Grindavík 50 ára - grein í Morgunblaðinu
Grindavík 50 ára
Grindarvíkurbær fagnar í dag 50 ára kaupstaðarréttindum sínum. Það eru tímamót sem vert er að minnast.En þó að manni finnist 50 ár ekki vera langur tími í þessu samhengi að þá nær saga Grindavíkur mun lengra aftur enda hefur verið samfelld byggð í Grindavík frá Landnámu.
Líf og byggð hefur frá upphafi þróast í Grindavík í kringum sjómennsku. Stutt hefur verið á farsæl fiskimið þrátt fyrir að á árum áður hafi innsiglingin í Grindavík verið varasöm enda voru sjóslys tíð og margir sem týndu lífi við þessa mikilvægu atvinnugrein. Margir sneru ekki til baka úr róðri. Grindvíkingar hafa enda verið í fararbroddi á Íslandi við að koma upp björgunarviðbragði en í Grindavík var það Sr. Oddur V. Gíslason prestur sem barðist fyrir að auka öryggi sjófarenda og má segja að sú barátta hafi leitt til stofnunar bjargráðafélaga um land allt.
Grindvíkingar hafa þannig mótast af nánu sambýli við óblíð náttúruöfl. Ávallt hefur sjórinn minnt á sig og nú síðustu misserin hefur jörðin skolfið og hreinlega gefið sig undir Grindavík. Grindvíkingar þekkja það best að mennirnir áforma en náttúran ræður.
Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með Grindvíkingum síðustu mánuði hvernig þeir hafa tekist á við erfiðar aðstæður og barist hetjulega við móður náttúru. En því miður erum við agnarsmá í þeirri baráttu og megum okkur lítils. Við munum þó áfram gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera líf Grindvíkinga bærilegt og skapa frekari forsendur til byggðar í Grindavík, þegar aðstæður skapast til slíks.
Í áranna rás hefur sýnt sig að Grindavík er einstakt samfélag með blómlegt atvinnulíf, samheldni og grósku. Það er engum vafa undirorpið að Grindavík hefur verið eitt af dugmestu sveitarfélögum landsins og ef eitthvert sveitarfélag getur byggt upp öfluga starfsemi á ný þá er það Grindavík. Stjórnvöld munu hingað til sem hér eftir standa með Grindvíkingum að takast á við þær áskoranir sem blasa við.
Á fimmtíu ára afmæli sveitarfélagsins vil ég senda Grindvíkingum nær og fjær mínar innilegustu óskir um bjarta framtíð. Til hamingju með daginn Grindavík.