Stórtækar umbætur í fangelsismálum - grein á visir.is
Nýtt fangelsi á Litla Hrauni
Fangelsið á Litla Hrauni er fyrir löngu orðið barn síns tíma enda komið til ára sinna, tekið í notkun árið 1929. Allar götur síðan hefur Litla Hraun verið stærsta fangelsi Íslands og sinnt mikilvægu hlutverki innan fullnustukerfisins.Síðasta vetur ákvað Alþingi að setja rúma tvo milljarða í endurbætur á Litla Hrauni. Við nánari skoðun var talið skynsamlegra að byggja nýtt fangelsi frá grunni við hlið núverandi fangelsis. Með nýju fangelsi munum við færa alla aðstöðu í nútímalegt horf þar sem áhersla verður á að tryggja öryggi fanga og alls starfsfólks sem starfar á Litla Hrauni. Tryggt verður að nauðsynlegar endurbætur verði gerðar á Litla Hrauni á byggingartíma nýs fangelsis enda er stefnt að því að full starfsemi verði í fangelsinu á meðan á byggingartíma stendur.
Eins og staðan er í dag er ekki mögulegt að skipta fangahópum á Litla Hrauni upp með fullnægjandi hætti og getur það og hefur skapað mikla hættu auk þess sem ómögulegt er að hindra streymi fíkniefna og annarra ólögmætra muna inn í fangelsið. Einnig er vinnuumhverfi allra starfsmanna óviðunandi og mikilvægt að bæta það. Þá þarf fangelsisumhverfi að vera þannig að uppbyggilegt endurhæfingarstarf í samræmi við betrunarsjónarmið sé mögulegt. Því miður er það ekki raunin á Litla Hrauni.