200 dagar í embætti - grein í Morgunblaðinu
200 dagar í embætti
Um þessar mundir hef ég verið dómsmálaráðherra í 200 daga. Þessir 200 dagar hafa verið viðburðarríkir, fullir af áskorunum og úrlausnarefnum, fyrirséðum og ófyrirséðum. Ég finn þungt fyrir mikilli ábyrgð sem mér hefur verið falin og hef einsett mér að standa undir þeirri ábyrgð.
Þegar ég tók við embætti ákvað ég að leggja sérstaka áherslu á fimm málaflokka. Þeir eru útlendingamálin og þá sérstaklega hið alþjóðlega verndarkerfi, Landhelgisgæslan, fangelsismál, löggæslumál með áherslu á skipulagða brotastarfsemi og aðrar ógnir og loks kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi. Þetta eru allt málefni sem eru ekki einungis mikilvæg í mínum huga heldur aðkallandi fyrir samfélagið. Íslensk náttúruöfl sáu til þess að almannavarnir urðu að sjötta áherslumálinu á þessu ári.
Brýnar aðgerðir í útlendingamálum
Útlendingamálin eru eitt af brýnustu viðfangsefnunum í íslensku samfélagi í dag. Frá árinu 2016 hefur fjöldi þeirra sem sótt hafa um vernd hér á landi aukist um tæp 300%. Í samanburði við hin Norðurlöndin fær Ísland hlutfallslega langflestu umsóknirnar um alþjóðlega vernd, eða 580 umsóknir á hverja 100.000 íbúa á árinu 2022, en meðaltal hinna Norðurlandanna er rúmlega 90 umsóknir. Þá hefur heildarfjöldi þeirra sem hafa fengið vernd á Íslandi, ef frá eru taldar umsóknir frá Venesúela og Úkraínu, tvöfaldast frá árinu 2021. Við erum að leggja okkar af mörkum til málaflokksins og gott betur. En þessi gríðarlega aukning reynir mikið á íslenskt samfélag, ekki síst okkar innviði, auk þess sem kostnaðurinn við verndarkerfið hefur vaxið óhóflega og er nú ríflega 15 milljarðar á ári.
Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp um breytingar á útlendingalögum í því augnamiði að færa íslenskt regluverk nær því sem þekkist í löndunum sem við berum okkur helst saman við. Tilgangur frumvarpsins er að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar og tryggja hagræðingu við nýtingu opinbers fjár.
Landhelgisgæslan ein mikilvægasta stofnun Íslendinga
Landhelgisgæslan hefur ótvírætt gildi fyrir íslenskt samfélag og er einn af hornsteinum okkar í almannavörnum og viðbragði vegna alvarlegra slysa um allt land. Rekstur gæslunnar hefur verið þungur og því er afar mikilvægt að tryggja fullnægjandi rekstrargrundvöll fyrir stofnunina á komandi árum. Unnið hefur verið að því síðustu mánuði að rýna stöðu gæslunnar og marka henni stefnu til framtíðar. Þegar kemur að öryggisstarfsemi á borð við starf Landhelgisgæslunnar verðum við ávallt að forgangsraða í þágu öryggis og getum ekki gefið afslátt af kröfum í þeim efnum.
Tryggja þarf öruggt samfélag
Umfang og eðli skipulagðrar brotastarfsemi hefur tekið verulegum breytingum til hins verra hér á landi. Vitað er að hópar innlendra jafnt sem erlendra aðila hafa það að atvinnu að fremja afbrot með skipulögðum hætti. Um er að ræða alvarleg ofbeldisbrot, þjófnað, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti. Þetta er verulegt áhyggjuefni og nauðsynlegt er að mæta þessari stöðu með markvissum afbrotavörnum enda eru afbrotavarnir grundvallaratriði í því að halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu.
Breytingar á lögreglulögum eru brýnar. Skýra þarf heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna og sérstaklega til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þess vegna lagði ég í haust fram frumvarp þess efnis og með þeirri von að með lagabreytingu verði betur hægt að fyrirbyggja afbrot og stuðla að auknu almannaöryggi.
Byggt til framtíðar í fangelsimálum
Í fangelsismálum erum við að hefja uppbyggingu til framtíðar. Ég hef kosið að líta heildrænt á málin þar sem við styðjum bæði við innviði fangelsismála en endurskoðum jafnframt fullnustukerfi okkar Íslendinga. Markmið okkar er að auka skilvirkni kerfisins en jafnframt tryggja að refsingum sé fullnægt á mannúðlegan og uppbyggilegan hátt.
Vinna við endurskoðun fullnustukerfisins hefst strax á nýju ári. Nú þegar er hafin vinna við að stórbæta aðstöðu í fangelsum landsins og er þar stærsta, einstaka verkefnið bygging nýs fangelsis að Litla-Hrauni. Sú uppbygging þarf að gerast hratt og örugglega og grundvallast á nútímaþekkingu á sviði endurhæfingar og öryggismála, með hagsmuni fanga, starfsmanna og fjölskyldna fanga í huga. Opnum rýmum í fangelsinu á Sogni verður einnig fjölgað, þar sem 14 ný rými verða tekin í notkun á næstu mánuðum. Endurkoma fanga er minni hjá þeim sem eru í opnum fangelsum, samanborið við endurkomu fanga í lokuðum úrræðum. Samhliða þessu verður komið á betri aðskilnaði milli kynja þannig að tryggt verði að konur geti vistast þar öruggar. Að auki vil ég forgangsraða meðferðarstarfi fyrir konur og auka aðgengi kvenfanga að sérfræðiaðstoð og sálfræðingum vegna áfalla og áfallastreitu.
Brotaþolum tryggður viðeigandi stuðningur
Mikilvægt er að vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi og hefur dómsmálaráðuneytið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, unnið að því að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis viðeigandi stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu, stuðlað að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins og styrkt reglubundið samráð þessara aðila um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis.
Þá hefur 200 milljónum kr. verið varið til að fjölga stöðugildum í meðferð kynferðisbrota hjá lögreglu, ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. Þetta hefur stytt málsmeðferðartíma kynferðisbrota og fækkað opnum kynferðisbrotamálum á ákærusviði og í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um 37% á undanförnum. Þetta eru allt atriði sem skipta gríðarlegu máli.
Öflugar almannavarnir í harðbýlu landi
Á árinu 2023 höfum við ítrekað verið minnt á mikilvægt hlutverk almannavarna. Tvisvar hefur gosið á Reykjanessskaga, grípa þurfti til rýmingar í heilu bæjarfélagi sem enn sér ekki fyrir endann á og íbúar Vestmannaeyja stóðu frammi fyrir alvarlegri stöðu þegar vatnsleiðsla bæjarins varð fyrir skemmdum. Við fáum ekki nógsamlega þakkað öllum þeim viðbragðsaðilum, lögreglu, björgunarsveitum og almannavarnarfólki sem staðið hefur erfiðar og langar vaktir í þeim hremmingum sem skekið hafa íslenskt samfélag á árinu.
Undir lok árs mælti ég fyrir frumvarpi um varnargarða gegn hraunflóðum sem er risastórt verkefni. Þegar þetta er skrifað er útlit fyrir að reisa þurfi nýja varnargarða til varnar sjálfum Grindavíkurbæ.
Að lokum
Margt hefur áunnist á þessum 200 dögum en ljóst er að verkefnin fram undan eru margvísleg og krefjandi. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á mikilvægum og knýjandi málaflokkum og sem dómsmálaráðherra mun ég áfram vinna að þeim málum af heilum hug í þágu samfélags okkar allra.