Hoppa yfir valmynd

Nr. 335/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 335/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030044

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. mars 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...], (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2017, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útlendingamála ógildi ákvörðun Útlendingastofnunar og geri stofnuninni að endurskoða ákvörðun sína. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt og að kæranda verði veitt heimild til dvalar hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar 23. desember 2014 og fengið leyfið útgefið með gildistíma frá 27. mars 2015 til 17. mars 2016. Hinn 23. september 2015 hafi verið skráð í Þjóðskrá Íslands að [...]. Hinn 15. febrúar 2016 hafi kærandi sótt um dvalar- og atvinnuleyfi vegna sérstakra tengsla við landið.Kærandi hafi lagt fram greinargerð dags. 1. maí 2016 um tengsl hans við landið.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina þann 24. mars 2017. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 18. apríl 2017, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn þann 24. apríl 2017 og 7. júní sama ár.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar segir að kærandi sé [...]. Gögn málsins hafi ekki bent til annars en að þar hafi kærandi búið alla sína tíð fyrir utan þau tvö ár sem hann hafi verið búsettur hér á landi. Á þeim tíma hafi hann einungis haft dvalarleyfi á grundvelli [...]. Stofnunin leit svo á að kærandi hefði sterkari tengsl við [...] en Ísland með tilliti til dvalarinnar einnar og sér. Þar hafi kærandi búið um langa hríð, þar hafi hann stundað og lokið námi og starfað að því loknu. Þar eigi hann jafnframt náin fjölskyldutengsl, en kærandi hafi búið áður með föður sínum, systur og systurdóttur í heimalandi sínu. Útlendingastofnun taldi að það að kærandi hafi komið sér vel fyrir á Íslandi, stundi vinnu í fjölskyldufyrirtæki og eigi hér tvær systur og frændsystkini yrði ekki talið veita kæranda rétt á dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, enda verði í því tilliti að líta til lengdar dvalar hans hér á landi og þess að hann eigi náin fjölskyldutengsl í heimalandi sem og önnur tengsl. Þá hafi engin umönnunarsjónarmið verið til staðar í máli kæranda. Kæranda var því synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að tvær systur kæranda hafi flutt til Íslands, önnur þeirra ásamt börnum sínum fyrir tólf árum síðan og hin fyrir um það bil sjö árum síðan. Sú fyrri sé gift íslenskum manni og eigi með honum eina dóttur og hin seinni sé gift manni og eigi nýfædda dóttur. Kærandi vinni hjá manni systur sinnar sem eigi [...] og hér hafi hann eignast góða vini. Hann hafi komið hingað til lands í september 2014 ásamt föður sínum í heimsókn til systra sinna, [...]. Kærandi kveðist vilja búa hér áfram en hann búi hjá systur sinni, mági og dóttur þeirra.

Í greinargerð kæranda er byggt á því að Útlendingastofnun hafi farið á svig við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunar sinnar í máli kæranda.

Fyrir liggi að kærandi uppfylli grunnskilyrði til veitingar dvalarleyfis skv. 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji ljóst að aðstæður þær sem tilgreindar séu í 2. mgr. 78. gr. sömu laga eigi við um kæranda enda hafi [...] og því hafi hann ekki getað endurnýjað dvalarleyfi sitt á [...]. Kærandi vísar einnig til 3. mgr. 78. gr. sem kveði á um að fram skuli fara heildstætt mat á tengslum kæranda við landið og þar skuli horft til lengdar dvalar en jafnframt til fjölskyldutengsla. Fyrir liggi að kærandi eigi tvær systur hér á landi ásamt fjölskyldum sínum. Þá eigi kærandi einnig hérlenda unnustu til síðustu 18 mánaða. Hún eigi dreng, [...], en kærandi og hann séu afar góðir félagar. Kærandi hafi ekki viljað ana út í neitt [...] . Kærandi taki þó fullan þátt í heimilishaldi unnustunnar. Kærandi hafi starfað hér á landi frá fyrsta degi og sé hann afskaplega vel liðinn og eftirsóttur starfskraftur. Hann hafi ekki komist í kast við lög eða á nokkurn hátt leynt upplýsingum um tilvist sína, hjúskaparstöðu eða annað það sem áhrif gæti haft á umsókn hans um áframhaldandi dvalarleyfi hér á landi. Útlendingastofnun hafi þannig farið á svig við lög þar sem hún hafi ekki lagt heildarmat á aðstæður hans. Kærandi hafi ríkulega tengingu við landið, hvort tveggja vegna unnustu sinnar og stjúpsonar en ekki síður vegna systra sinna og fjölskyldna þeirra.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 er fjallað um mat á umsóknum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar kemur fram að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en sérstaklega horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt er liðið frá dvalartíma, brotaferils umsækjanda hér á landi, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskyldsögu, fjölskylduaðstæðna og skyldleika auk umönnunarsjónarmiða. Um lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en í tvö ár, eða þá önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Varðandi umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla segir m.a. í d-lið ákvæðisins að líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji slíka umsókn. Þá segir í e-lið ákvæðisins að með umönnunarsjónarmiðum sé átt við hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis sem er tengdur honum fjölskylduböndum eða hvort einhver aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi, sem er [...], hefur dvalist hér á landi í tvö og hálft ár. Hann fékk dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar þann 27. mars 2015 sem gilti til 17. mars 2016 en hefur ekki fengið útgefin önnur leyfi til dvalar hér á landi. Liggur því fyrir að dvöl kæranda samkvæmt útgefnu dvalarleyfi nær ekki tveimur árum. Í ljósi a-liðar 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 telur kærunefnd að kæranda verði ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla nema önnur tengsl hans við landið séu mjög sterk. Kærandi hefur starfað hér á landi síðan í apríl 2015. Hann er með ótímabundinn ráðningarsamning hjá fyrirtæki mágs síns en hann á tvær systur hér á landi og býr hann heima hjá annarri þeirra og eiginmanni hennar. Kærandi kveðst eiga íslenska unnustu sem eigi dreng [...]. Þau séu ógift og búi ekki saman en hann kveðst engu að síður taka fullan þátt í heimilishaldi á heimili hennar. Samkvæmt framansögðu hefur kærandi nokkur fjölskyldutengsl hér á landi en við mat á styrk þeirra verður að líta til þess að kærandi bjó áður með föður sínum, annarri systur sinn og fjölskyldu hennar í heimaríki. Þá hefur kærandi myndað tengsl við landið á grundvelli atvinnuþátttöku en önnur gögn varðandi félagsleg og menningarleg tengsl hans liggja ekki fyrir. Þótt kærandi hafi myndað tengsl við unnustu sína hér á landi og son hennar fær kærunefnd ekki séð að þau séu háð honum á þann hátt að litið verði svo á að fyrir hendi séu umönnunarsjónarmið sem styðji umsókn hans. Í ljósi alls framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi nokkur tengsl við landið en að ekki verið litið svo á að tengslin séu mjög sterk. Niðurstaða heildarmats á tengslum kæranda við landið er því að hann uppfylli ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla.

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi þann 15. febrúar 2016 og virðast fylgigögn hafa legið fyrir 1. maí sama ár. Þrátt fyrir það var ákvörðun ekki tekin hjá Útlendingastofnun fyrr en 16. mars 2017. Tíu mánuðir liðu því áður en ákvörðun var tekin í málinu og verður ekki séð að afsakanlegar ástæður hafi tafið málsmeðferðina. Að mati kærunefndar var málsmeðferðin hjá Útlendingastofnun ekki í samræmi við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Þessi ágalli á málsmeðferðinni er þó ekki, einn og sér, nægjanlegur til að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Með hliðsjón af öllu því sem hér hefur verið rakið og hinni kærðu ákvörðun er það niðurstaða kærunefndar að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla. Samkvæmt þessu verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta