Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2024 Dómsmálaráðuneytið

Ræða á landsþingi slökkviliðsmanna í Hveragerði 2024



Kæru slökkviliðsmenn og aðrir góðir gestir.

Það er eitthvað sérstakt við eldinn. Eitthvað sem vekur upp tilfinningar. Fátt er meira heillandi og fátt er meira ógnvekjandi. Við þekkjum það öll hversu róandi og notalegt það er að sitja og orna sér við eld og horfa í eldinn.
Eldurinn nærir og eldurinn tærir. Við erum sífellt minnt á eyðileggingarmátt eldsins og frá örófi hefur mannskepnan reynt að temja þennan frumkraft sem er okkur svo nauðsynlegur.
Það má segja að ég sé alin upp í mikilli nánd slökkviliðsins hér í Hveragerði en þegar ég var krakki var slökkvistöðin, eins frumstæð og hún var í þá daga, í húsinu við hliðina á æskuheimili mínu. Þar fyrir utan var tréstaur … símastaur þar sem brunalúðurinn trónaði á toppnum og neðar á staurnum var takki til að ýta á og kveikja á lúðrinum til að kalla út slökkviliðið er eldur varð laus. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu þreytandi það gat verið að búa við hliðina á brunalúðrinum!!! Enda stunduðu vandræðagemlingarnir að ýta á takkann aftur og aftur.
En ég man ekki bara eftir þessum frumstæða búnaði er ég var krakki heldur man ég einnig marga húsbruna hér í Hveragerði. Það varð stórbruni að mig minnir 1975 í næsta húsi við slökkvistöðina en þar brann fyrirtækið Funaofnar til kaldra kola. Nokkur einbýlishús brunnu sömuleiðis og 1974 eða 1975 og þá slasaðist kennari við grunnskólann alvarlega eftir að kviknaði í heimili hennar en hún lifði það sem betur fer af. Ef ég man það rétt þá kviknaði í rúminu hennar en í þá daga þótti eðlilegt að reykja upp í rúmi. Þetta var fyrir tíma eldforvarna eins og við þekkjum í dag.
Það var einnig sérstakt að verða fyrsta manneskjan ásamt Aldísi systur minni til að verða varar við eldinn í Eden og horfa á það sögufræga fyrirtæki fuðra upp á örskotsstundu. Það kviknaði einnig í einbýlishúsi hér í bæ fyrir um 20 árum út frá eldingu sem laust niður í húsið. Þar bjó gamall maður sem var að horfa á sjónvarpið og varð ekki var við eldinn fyrr en slökkviliðið mætti á staðinn en þá skíðlogaði þakið.
Ég hef einnig haft persónuleg kynni af slökkvistörfum í gegnum son minn sem hefur starfað í yfir 10 ár hjá Brunavörnum Árnessýslu og er í dag varðstjóri. Hann hefur haft áhuga á þessu starfi frá því hann var 3-4 ára. Snemma beygist krókurinn. Hvort sem þið trúið því eða ekki að þá er ekki svo langt síðan Hafsteinn minn deildi heimili með mér og því þekki ég tilfinningu ástvina þegar útkallsbíbið kemur í símann og það er hrópað F1 og hlaupið út, hvort sem það er á nóttu eða degi, jólunum eða hvenær sem er. Og já ég veit að F1 er hæsti forgangur.
Ég þekki ónotatilfinninguna að bíða á milli vonar og ótta að hann sé ekki að fara inn í hættulegar aðstæður eða að einhver sé í lífshættu. Starf slökkviliðsmannsins er nefnilega ekkert venjulegt starf, þetta verður lífsstíll og maki og börn fara ekki varhluta af þessu starfi.
En ég nefndi hér áðan hversu frumstæð slökkvistöðin var hér í Hveragerði er ég var að alast upp. Einn slökkvibíll og einn brunalúður. Slökkviliðið voru öflugir sjálfboðaliðar sem flestir voru einnig í björgunarsveitinni. Ég hef sem íbúi hér og í gegnum son minn fylgst með þróuninni í gegnum árin og því orðið vitni að því hvernig tækni og öflugri tækjabúnaður hefur bæst við hjá slökkviliðum landsins. Fagmennskan aukist og meðvitund um eðli starfsins og hætturnar sem fylgja því. Við erum orðin meðvitaðri um að þeir sem sinna slökkvistörfum eru útsettari fyrir því að verða fyrir heilsufarsskaða vegna mengunar og annarra þátta.
Það er ánægjulegt að sjá að sveitarfélögin hringinn í kringum landið hafa tekið þennan málaflokk föstum tökum og flest bætt verulega úr. Enda er mikið í húfi. Við sáum það í fréttum í vikunni frá stórbruna í Kaupmannahöfn að þar er tjón sem aldrei verður metið að fullu til fjár enda um tilfinningalegt tjón að ræða sem og fjárhagslegt.

Það þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann til að sjá hversu mikill aðstöðumunur slökkviliða er í dag. Ég vil samt fá að nefna að við þurfum að gera gangskör í forvörnum og ná betur utan um búsetu fólks og tryggja að brunavarnir séu í lagi.
Það hefur verið gríðarlegt álag á slökkvilið suðvesturshornsins síðustu ár, ekki bara hafa verið fjöldi húsbruna með manntjóni heldur og einnig hafið þið komið með öflugum hætti að verkefnum tengdum Grindavík og eldsumbrotum á Reykjanesi.
Slökkvilið Grindavíkur stóð í ströngu á síðasta ári í gríðarlegum gróðureldum þar sem reyndi á búnað og mannskap. Það fékk mann til að hugsa um allar sumarhúsabyggðirnar þar sem getur auðveldlega á þurrkatímum skapast alvarlegt almannavarnarástand ef eldur brytist út. Og af því ég nefni almannavarnir að þá eru þið slökkviliðsmenn mikilvægur hluti almannavarna Íslands er hætta steðjar að.
Að lokum vil ég segja að við sem samfélag berum ábyrgð á að veita slökkviliðinu þann stuðning og nauðsynlega hvatningu sem þarf til að slökkviliðið geti þjónað okkur með hugrekki sínu og hjálpsemi. Þannig sköpum við öruggara umhverfi fyrir okkur öll og þannig getum við áfram mætt hvaða áskorun sem er.
Það var mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag. Kærar þakkir fyrir mig.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta