnig afhent vottorð vinnuveitanda um starfstímabil og hlutfall ásamt stundatöflu og staðfestingu skólavistar. Loks hafi hann staðfest atvinnuleit sína á heimasíðu Vinnumálastofnunar.
2.
Niðurstaða
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn dagsetti 4. desember 2008. Samkvæmt vottorði frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, sem Vinnumálastofnun móttók 18. desember 2008, var kærandi skráður í 74% af fullu námi. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 16. janúar 2009, var hann upplýstur um synjun umsóknar um atvinnuleysisbætur og var ákvörðun kynnt með eftirfarandi hætti:
„Umsókn þinni um atvinnuleysisbætur skv. lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er hafnað með vísan til c. liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. þar sem þú ert í námi.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. telst hver sá sem stundar nám, sbr. c. lið 3. gr. ekki tryggður á sama tíma og greiðslur atvinnuleysistrygginga eiga sér stað enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.
Samkvæmt c. lið 3. gr. telst nám skv. lögum 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vera 75-100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
Samkvæmt framangreindu var ákvörðun Vinnumálastofnunar reist á röngum lagagrundvelli enda var kærandi í námi sem var undir 75% hlutfalli, sbr. úrskurðir úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 10. júlí 2008 í málum nr. 7/2008 og 9/2008.
Ekki verður ráðið af gögnum málsins að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tekin eftir að kæranda hafi verið gefinn kostur á að andmæla fyrirhugaðri afgreiðslu málsins og var því brotið á andmælareglunni við meðferð málsins, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar bar Vinnumálastofnun sérstök skylda til að meta hvort kærandi, sem var í minna en 75% námshlutfalli, ætti rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þrátt fyrir námið. Það var fyrst nú fyrir úrskurðarnefndinni sem Vinnumálastofnun mat mál kæranda að þessu leyti. Telja verður að Vinnumálastofnun geti ekki leyst þessa skyldu af hendi með þeim hætti. Slíkt væri jafnframt í andstöðu við það hlutverk úrskurðarnefndarinnar, sem æðra setts stjórnvalds, að endurskoða ákvarðanir hins lægra setta.
Með hliðsjón af ofangreindu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda á ný til meðferðar. Með þessari niðurstöðu er ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi eigi rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun um synjun atvinnuleysisbóta til A er felld úr gildi og er málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson