Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. maí 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 14/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. janúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 7. janúar 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 30. október 2008. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var hafnað með vísan til 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi var með gildan ráðningarsamning við X. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði BSRB hana fyrir hönd kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 2. febrúar 2009. Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 2. desember 2008, kemur fram að stofnunin hafi á fundi sínum fjallað um mál kæranda og ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknar hans um atvinnuleysisbætur þar til hann legði fram afrit af ráðningarsamningi sínum við X. Hin kærða ákvörðun var síðan tekin 7. janúar 2009 eins og fram hefur komið. Kærandi starfaði sem sviðsstjóri og ráðsmaður hjá X frá 1. október 2004 þar til hann fékk launalaust leyfi að eigin ósk þann 30. ágúst 2008. Af hálfu kæranda kemur fram að ástæða launalausa leyfisins hafi verið einelti og ósanngjarnar kröfur um vinnuframlag. Til hafi staðið að fara í nokkrar langar utanlandsferðir með hljómsveitina en í slíkum ferðum hafi kærandi fengið takmarkaðan nætursvefn vegna vinnuálags. Hann hafi talið að fjölga þyrfti sviðsstjórum en eftir árangurslausar tilraunir til þess að finna lausn á þessu máli hafi kærandi ekki séð annan kost en að biðja um fimm mánaða launalaust leyfi á meðan fyrirhugaðar utanlandsferðir stæðu yfir sem og undirbúningur þeirra.

Kærandi starfaði tímabundið hjá Y frá 1. september til 31. október 2008. Í bréfi Y, dags. 22. desember 2008, kemur fram að vegna fjárhagslegra aðstæðna hafi uppsetningu á tilteknu verki verið frestað til hausts 2009 og hafi ráðning kæranda því verið frestað.

Í bréfi B f.h. BSRB, dags. 2. febrúar 2009, kemur fram að þeim skilningi Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki verið í virkri atvinnuleit sé hafnað. Það liggi ljóst fyrir að kærandi hafi uppfyllt skilyrði laganna um hvað teljist vera virk atvinnuleit. Hann sé fær til flestra almennra starfa, hann hafi haft frumkvæði að atvinnuleit, hann hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara, hafi verið reiðubúinn að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, hafi verið reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu hafi verið að ræða og hafi haft vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem honum hafi staðið til boða. Vinnumálastofnun gangi út frá því að sá sem eigi í ráðningarsambandi geti ekki talist í virkri atvinnuleit. BSRB fallist ekki á þann skilning þar sem kærandi hafi verið í virkri atvinnuleit á þeim tíma sem hið launalausa leyfi átti sér stað. Hann hafi því ekki verið í virku ráðningarsambandi vegna ástæðna sem hann hafði ekki forræði yfir, hann hafi leitað sér að öðrum störfum til að skapa sér tekjur meðan á leyfinu stóð en þau störf sem hann hafi fundið hafi brugðist.

Í áðurgreindu bréfi kom einnig fram að samkvæmt athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé markmið laganna að tryggja launamönnum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Með þeim hætti tryggi lögin stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Þá sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir samkvæmt lögunum séu í virkri atvinnuleit og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Ljóst sé að aðstæður kæranda vegna óvænts tekjumissis séu mjög bágbornar. Ofangreint markmið laganna nái ekki fram að ganga verði lögin ekki túlkuð rúmt við ófyrirséð atvik sem feli ótvírætt í sér atvinnuleysi, atvik sem lagabókstafurinn mæli ekki sérstaklega fyrir um. Það geti vart verið í samræmi við markmið laganna að starfsmönnum sé gert að segja upp því starfi sem þeir eru í launalausu leyfi frá til að tryggja að þeir eigi rétt á atvinnuleysisbótum við ofangreindar aðstæður. Það hljóti að vera tryggara fyrir öryggi viðkomandi að halda þá a.m.k. því starfi sem þeir eiga samkvæmt samningi rétt til að ganga aftur að í stað þess að þeir segi því upp til að geta verndað framfærsluöryggi sitt.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða, dags. 25. febrúar 2009, kemur meðal annars fram að deilt sé um hvort kærandi eigi rétt á atvinnu­leysis­bótum þann tíma er hið launalausa leyfi vari. Í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að lögin gildi um þá sem verði atvinnulausir og í 2. gr. laganna sé tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Ljóst sé að ráðningarsamband sé til staðar milli kæranda og vinnuveitanda hans enda hafi kærandi að því er Vinnumálastofnun best viti aftur hafið störf hjá vinnuveitandanum og óumdeilt að þar er hann ráðinn til starfa. Vinnumálastofnun þyki það skjóta skökku við ef veiting launalauss leyfis geti skapað rétt til atvinnuleysisbóta enda sé slíkt leyfi að jafnaði eingöngu veitt þeim sem þess sérstaklega óska og þá iðulega vegna sérstakra þarfa viðkomandi, svo sem sökum barneigna eða náms. Ljóst sé að sá sem er í launalausu leyfi sé ekki í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna, enda muni atvinnuleit hans að jafnaði aðeins ná til að gegna störfum innan þess tímaramma sem hið launalausa leyfi geri ráð fyrir. Þá þykir Vinnumálastofnun rétt að benda á að lögin geri ekki ráð fyrir því að hægt sé að njóta atvinnuleysisbóta í launalausu leyfi enda verði skv. f-lið 1. mgr. 13. gr. að leggja fram vottorð fyrrverandi atvinnuveitanda, sbr. 16. gr., þar sem meðal annars skuli greina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda o.s.frv. Ekki verði ætlað að vinnuveitandi sá er veitir launalaust leyfi geti talist vera fyrrverandi vinnuveitandi í skilningi þess er leyfisins nýtur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. mars 2009, sent afrit af athugasemdum Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. mars 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gerð grein fyrir gildissviði laganna og kemur þar fram að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna segir að markmið laganna sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur meðal annars fram að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Þá er gerð grein fyrir því í a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna að launamaður sem uppfylli það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr., teljist tryggður samkvæmt lögunum.

Kærandi fór í tímabundið launalaust leyfi frá starfi sínu hjá X að eigin ósk. Þann tíma er hann var í launalausu leyfi var hann ekki atvinnulaus í skilningi 1. gr. laga um atvinnu­leysistryggingar og hann hafði ekki misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laganna. Kærandi uppfyllti ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 14. gr. laganna, þar sem ekki er hægt að líta svo á að hann hafi verið í virkri atvinnuleit meðan hann var með gildan ráðningarsamning.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. janúar 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

  

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta