Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2023

Þriðja úttektarskýrsla GRETA, eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali, um Ísland var birt í október 2023 en umtalsverð vinna er fólgin í úttektum af þessu tagi.  Áherslan í þessari þriðju úttektarlotu samningsins var á aðgengi þolenda mansals að skilvirkum úrræðum og réttarkerfinu. Ísland hefur haldið áfram að þróa lagaumgjörð til að takast á við mansalsmál en nú er unnið að aðgerðaáætlun til að mæta athugasemdum í skýrslunni.

Í mars tók gildi ný aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota fyrir árin 2023 – 2025. Með áætluninni verður áfram unnið markvisst að úrbótum við meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu. Áhersla er lögð á bættan málshraða við meðferð kynferðisbrota, m.a. með auknum fjárveitingum og fjölgun stöðugilda við rannsókn kynferðisbrota. Þá er áhersla lögð á að stuðla að betri upplifun og þjónustu við bæði brotaþola og sakborninga, m.a. með því að bjóða brotaþolum viðeigandi stuðningsviðtal hjá fagaðila í kjölfar skýrslutöku hjá lögreglu, og bættri upplýsingagjöf lögreglu til þolenda um framgang máls.

Í júní kom út skýrsla um greiningu á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis sem unnin var í samræmi við ákvörðun dómsmálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við heilbrigðisráðherra. Markmið skýrslunnar var að greina hentugustu leiðir til að tryggja starfsemi miðstöðva fyrir þolendur ofbeldis til framtíðar á Íslandi og hver aðkoma lögreglunnar ætti að vera að miðstöðvunum. Helstu niðurstöður greiningarinnar eru að þörf sé á bæði fjárhagslegum og kerfislægum stuðningi frá stjórnvöldum til að tryggja starfsemi þolendamiðstöðva til framtíðar. Þar með talið að setja mögulega sérstök lög um þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, skilgreina og efla stuðningsþjónustu fyrir þolendur ofbeldis, endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og móta samræmdar reglur fyrir samstarfsaðila og leiðbeiningar fyrir fagfólk.

Sýslumenn lögðu mikla áherslu á stafrænar umbætur á árinu 2023, með það að meginmarkmiði að bæta þjónustuna enn frekar við almenning. Á árinu var lögð áframhaldandi áhersla á að styðja við stafrænar umbreytingar í starfsemi embættanna, svo sem með þörfum umbótum á starfs- og upplýsingakerfum embættanna, vefþjónustum, eyðublöðum o.fl., með það að markmiði að sýslumenn geti orðið leiðandi í rafrænni þjónustu ríkisins. Meðal málaflokka sem innleiddu stafræn eyðublöð voru fjölskyldumál, dánarbúsmál, leyfamál og skírteini. Jafnframt var aðgengi almennings bætt að útgefnum leyfum, upplýsingum um gildandi skírteini, ásamt því að forskráning fyrir umsóknir um vegabréf var gerð tiltæk á Mínum síðum á Ísland.is. Innleiðing rafrænna þinglýsinga hélt áfram og fór hlutfall rafrænna þinglýsinga hækkandi eftir því sem leið á árið. Meðal þess sem var innleitt voru tæknilausnir fyrir þinglýsingu tryggingarbréfa, afsala í kjölfar kaupsamninga og fjárnáma. Sýslumenn fengu á árinu, fyrstir opinberra stofnana, viðurkenningu á ráðstefnunni Tengjum ríkið fyrir að hafa náð öllum níu Stafrænum skrefum Ísland.is. Auk stafrænna umbóta var unnið að því að efla starfsemi sýslumanna, til að mynda með því að færa verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga til embættisins á Norðurlandi vestra. Seinni hluta ársins hófst frekari stefnumótunar- og greiningarvinna í málefnum sýslumanna, sem þjónar því markmiði að móta nánar framtíðarstefnu málaflokksins um bætta þjónustu við almenning.

Áform um breytingar á persónuverndarlögum voru kynnt á samráðsgátt stjórnvalda til undirbúnings á heildarendurskoðun laganna, m.a. sem viðleitni til að leita leiða til að styðja við Persónuvernd vegna aukins álags á stofnunina undanfarin misseri en einnig til að bregðast við athugasemdum sem fram hafa komið um atriði sem betur mega fara í lögunum. Þá var unnið að uppfærslu reglugerðar frá árinu 2001 um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust en ný reglugerð þess efnis tók gildi 1. september 2023. Með hinni nýju reglugerð var leitast við að setja vinnslu persónuupplýsinga hjá fjárhagsupplýsingastofum skýrari ramma (hér er frétt: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/06/27/Ny-reglugerd-um-vinnslu-upplysinga-um-fjarhagsmalefni-og-lanstraust/).

Lagður var grunnur fyrir útgáfu nýrra nafnskírteina hjá Þjóðskrá Íslands með samþykkt nýrra laga um nafnskírteini á Alþingi í júní 2023. Ný nafnskírteini samræmast nú auknum öryggiskröfum sem gerðar eru til persónuskilríkja í Evrópu. Þau eru fullgild persónuskilríki og geta íslenskir ríkisborgarar á öllum aldri sótt um nafnskírteini og notað þau til auðkenningar. Ný nafnskírteini fela einnig í sér að hægt er að framvísa þeim sem ferðaskilríki á ferðalögum innan EES-svæðisins. Þjóðskrá ber ábyrgð á útgáfu og afhendingu nýrra nafnskírteina, sem fela í sér verulegar umbætur fyrir íslenska ríkisborgara. (hér er frétt: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/03/06/Utgafa-hafin-a-nyjum-nafnskirteinum/).

Á árinu 2023 var sett ný reglugerð um ættleiðingar sem kom í staðinn fyrir eldri reglugerð um ættleiðingar og jafnframt voru gerðar breytingar á reglugerð um ættleiðingarfélög. Með breytingunum voru m.a. færð tiltekin verkefni á sviði ættleiðinga, sem hingað til hafa verið á verksviði Íslenskrar ættleiðingar, til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Mun sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu nú t.a.m. bjóða uppkomnum ættleiddum upp á ráðgjöf hjá embættinu, en embættið býður einstaklingum upp á 5 viðtöl að kostnaðarlausu. Þá voru gerðar breytingar sem snúa að þeim skilyrðum sem umsækjendur um ættleiðingu þurfa að uppfylla, s.s. varðandi aldur og einhleypa umsækjendur o.fl.

Frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um alþjóðlega vernd var samþykkt 15 mars 2023, sbr. lög nr. 14/2023. Markmiðið með breytingunum var að auka skilvirkni við meðferð útlendingamála, sporna við misnotkun verndarkerfisins, skerpa á heimildum til skerðingar og niðurfellingar þjónustu og tryggja framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun.

Frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, og lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, var samþykkt 9. júní 2023, sbr. lög nr. 56/2023. Með lögunum voru heimildir  fyrir umsækjendur um dvalarleyfi rýmkaðar, m.a. vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar, fyrir nýútskrifaða háskólanema á grundvelli sérþekkingar þeirra og fyrir doktorsnema. Einnig voru lagðar til rýmkaðar heimildir til að endurnýja dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og lengja gildistíma dvalarleyfis fyrir íþróttafólk og fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings. Þá var heimild til fjölskyldusameiningar fyrir dvalarleyfishafa í námi og í sérhæfðum störfum eða störfum þar sem skortur er á starfsfólki rýmkaður auk þess sem réttur breskra ríkisborgara með dvalarleyfi til fjölskyldusameiningar er áréttaður.

Lög um landamæri, nr. 136/2022, tóku gildi 10. janúar 2023 en þar voru gerðar breytingar reglum sem gilda um för einstaklinga yfir landamæri, m.a. innleidd ákveðin efnisákvæði reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins um þróun og starfsemi komu- og brottfararkerfis fyrir Schengen-svæðið, reglugerða um evrópskt ferðaupplýsinga- og ferðaheimildarkerfi og reglugerða um samvirkni milli upplýsingakerfa ESB og samhliða gerðar breytingar á lögum um útlendinga varðandi brottvísanir.

Fréttaannáll 2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum