Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. maí 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 12/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. janúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum, þann 8. janúar 2009, hafnað umsókn hennar um atvinnuleysisbætur, með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 30. janúar 2009. Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 12. desember 2008, var kæranda kynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá fundi þann 3. desember 2008 að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Ástæða þeirra ákvörðunar var sú að kærandi teldist stunda lánshæft nám skv. c-lið 3. gr., sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kom athugasemdum sínum við þessa ákvörðun á framfæri en Vinnumálastofnun komst að sömu niðurstöðu á fundi sínum þann 8. janúar 2009. Kærandi starfaði hjá X hf. frá 1. janúar 1999 til 30. september 2008, en var þá sagt upp vegna samdráttar. Samkvæmt bréfi frá verkfræðideild Háskóla Íslands, dags. 3. nóvember 2008, er kærandi skráð nemandi í Y-nám. Í bréfinu segir að Y-nám sé tveggja ára nám með starfi og er það skilgreint sem 85% nám. Námið hafi hafist í september 2008 og því ljúki vorið 2010. Kærandi var á fyrsta misseri þegar bréfið var skrifað.

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. febrúar 2009, að samkvæmt vottorði frá Háskóla Íslands stundi kærandi 85% nám í skólanum. Því verði að álykta svo að námið falli undir c-lið 3. gr. laganna sem 85% nám á háskólastigi og þar af leiðandi falli umsókn kæranda undir 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Við skoðun á 52. gr. verði að meta hvort ákvæði 1., 2. og 3. mgr. greinarinnar geti átt við. Í 2. mgr. sé sú skylda lögð á Vinnumálastofnun að meta sérstaklega hvort umsækjandi geti talist tryggður stundi hann nám með starfi og missi síðar starfið, en ljóst sé að það eigi ekki við kæranda. Þar sem kærandi stundi 85% nám samkvæmt vottorði skóla sé einnig ljóst að 3. mgr. 52. gr. eigi ekki heldur við samkvæmt beinu orðalagi ákvæðisins. Því verði að álykta á þann veg að meginregla 52. gr. sem komi fram í 1. mgr. eigi við tilvik kæranda og þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að kærandi geti ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta jafnhliða námi.

Í kæru kæranda, dags. 30. janúar 2009, kemur fram að hún hafi hafið Y-nám haustið 2008. Um sé að ræða tveggja ára nám sem sé skilgreint sem nám samhliða starfi. Námið sé samtals 90 ECTS einingar eða 22–24 einingar á önn. Nemendur séu í fullu starfi með náminu, sæki skólann aðra hverja helgi og vinni verkefnavinnu utan vinnutíma. Að mati kæranda fær rökstuðningur Vinnumálastofnunar ekki staðist þar sem stofnunin nýti ekki þau úrræði sem í boði séu við sérstakar aðstæður kæranda og þjóðfélagsins. Því til stuðnings vísar hún í lög um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006, verklagsreglur Vinnumálastofnunar og undanþáguákvæði 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi segir að sú fullyrðing Vinnumálastofnunar að hún geti ekki talist í virkri atvinnuleit fái ekki staðist. Sannanlega sé um virka atvinnuleit að ræða og hafi hún sótt um öll auglýst störf á starfsvettvangi sínum frá því í maí 2008. Þá kemur fram að ekki verði séð hvernig hægt sé að svipta einstakling áunnum grundvallarréttindum með þeim hætti sem hér sé gert. Vegna þess starfs sem kærandi hafi sinnt undanfarin ár fái hún ekki lán hjá LÍN. Því sé erfitt að sjá hvernig hún eigi að tryggja framfærslu sína meðan á námi standi. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja henni um atvinnuleysisbætur verði ógilt og stofnuninni gert að greiða henni atvinnuleysisbætur í samræmi við lög og reglur á meðan hún hafi ekki verið ráðin í annað starf.

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í c-lið 3. gr. laganna er nám skilgreint með eftirfarandi hætti:

Nám: 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúnings­menntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Kærandi er í tveggja ára meistaranámi í Háskóla Íslands. Í vottorði verkfræðideildar Háskóla Íslands, dags. 3. nóvember 2008, kemur fram að nám það sem kærandi stundar sé skilgreint sem 85% nám og námið fellur því undir 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum við 52. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og að miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Með vísan til afdráttarlauss ákvæðis c. liðar 3. gr. sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á kærandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og breytir engu í því efni þótt námið sé skilgreint sem nám með starfi eða hvenær dagsins eða vikunnar námið fer fram. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. janúar 2009 í máli A er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta