Ávarp á stofndegi Öruggara Suðurlands
Ávarp – Öruggara Suðurland
Takk fyrir að bjóða mér að vera með ykkur hér í dag. Það er mikill heiður og sér í lagi vegna þess að þótt ég sé dómsmálaráðherra, þá er ég ekki síður fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis.
Ég vil byrja á að fagna þeim mikilvæga samstarfssamningi sem Sunnlendingar hafa komið sér saman um. Það er veigamikið að efla samvinnu við úrlausn mála en ekki síður að skapa traustan grundvöll samvinnu þegar kemur að þessum málaflokki.
Frá því að ég tók við embætti síðastliðið haust hef ég lagt áherslu á að tryggja þurfi öruggt samfélag. Það hefur verið eitt af mínum áherslumálum í embætti að styrkja löggæslu í landinu enda er ljóst að málflokkurinn hefur þróast gríðarlega undanfarin ár, bæði að eðli og umfangi. Landsmönnum hefur fjölgað hratt og ferðamenn eru margfalt fleiri en áður – sérstaklega hér á Suðurlandi. Þessari fjölgun hafa fylgt margvísleg verkefni og aukið álag. Samhliða þessari þróun höfum við orðið vör við aukinn vopnaburð og alvarlegri afbrot en áður auk þess sem skipulögð brotastarfsemi hefur aukist hér á landi. Það er því óhætt að segja að starfsumhverfi lögreglu hafi gjörbreyst á síðustu árum.
Það er einmitt þess vegna sem ég tel brýnt að setja málefni lögreglunnar á oddinn og það er nákvæmlega það sem ég hef gert. Ég hef lagt áherslu á að lögreglan þurfi nægan mannafla til að bregðast við þróun samfélagsins og þeim ógnum sem að íslensku samfélagi steðjar. Þessi staða sem nú er uppi hefur kallað á markvissar aðgerðir til að bæta þessa stöðu. Má í því skyni nefna að í fyrra var sett af stað fjórþætt aðgerðaráætlun í samstarfi dómsmálaráðuneytisins, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra landsins og héraðssaksóknara. Fól hún í sér stóreflingu í almennrar löggæslu, bættan málshraða kynferðisbrota, aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi og eflingu lögreglunáms hér á landi. Var í því skyni fjölgað umtalsvert stöðugildum hjá lögreglu, árið 2023, til að mæta veikleikum og efla löggæslu um allt land.
Aukin áhersla hefur verið lögð á að styrkja tengsl lögreglu og nærsamfélaga, meðal annars með því að koma á fót samfélagslöggæslu. Með samfélagslögreglumönnum er löggæslan færð nær samfélaginu og sköpuð sterkari tengsl. Með uppbyggingu á svæðisbundnu samráði vegna afbrotavarna fá lögreglan og hennar helstu samstarfsaðilar innsýn í áskoranir hvers svæðis. Það gildir jafnt um höfuðborgarsvæðið og á landsbyggðinni.
Árið 2019 var í fyrsta skipti gefin út löggæsluáætlun til fimm ára sem hafði það að markmiði að setja fram almenna stefnumörkun í löggæslumálum. Nú er hafin vinna við að gera nýja löggæsluáætlun og er áætluninni ætlað að vera eins konar verkfæri til að kortleggja og greina stöðuna í löggæslumálum hverju sinni og setja markmið og mælikvarða. Í þeirri vinnu verður skoðað sérstaklega hvaða mannafli þarf að vera til staðar hjá lögreglu til að hún geti sinnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti.
Annað áherslumál mitt hefur verið baráttan gegn kynbundnu ofbeldi. Ég vil tryggja að brotaþolum sé tryggður viðeigandi stuðningur og stuðla að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins og styrkt reglubundið samráð þessara aðila um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis.
Þá hefur 200 milljónum kr. verið varið til að fjölga stöðugildum í meðferð kynferðisbrota hjá lögreglu, ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. Þetta hefur stytt málsmeðferðartíma kynferðisbrota og fækkað opnum kynferðisbrotamálum á ákærusviði og í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um 37% á undanförnum. Þetta eru allt atriði sem skipta gríðarlegu máli.
Framfarir verða ekki af sjálfu sér og öflug samvinna sprettur ekki úr engu. Þess vegna fagna ég þeim merka áfanga sem hefur náðst hér á Suðurlandi og ég er fullviss um að hér kominn traustur grundvöllur fyrir Öruggara Suðurland, öllum til heilla.
Takk kærlega fyrir mig og innilega til hamingju.