Skýr skilaboð í ríkisfjármálum
Sögulega skaðleg áhrif verðbólgu
Áhrif mikillar verðbólgu eru neikvæð, kaupmáttur launa dvínar og verðskyn dofnar. Íslendingar þurfa ekki að leita langt aftur í tímann til að rifja upp afleiðingar þess að þjóðfélagið missti tök á verðbólgunni. Fyrir fjörutíu árum mældist verðbólga á 12 mánaða tímabili um 100% með tilheyrandi gengisfellingum og óróa í samfélaginu. Tveimur árum áður, árið 1981, höfðu farið fram gjaldmiðilsskipti þar sem verðgildi krónunnar var hundraðfaldað og ný mynt og seðlar kynnt til sögunnar. Á þessum tíma horfði almenningur upp á virði þessarar nýju myntar hverfa hratt. Ég get fullyrt að enginn sem man þá tíma vill hverfa þangað aftur. Sama ástand er ekki upp á teningnum núna, en við verðum hins vegar að taka á verðbólguvæntingum til að vernda heimilin. Verðbólgan mældist 9,5% í síðasta mánuði. Ég er sannfærð um að með aðgerðum Seðlabanka Íslands og stjórnvalda muni draga úr verðbólgunni. Peningamálin og fjármál hins opinbera eru farin að vinna betur saman. Það styður einnig við þessi markmið að ríkisfjármálin eru þannig hönnuð að þau búa yfir sjálfvirkri sveiflujöfnun og grípa þennan mikla hagvöxt eins og sjá má í auknum tekjum ríkissjóðs og vinna þannig á móti hagsveiflunni og styðja við baráttuna við verðbólguna. Útflutningsatvinnuvegirnir hafa staðið sig vel og krónan hefur verið stöðug og með hjaðnandi verðbólgu erlendis ætti að nást jafnvægi og við getum smám saman kvatt þennan óvelkomna gest.Aðgerðir ríkisstjórnarinnar styðja við lækkun verðbólgu
Eitt helsta markmið ríkisstjórnarinnar er að auka velsæld og ná tökum á verðbólgunni. Þess vegna hefur verið lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að lögum verði breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting, enda miðar breytingin við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þessi aðgerð er mjög mikilvæg til að vinna gegn háum verðbólguvæntingum. Til að treysta enn frekar sjálfbærar verðbólguvæntingar hefur verið ákveðið að flýta gildistöku fjármálareglunnar, sem þýðir að hámark skulda ríkissjóðs getur ekki verið meira en 30% og að sama skapi þarf að vera jákvæður heildarjöfnuður á hverju fimm ára tímabili. Skuldastaða ríkissjóðs Íslands hefur verið að þróast í rétta átt, skuldir ríkissjóðs eru ekki miklar í samanburði við aðrar þjóðir og er það mikilvægt fyrir lánshæfið að svo verði áfram.Auk þessa er verið að bæta afkomu ríkissjóðs um 36,2 milljarða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri ríkisins, þar með talið niðurskurði í ferðakostnaði, frestun framkvæmda, nýjum tekjum og með því að draga úr þensluhvetjandi skattaívilnunum. Tekjur ríkissjóðs eru einnig rúmlega 90 milljörðum meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Vegna þessa tekjuauka er aðhaldsstigið að aukast. Í þessu felst meðal annars að framkvæmdum fyrir um 3,6 milljarða króna er frestað til að draga úr þenslu. Sökum skaðlegra áhrifa mikillar verðbólgu á okkar viðkvæmustu hópa ákvað ríkisstjórnin að verja kaupmátt örorku- og ellilífeyrisþega og því hefur lífeyrir almannatrygginga verið hækkaður um tæp 10% frá upphafi árs. Einnig hefur frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verið hækkað um 10%. Þessar aðgerðir eru afar mikilvægar til að verja kaupmátt þeirra sem standa verst.