Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 2/2019, úrskurður 10. október 2019

Fimmtudaginn 10. október 2019 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 2/2019

 

 

Vegagerðin

gegn

Gunnari Helgasyni

og Hafdísi Bergmannsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, lektor, varaformanni, ásamt þeim Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, sem varaformaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 4. mars 2019 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á landi undir vegsvæði þjóðvegar, Hringveg um Hornafjörð, og vegsvæði tengivegar, Djúpárvegar, svo og jarðefni vegna framkvæmdanna sem í beiðninni er lýst með svofelldum hætti: „[B]ætur vegna hluta eignarnámsþola í óskiptu landi undir nýja vegi og efni úr námum í óskiptri sameign eignarnámsþola o.fl. landeigenda vegna framkvæmda við vegagerðina.“

 

Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.

 

Eignarnámsþolar eru Gunnar Helgason, kt. […], og Hafdís Bergmannsdóttir, kt. […], bæði til heimilis að [...]. Eignarnámsþolar eru eigendur Stórabóls, landnúmer 160105. Samkvæmt matsbeiðni á Stóraból eignarhlutdeild í óskiptu landi þeirrar jarðar og fimm annarra jarða, Holtahóla, landnúmer 160097, Tjarnar 2, landnúmer 160106, Hólabrekku, landnúmer 160092, Holtasels, landnúmer 160098 og Kyljuholts, landnúmer 160099, sem hver fer með 1/6 hlut af hinu óskipta landi. Sömu jarðir eiga 100% eignarhlutdeild í námu 2 við Djúpá, þar sem hver jörð fer með 1/6 hluta námunnar. Þá eiga jarðirnar 16,67% eignarhlutdeild í námu 5 í Hornafjarðarfljóti, þar sem hver jörð fer með 1/6 hluta þeirrar eignarhlutdeildar í námunni. Undir meðferð málsins fyrir matsnefndinni hefur því á hinn bóginn verið haldið fram af hálfu eignarnámsþola að Stóraból sé handhafi 24,6% eignarhluta í hinu óskipta landi, á móti misstórri eignarhlutdeild hinna jarðanna fimm, eins og nánar greinir hér á eftir.

 

Matsandlagið er nánar tiltekið:

1.         137.933 fermetra landspilda í óskiptu landi Holtahóla, Tjarnar 2, Stórabóls, Hólabrekku, Holtasels og Kyljuholts milli vegstöðva 4930 og 7050, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar, og milli vegstöðva 0 og 1805, miðað við 30 metra breitt vegsvæði, það er 15 metra frá miðlínu til hvorrar handar.

 

2.         130.000 rúmmetrar burðarlagsefnis úr námu 2 við Djúpá.

 

3.         240.000 rúmmetrar fyllingarefnis úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti.

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 28. mars 2019. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 15 tölusettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Þriðjudaginn 25. júní 2019 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Af hálfu eignarnema var lögð fram bókun þar sem greinir meðal annars: „Eignarnámsþolar í ofangreindu máli vekja athygli matsnefndar eignarnámsbóta á eftirfarandi atriðum: 1. Að þeir mótmæla ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám og hún hafi verið kærð skv. heimild til ráðherra, sbr. meðfylgjandi kæru. Komi til þess að ráðherra staðfesti ákvörðunina munu eignarnámsþolar leita réttar síns fyrir dómstólum. 2. Að þeir mótmæli umráðatöku Vegagerðarinnar á landi þeirra meðan ekki hefur verið skorið endanlega úr um lögmæti ákvörðunar Vegagerðarinnar um eignarnám.“ Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

 

Mánudaginn 26. ágúst 2019 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna vettvangsgöngu 25. júní 2019. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema ásamt tveimur fylgiskjölum, greinargerð eignarnámsþola ásamt fjórum tölusettum fylgiskjölum, athugasemdir eignarnámsþola við eignaskiptingu milli jarðanna Holtahóla, Tjarnar 2, Stórabóls, Hólabrekku, Holtasels og Kyljuholts ásamt tveimur fylgiskjölum og athugasemdir eignarnema við greinargerð eignarnámsþola ásamt þremur tölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola var lagt fram málskostnaðaryfirlit. Þá var af hálfu eignarnema lagt fram skjal, þar sem eignarnemi vísar til athugasemda sinna við greinargerð eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem rekið er fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, ásamt fylgiskjölum og málflutningsræðu fyrir nefndinni, og telur þær eiga við í þessu máli að því er varðar land undir vegstæði. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmanni eignarnámsþola bókað að hann byggi í þessu máli á málatilbúnaði og málflutningi eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem einnig sé rekið fyrir nefndinni, eftir því sem við eigi. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir þetta svofelldra upplýsinga í málinu:

 

Með tölvubréfi 5. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við lögmann eignarnema, að eignarnemi veitti matsnefndinni upplýsingar um lengdarsnið fyrirhugaðrar veglínu þjóðvegarins, Hringvegar um Hornafjörð, sem sýndi hæð vegarins og hæð landsins. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema sama dag bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi telur hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 30 krónur á fermetra, eða 300.000 krónur á hektara, sem skiptast myndi milli eigenda hins óskipta lands í jöfnum hlutföllum. Þannig nemur tilboð eignarnema vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 137.933 fermetra landspilda í óskiptu landi Holtahóla, Tjarnar 2, Stórabóls, Hólabrekku, Holtasels og Kyljuholts milli vegstöðva 4930 og 7050 og milli vegstöðva 0 og 1805 689.665 krónum miðað við að sem hver jörð fari með 1/6 hlut af hinu óskipta landi.

 

Við mat á bótum fyrir land vísar eignarnemi til þess að litið hafi verið til samninga í hliðstæðum málum og upplýsinga um verð á landi við kaup og sölu jarða. Bendir eignarnemi á að mikill meirihluti eigenda jarða í Hornafirði hafi þegar samið við eignarnema á grundvelli áðurgreinds tilboðs. Í því samhengi vísar eignarnemi til kaupsamnings 15. desember 2014, […]. Vísar eignarnemi til þess að talið sé að stærð þeirrar jarðar sé á milli 2000 og 3000 hektarar og að það hektaraverð sé því margfalt lægra verð en það sem tilboð eignarnema til eignarnámsþola taki mið af. Telur eignarnemi að kaupsamningurinn gefi raunhæfa mynd af jarðaverði í Hornafirði. Á hinn bóginn hafnar eignarnemi því að kaupverð Svínhóla í Hornafirði gefi vísbendingar um verðmæti jarðar eignarnámsþola, því fyrrgreinda jörðin sé nærri vinsælum ferðamannastöðum í Lóni og þar séu uppi hugmyndir um hótel- og íbúðabyggingar. Þá sé jörðin Svínhólar fjarri hinu eignarnumda landi og ekkert liggi fyrir um landgerð eða gæði jarðarinnar að öðru leyti eða forsendur að baki kaupsamningnum um hana.

 

Næst vísar eignarnemi til þess að fasteignamat matsandlagsins gefi nokkra vísbendingu um verðmæti þess, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Nemi fasteignamat 2019 vegna 34,2 hektara ræktaðs lands Stórabóls 3.710.000 krónum eða 108.480 krónum á hektara.

 

Um viðmiðunarverð vísar eignarnemi einnig til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Auðshaugs í Vesturbyggð voru ákveðnar 225.000 krónur á hektara, og 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Grænaness í Strandabyggð voru ákveðnar 250.000 krónur á hektara. Í máli nr. 2/2009 hafi landið að hluta verið kjarri vaxið en að mestu beitiland og í máli nr. 2/2012 hafi land að mestu verið gróið. Því sé ekki fráleitt að ætla að eðlilegt sé að greiða 300.000 krónur á hektara fyrir land eignarnámsþola að virtri staðsetningu þess, landgæðum og notkunarmöguleikum.

 

Eignarnemi hafnar því að sérfræðiálit Jóns Hólm Stefánssonar, löggilts fasteignasala, sem eignarnámsþolar reisi kröfugerð sína að mestu leyti á, verði lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Sérfræðiálitið hafi engin einkenni hlutlægs sérfræðiálits heldur beri fremur merki um munnlegan málflutning í þágu annarra eignarnámsþola, umfjöllunin sé að mestu leyti almenn og að niðurstöður hans um verðmat og þar með kröfugerð eignarnámsþola séu engum gögnum studdar og standist þar með enga skoðun. Er kröfum eignarnámsþola mótmælt sem fráleitum. Þá taki sérfræðiálitið ekki til jarðar eignarnámsþola, Stórabóls, heldur annarra jarða á svæðinu. Vísar eignarnemi til þess að kröfugerð eignarnámsþola sé engum öðrum gögnum studd og standist þar með enga skoðun.

 

Um landshætti matsandlagsins vísar eignarnemi til þess að samkvæmt lýsingu á gróðurfari jarða í fyrirhugaðri veglínu, sem unnin hafi verið fyrir eignarnema í ágúst 2019, einkennist landspilda í óskipta landinu milli vegstöðva 4930 og 7050, sem fer undir þjóðveg, af mýrlendi, flóa, deiglendi og vatnagróðri, en landspilda í sama landi milli vegstöðva 0 og 1805, sem fer undir tengiveg af mýrum, deiglendi og vatnagróðri. Er það álit eignarnema að matsandlagið teljist því fremur rýrt að gæðum og að ekkert bendi til þess að það land, sem eignarnámsþolar haldi eftir, muni rýrna í verði vegna staðsetningar nýja vegarins.

 

Eignarnemi mótmælir sérstaklega kröfum eignarnámsþola um bætur fyrir ætluð áhrif nýs vegar á allt ræktað land þeirra að Stórabóli einkum á þeim grundvelli að engin gögn hafi verið lögð fram um verðmæti landsins sem byggingarlands, né heldur bendi skipulag sveitarfélagsins til þess. Miðað við staðsetningu fyrirhugaðs vegar á mýrum fjarri Stórabóli telur eignarnemi erfitt að sjá að sú jörð muni rýrna í verði vegna nýs vegar. Þá bendi heldur ekkert til þess að rask eða ónæði verði af framkvæmdunum og er bótakröfu vegna þessa einnig mótmælt.

 

Í þessu samhengi bendir eignarnemi á lögbundið matsferli samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sem eignarnemi hafi uppfyllt vegna fyrirhugaðrar vegalagningar og að um sé að ræða langt og strangt ferli þar sem fjöldi sérfræðinga komi að málum og þar séu leidd í ljós þau umhverfisáhrif sem talið sé að framkvæmd muni hafa í för með sér. Vísar eignarnemi því á bug málatilbúnaði eignarnámsþola um galla á áðurgreindu ferli og að umhverfisáhrif af framkvæmdinni verði önnur og meiri en getið sé um í matsskýrslunni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 20. nóvember 2017 í máli nr. 1/2017, þar sem málatilbúnaði þessa efnis hafi verið hafnað, og úrskurð nefndarinnar 13. nóvember 2017 í máli nr. 77/2017, þar sem hafnað hafi verið erindi annarra landeigenda um ógildingu á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar 4. júlí 2016 að vísa frá beiðni um endurskoðun áðurgreindrar matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Telur eignarnemi að matsskýrslan frá því í apríl 2009 sé í fullu gildi.

 

Þá telur eignarnemi hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 50 krónur á rúmmetra vegna burðarlagsefnis úr námu 2 við Djúpá og 25 krónur á rúmmetra vegna fyllingarefnis úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti. Þannig nemur tilboð eignarnema vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 130.000 rúmmetrum af burðarlagsefni úr námu 2 við Djúpá 1.083.333 krónum og vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 240.000 rúmmetrum af fyllingarefni úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti 166.700 krónum, sem miðar við að hver hinna sex jarða, sem eiga 100% eignarhlutdeild í námu 2 við Djúpá og 16,67% eignarhlutdeild í námu 5 í Hornafjarðarfljóti, fari með 1/6 hlut í námunum.

 

Við mat á bótum fyrir burðarlagsefni úr námu 2 við Djúpá vísar eignarnemi til þess að efni úr þessari námu sé hentugt til fyllinga og í neðri hluta burðarlags en að gæði efnisins séu ekki næg til að nýta í slitlag eins og við eigi um verðmætasta efnið úr námu 6 í Melsendahrauni í Skógey. Hæfilegar bætur fyrir efni úr námu 2 séu því 50 krónur á rúmmetra.

 

Við mat á bótum fyrir fyllingarefni úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti vísar eignarnemi til þess að efni úr farvegi Hornafjarðarfljóts sé fremur illa fallið til mannvirkjagerðar sökum fínleika. Vísar eignarnemi til þess að af hálfu eignarnema hafi verið lögð áhersla á að nýta efnið úr farveginum næst brúnni í kjarna fyllingar og skuli efnið þá varið fyrir vatni og vindum. Meðal steinastærð neðan núverandi brúar sé um 0,5 mm en sú kornastærð fjúki auðveldlega. Hlutaðeigandi fyllingarefni sé ódýrasta malarefnið og af þeim sökum telji eignarnemi 25 krónur á rúmmetra hæfilegar bætur fyrir það. Telur eignarnemi að verðin sem eignarnámsþolar krefjist fyrir jarðefnið séu órökstudd með öllu og í engu samræmi við raunveruleikann.

 

Við ákvörðun um fjárhæð bóta fyrir jarðefni úr báðum námum telur eignarnemi að líta verði til þess að um sé að ræða óunnið efni þar sem eignarnemi leggi til alla vinnu við mat á efnistökustöðum, mælingar og rannsóknir og annað sem tengist mati á gæðum efnis og efnistökustaðar. Þá sé nám, mölun, flokkun og frágangur á kostnað eignarnema. Vísar eignarnemi til þess að umsýsla landeigenda sé engin eða í algjöru lágmarki og þannig sé aðstaðan allt önnur en í virkum náum þar sem efni sé mokað beint á flutningstæki. Þá telur eignarnemi að líta þurfi til þess að hann sé eini og/eða langstærsti kaupandi malarefnis á svæðinu. Til þess sé og að líta að eigendur námu 2, að eignarnámsþolum undanskildum, hafi þegar samið um bætur á grundvelli áðurgreinds tilboðs eignarnema og hið sama gildir um eigendur námu 5, að undanskildum eigendum þriggja jarða.

 

Um viðmiðunarverð vísar eignarnemi til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem bætur vegna fyllingarefnis úr landi Auðshaugs í Vesturbyggð voru ákveðnar 20 krónur á rúmmetra og vegna burðarlagsefnis þar 60 krónur á rúmmetra, og 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur vegna malarefnis úr landi Grænaness í Strandabyggð voru ákveðnar 12 krónur á rúmmetra.

 

Að síðustu telur eignarnemi óhjákvæmilegt að við ákvörðun um málskostnað til handa eignarnámsþolum taki matsnefnd eignarnámsbóta tillit til þess að lögmenn þeirra reki auk þessa máls fimm hliðstæð mál fyrir nefndinni, þar sem málatilbúnaður sé að miklu leyti sá hinn sami.

 

Að síðustu vísar eignarnemi eins og áður greinir til athugasemda sinna við greinargerð eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem rekið er fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, ásamt fylgiskjölum og málflutningsræðu fyrir nefndinni, og telur þær eiga við í þessu máli að því er varðar land undir vegstæði.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola verði ákveðnar 87.928.866 krónur.

 

Tekur kröfugerð eignarnámsþola mið af því að greiða beri bætur fyrir hið eignarnumda land, það er matsandlagið, en einnig áhrif fyrirhugaðs vegar á verðmæti annars landssvæðis í þeirra eigu. Árétta eignarnámsþolar í því samhengi að þeim beri fullt verð fyrir hin eignarnumdu verðmæti og að ekki eigi að fullu við hefðbundin sjónarmið skaðabótaréttar varðandi sönnun á skaðabótaskyldu tjóni. Hafi eignarnámsþolar uppfyllt sönnunarkröfur með málatilbúnaði sínum og öðrum framlögðum gögnum. Þá sé matsnefnd eignarnámsbóta sérstaklega skipuð til að ákvarða tjón í tilefni eignarnáms og búi nefndin yfir víðtækri sérþekkingu og á henni hvíli sjálfstæð rannsóknarskylda. Er kröfugerð eignarnámsþola nánar sundurliðuð á svofelldan hátt:

 

Í fyrsta lagi krefjast eignarnámsþolar 55.173.200 króna fyrir 137.933 fermetra landspildu í óskiptu landi Holtahóla, Tjarnar 2, Stórabóls, Hólabrekku, Holtasels og Kyljuholts (milli vegstöðva 4930 og 7050 og milli vegstöðva 0 og 1805). Er miðað við að greiða skuli 400 krónur fyrir hvern fermetra.

 

Í öðru lagi krefjast eignarnámsþolar bóta að fjárhæð 68.400.000 krónur vegna lands Stórabóls sem þeir telja að missi verð- og notagildi sitt með öllu vegna vegarins og er við það miðað að verðgildi landsins rýrnu um 2.000.000 krónur á hektara. Um ræðir allt ræktað land jarðarinnar Stórabóls, það er 34,2 hektara landspildu.

 

Um tvær ofangreindar kröfur vísa eignarnámsþolar til þess að ræktað land Stórabóls, þar sem þeir hafi búsetu, sé 34,2 hektarar að stærð og líkt og sjá hafi mátt í vettvangsathugun 25. júní 2019 sé um að ræða einstakt bæjarstæði, þar sem íbúðarhús sé utan alfaraleiðar og í algjöru næði frá öðru mannlífi þrátt fyrir að vera stutt frá allri nauðsynlegri þjónustu og helstu samgönguæðum. Verðmæti landsins liggi ekki síst í staðsetningu þess, útsýni yfir ósnortinn fjörðinn og til fjalla og þessi sviðsmynd muni gjörbreytast með tilkomu nýs vegar sem gera muni búsetu á landinu minna aðlaðandi. Af þeim sökum geri eignarnámsþolar sérstaka kröfu um bætur vegna verðrýrnunar á landi Stórabóls. Eignarnámsþolar lýsa einnig yfir áhyggjum af því að vatnafar á framkvæmdasvæðinu hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti af hálfu eignarnema og telja að afleiðingar þess að byggja veg um veglínu 3b í matsáætlun verði aðrar fyrir lönd í þeirra eigu en þar hafi verið ráðgert.

 

Hvað tölulega kröfugerð sína varðar, vísa eignarnámsþolar til þess að fyrir liggi að eignarnámsþolar í öðrum málum, sem tekin séu fyrir af matsnefnd eignarnámsbóta samhliða þessu máli, hafi aflað sérfræðiálits Jóns Hólms Stefánssonar, löggilts fasteignasala, um verðmat á landareignum sem staðsettar séu í grennd við land eignarnámsþola í þessu máli. Í sérfræðiálitinu hafi verð nánar tilgreindra landspildna verið metið á bilinu 400 til 700 krónur á fermetra. Þar hafi einnig verið komist að niðurstöðu um að verðgildi landareigna nærri helgunarsvæði nýs vegar myndi rýrna um 2.000.000 krónur á hektara. Eignarnámsþolar telja að styðjast megi við þessar forsendur við mat á bótum þeim til handa. Gera þeir því kröfu um bætur að fjárhæð 2.000.000 krónur á hektara fyrir allt ræktað land Stórabóls og bætur að fjárhæð 400 krónur á fermetra fyrir eignarhlutdeild í landspildunni sem fer undir nýtt vegstæði. Telja þeir verðmæti landsins varlega áætlað þar sem t.d. hafi verið höfð hliðsjón af lægsta verði samkvæmt sérfræðiálitinu vegna Skarðshóla og Hjarðarness.

 

Til viðbótar vísa eignarnámsþolar til þess að þeir hafi reynt að afla sér upplýsinga um söluverð hliðstæðra landareigna og ekki sé mikið um þær. Þeir vísa þó til munnlegra upplýsinga um kaupverð á Svínhólum í Hornafirði, landnúmer 159397, sem seld hafi verið í maí 2017 með 10,6 hektara af ræktuðu landi og muni kaupverð hafa numið um 80.000.000 krónum.

 

Í þriðja lagi krefjast eignarnámsþolar bóta samtals að fjárhæð 8.333.333 krónur fyrir jarðefni úr námu 2 við Djúpá og námu 5 í Hornafjarðarfljóti. Fyrir 1/6 eignarhlutdeild í 130.000 rúmmetrum af burðarlagsefni úr námu 2 við Djúpá telja eignarnámsþolar hæfilegar bætur vera 200 krónur á rúmmetra, eða 4.333.333 krónur. Fyrir 1/6 eignarhlutdeild í 240.000 rúmmetrum af fyllingarefni úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti telja eignarnámsþolar hæfilegar bætur vera 100 krónur á rúmmetra, eða 4.000.000 krónur. Þá halda eignarnámsþolar því fram að við efnistökuna muni náma 2 við Djúpá eyðileggjast með öllu.

 

Í fjórða lagi krefjast eignarnámsþolar 2.000.000 króna vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma. Fyrirhuguð framkvæmd muni taka nokkur ár miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sem ljóst megi vera að valdi miklu raski og ónæði.

 

Þá krefjast eignarnámsþolar málskostnaðar að skaðlausu úr hendi eignarnema, sem samkvæmt fyrirliggjandi málskostnaðaryfirliti nemur 9.550.041 krónu vegna lögfræðiþjónustu að meðtöldum virðisaukaskatti. Málskostnaðaryfirlitið tekur ósundurgreint til vinnu vegna máls eignarnámsþola og fimm annarra mála sem lögmenn eignarnámsþola hafa rekið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, það er mála nr. 3/2019, 4/2019, 5/2019, 6/2019 og 7/2019. Krefjast eignarnámsþolar þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til umfangs málsins, þar sem fyrir liggi að eignarnemi hafi staðið í málarekstri gegn eignarnámsþolum um árabil.

 

Að síðustu vísa eignarnámsþolar eins og áður greinir til þess að þeir byggi í þessu máli eftir því sem við eigi á málatilbúnaði og málflutningi eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem einnig sé rekið fyrir nefndinni.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildu og jarðefni eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 km löngum kafla. Um ræðir vegalagningu frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts, sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi. Þaðan liggur veglínan norðan við Flóa að núverandi vegi vestan Míganda allt til Haga. Núverandi vegstæði austan Haga verður á hinn bóginn endurbyggt allt til vegmarka endurnýjaðs vegar sem liggur að göngum í Almannaskarði. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi, það er Hringvegi um Hornafjörð, og að vegurinn verði 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði meðfram vegi þar sem því verði við komið, en vegrið þess utan, svo og að nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá verði 9 metrar að breidd.

 

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður eignarnámi ekki við komið nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum.

 

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 25. júní 2019 ásamt lögmönnum aðila og eignarnámsþolanum Gunnari Helgasyni og kynnti sér aðstæður. Eignarnámið tekur til áðurgreindrar landspildu, þar sem um ræðir 137.933 fermetra landspildu í óskiptu landi Holtahóla, Tjarnar 2, Stórabóls, Hólabrekku, Holtasels og Kyljuholts (milli vegstöðva 4930 og 7050 og vegstöðva 0 og 1805), sem samkvæmt gögnum málsins einkennist af mýrlendi, flóa, deiglendi og vatnagróðri milli vegstöðva 4930 og 7050 og af mýrum, þá deiglendi og vatnagróðri milli vegstöðva 0 og 1805. Vettvangsathugun leiddi í ljós slétt og gróið beitiland sem getur flætt yfir.

 

Er stærð og hlutdeild eignarnámsþola í landspildunni lýst hér á undan. Eins og áður greinir kom á hinn bóginn upp ágreiningur um eignarhlutdeild eignarnámsþola í landspildunni undir meðferð málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Af hálfu eignarnema var í matsbeiðni gengið út frá því að jörð eignarnámsþolar, Stóraból, ætti 1/6 hlut í óskiptu landi þeirrar jarðar og fimm annarra jarða, Holtahóla, Tjarnar 2, Stórabóls, Hólabrekku, Holtasels og Kyljuholts á móti jafnstórum hluta hinna jarðanna fimm. Með tölvubréfi eignarnámsþola 22. ágúst 2019 til matsnefndar gerðu eignarnámsþolar á hinn bóginn tilkall til 24,6% eignarhluta í óskipta landinu. Þessu mótmælti eignarnemi í athugasemdum sínum við greinargerð eignarnámsþola með þeim rökum að eignarnámsþoli hefði með tölvubréfi til matsnefndar 22. ágúst 2019 í fyrsta sinn haldið svo breyttri eignarhlutdeild eignarnámsþola uppi í málinu, þrátt fyrir áralöng samskipti milli málsaðila um hlutaðeigandi landspildu. Í máli þessu fyrir matsnefnd eignarnámsbóta var þannig af hálfu beggja aðila byggt á því að eignarhlutdeild eignarnámsþola, á grundvelli eignarhalds þeirra á Stórabóli í landspildu óskipts lands sex jarða sem tekin hefur verið eignarnámi, næmi 1/6 hluta á móti jafnstórum hluta hinna jarðanna fimm, allt til þess að eignarnámsþolar gerðu með tölvupósti 22. ágúst 2019 til matsnefndar tilkall til 24,6%  hlutdeildar þar í. Hefur því tilkalli verið mótmælt af hálfu eignarnema. Landspildan er eins og áður greinir í óskiptu landi jarðar eignarnámsþola og fimm annarra jarða og veltur úrlausn um eignarhald á spildunni og skiptingu eignarréttar yfir henni, milli sameigenda spildunnar, þannig á afstöðu eignarnámsþola og eigenda hinna jarðanna fimm. Hér er til þess að líta að valdsvið matsnefndarinnar einskorðast við úrlausn ágreinings um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum nr. 11/1973, og það er þannig ekki nefndarinnar að taka afstöðu til ágreinings um eignarhald á því landi sem tekið er eignarnámi. Af þeirri ástæðu hefur matsnefndin skorið úr um fjárhæð eignarnámsbóta vegna þessarar landspildu, milli vegstöðva 4930 og 7050 annars vegar og milli vegstöðva 0 og 1805 hins vegar, á grundvelli tilboðs eignarnema. Er kröfu eignarnámsþola, sem að stærri eignarhlutdeild í landspildunni lýtur, því hafnað.

 

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þótt fyrir matsnefndinni liggi upplýsingar um stöku kaupsamning á landspildum í og við Hornafjörð, þar sem land eignarnámsþola er staðsett, er það álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

 

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir  þá landspildu sem fer undir nýtt vegstæði. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 30 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Þá álítur matsnefndin að verðmat það sem eignarnámsþolar lögðu fram og miðar við 400 krónur á fermetra gefi heldur ekki rétta mynd af verðmæti þess. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti landsvæðis vestan Hornafjarðarfljóts nemi 50 krónum á fermetra eða 500.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að landsvæðið sem um ræðir er á suðausturhorni landsins, í grennd við þéttbýliskjarna á Höfn í Hornafirði en þó vestan Hornafjarðarfljóts, það er gróðursælt og þaðan er fallegt yfir að líta, ásamt því að búa orðið við aukinn fjölda ferðamanna. Þá telur nefndin rök ekki standa til þess að gera greinarmun á verðmæti einstakra landspildna vestan fljótsins. Fyrir 137.933 fermetra landspilda í óskiptu landi Holtahóla, Tjarnar 2, Stórabóls, Hólabrekku, Holtasels og Kyljuholts (milli vegstöðva 4930 og 7050 og milli vegstöðva 0 og 1805) þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 1.149.442 krónur ((137.933/6)x50). Er kröfu eignarnámsþola um bætur fyrir ætluð fjárhagsleg áhrif, sem nýtt vegstæði hefði á annað það land sem þeir halda eftir, hafnað sem tilhæfulausri.

 

Í öðru lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir jarðefni úr námu 2 við Djúpá og námu 5 í Hornafjarðarfljóti. Ef litið er til námu 5, þá er þar um að ræða efni sem er illa fallið til mannvirkjagerðar sökum fínleika þess en meðal kornastærð efnisins er um 0,5 mm. Svo fíngert fyllingarefni hefur ákveðna galla miðað við grófara efni með breytilegri kornastærð. Þannig er burðargeta þessa efnis mun minni en grófara efnis með breytilegri kornastærð. Þá er hætta á útskolun og foki og þarf því að gera ráðstafanir til þess að verja fyllinguna fyrir vatnsgangi og foki og eins þarf að nota meiri þykkt af efninu heldur en ef um væri að ræða grófara fyllingarefni sem tæki betur þjöppun. Þá er til þess að líta að efni þetta er til í miklu magni á svæðinu. Á hinn bóginn er efnið í námu 2 gott fyllingarefni í neðri burðarlög en ekki nothæft í efstu burðarlög og slitlög eins og efnið í námu 6 í Melsendahrauni í Skógey, en fjárhæð eignarnámsbóta vegna jarðefnis úr þeirri námu eru ákveðnar í úrskurði matsnefndar eiganrnámsbóta í máli nr. 9/2019 sem kveðinn er upp í dag. Matsnefndin telur þannig rétt, að virtum gæðum jarðefnisins sem undir er í málinu og markaðsaðstæðum, að miða við að verðmæti þess nemi 100 krónum á rúmmetra vegna burðarlagsefnis í námu 2 og 35 krónum á rúmmetra vegna fyllingarefnis í námu 5. Fyrir hlutdeild eignarnámsþola í 130.000 rúmmetrum burðarlagsefnis úr námi 2 við Djúpá, það er í 21.667 rúmmetrum af jarðefninu (130.000/6), þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 2.166.667 krónur ((130.000/6)x100). Fyrir hlutdeild eignarnámsþola í 240.000 rúmmetrum fyllingarefnis úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti, það er í 6.668 rúmmetrum af jarðefninu ((0,1667x240.000)/6), þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 233.380 krónur (6.668x35). Samtals eru eignarnámsbætur vegna þessa þáttar 2.400.047 krónur.

 

Í þriðja lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

 

Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram sameiginlegt málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu eignarnámsþola í þessu máli og eignarnámsþola í fimm öðrum málum sem rekin eru fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, málum nr. 3/2019, 4/2019, 5/2019, 6/2019 og 7/2019, vegna fyrirhugaðrar vegalagningar um Hornafjörð. Af málskostnaðaryfirlitinu verður ráðið að kostnaðurinn féll að hluta til vegna ráðgjafar sem eignarnámsþolar nutu um tíma áður en til samningaviðræðna um matsandlagið og ákvörðun um eignarnám lágu fyrir, allt frá 31. mars 2016 að telja, en yfirlitið tekur t.d. til hagsmunagæslu fyrir skipulagsyfirvöldum og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þ. á m. vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vegalagningar. Þessi kostnaður eignarnámsþola verður ekki í heild sinni talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, svo sem áskilið er í síðari málslið 11. gr. þeirra. Á hinn bóginn er til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 11/1973 er það matsnefndarinnar að tryggja að réttur manna samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verði raunhæfur og virkur. Þá er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins áttu fyrstu bréflegu samskipti málsaðila sér stað með bréfi eignarnema 29. febrúar 2016 til eignarnámsþola og að eignarnemi hafi fyrst boðið fram bætur til handa eignarnámsþolum með bréfi 14. júlí 2016. Verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþolum í þessu máli þannig ákveðið að álitum, þ. á m. að teknu tilliti til þess að lögmenn eignarnámsþola hafa samkvæmt áðurgreindu rekið fimm önnur mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta vegna eignarnáms á landi í þágu sömu framkvæmdar eignarnema.

 

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur samtals vera 4.549.489 krónur. Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum óskipt 1.490.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða 4.549.489 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu, og eignarnámsþolum, Gunnari Helgasyni og Hafdísi Bergmannsdóttur, samtals 1.490.000 krónur í málskostnað.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

____________________________

Valgerður Sólnes

 

 

____________________________                          ____________________________

            Magnús Leópoldsson                                                  Vífill Oddsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta