Hoppa yfir valmynd
03. ágúst 2023 Dómsmálaráðuneytið

Góða skemmtun - grein á visir.is

Ein helsta ferðahelgi þjóðarinnar er framundan - verslunarmannahelgin. Rík hefð er fyrir viðburðum og útihátíðum út um allt land og dagarnir framundan eru engin undantekning hvað það varðar. Ég vil því senda öllum landsmönnum góða kveðju með ósk um að allir skemmti sér vel og að allir komi heilir heim.

Mikilvægt er að huga að afbrotavörnum áður en lagt er af stað. Lögreglan hefur vakið athygli á aukinni hættu á innbrotum þegar fólk fer í frí. Hver og einn getur lagt sitt af mörkum því fátt er betra til varnar innbrotum en góð nágrannavarsla, að vera með traustar læsingar og skilja eftir ljós bæði inni og úti ef þess er nokkur kostur

Öll viljum við eiga góða skemmtun um helgina og til þess að svo megi verða þurfum við að komast heilu og höldnu á áfangastað. Hvort sem við setjum stefnuna á Þjóðhátíð í Eyjum, Neistaflug á Neskaupstað, Eina með öllu á Akureyri eða einfaldlega í sumarbústað með fjölskyldu eða vinum í uppsveitum Suðurlands þá þarf að gefa sér nægan tíma og sleppa framúrakstri. Spennum bílbeltin, njótum þess að vera í góðum félagsskap og látum farþegana um símann og lagavalið á meðan við erum undir stýri.

Fólk út um allt land á að geta skemmt sér vel og það gerum við aðeins án ofbeldis. Neyðarlínan 112 og lögreglan í samvinnu við dómsmálaráðuneytið hefur verið í átaki um Góða skemmtun þar sem hvatt er til samstöðu gegn ofbeldi á skemmtunum í sumar. Átakið er í góðu samstarfi við þann fjölda einstaklinga og félagasamtaka sem standa að baki hverjum viðburði. Samhent átak okkar allra er nauðsynlegt til að úthýsa hvers kyns ofbeldi og áreitni. Tökum með okkur góða skapið og sýnum öll að slík hegðun á aldrei heima á hátíðum landsmanna.

Árangur okkar í forvörnum meðal barna sýnir best hversu mikilvægt það er að fjölskyldan skemmti sér saman. Gott uppeldi felst í að skila börnunum okkar út í lífið þannig að þau séu meðvituð um hætturnar og kunni að forðast þær. Í því felst að stundum þarf að segja nei, - jafnvel við einhverju “rosalega skemmtilegu” sem “allir” fá að gera! Ég tek undir brýningu lögreglunnar og hvet alla foreldra til að fylgjast vel með ferðum barna sinna. Látum það ekki henda að þau séu eftirlitslaus á tjaldstæðum eða viðburðum.

Að loknum hátíðarhöldum er brýnt að fara að öllu með gát. Því miður vilja slysin oft eiga sér stað á heimleið, ekki síst vegna þreytu eða ölvunar. Enginn ætti því að aka af stað án góðrar hvíldar og ekki fyrr en allt áfengi er farið úr blóðinu.

Munum að Neyðarlínan, 112, er alltaf til taks í neyð og lögreglan er boðin og búin að koma til aðstoðar.

Gleðilega verslunarmannahelgi!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta