Ávarp á fundi kjördæmisráðs Suðurkjördæmis
Kæru félagar. Mikið er gaman að vera með ykkur hér í Suðurkjördæmi og sjá fjölmennið og finna kraftinn hér í kjördæminu. Það er mikilvægt að við Sjálfstæðismenn treystum böndin á þessari stundu og eflum andann nú þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð með formann okkar í forsæti. Það er um eitt ár eftir af kjörtímabilinu og við Sjálfstæðismenn erum í lykilstöðu til þess að koma okkar málum til leiðar.
Ég hef áður sagt að enginn flokkur hefur lagt meira af mörkum til að skapa íslenskt samfélag en Sjálfstæðisflokkurinn. Samfélag sem er í fremstu röð í heiminum á flesta mælikvarða sem skipta okkur máli, hvort sem litið er til hagsældar, velferðar eða jafnréttis. Þau lífsgæði sem hér hafa skapast hafa ekki sprottið af engu. Þau hafa myndast vegna þeirrar hugsjónar og þeirra gilda sem við Sjálfstæðismenn stöndum fyrir.
Það er okkar flokkur sem hefur öðrum framar staðið vörð um réttarríkið, frelsi einstaklingsins og borgaraleg gildi. Við höfum talað með ábyrgum hætti og byggt málflutning okkar á staðreyndum. Við höfum einnig þorað að taka ákvarðanir og sett mál á dagskrá þegar aðrir flokkar hafa veigrað sér við því.
Þegar sagan er skoðuð sést glöggt að það vorum við Sjálfstæðismenn sem nálguðumst útlendingamálin af ábyrgð og tókumst á við vandann löngu áður en aðrir flokkar vöknuðu til lífsins. Það er til stjórnmálaflokkur á Íslandi, sem nú mælist með himinskautum í skoðanakönnunum, sem lét eins og við Sjálfstæðismenn værum að fremja myrkraverk þegar við lögðum fram tillögur í útlendingamálum. Nú er þessi sami flokkur kominn í röð með öðrum flokkum þar sem þau bíða í öngum sínum eftir að taka upp stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum útlendinga. Loksins loksins, leyfi ég mér að segja.
Tölfræðin sýnir að við Sjálfstæðismenn erum að ná tökum á útlendingamálunum. Það gerum við með þeim málum sem við leggjum fram í þinginu, eins og útlendingafrumvarpinu mínu, en einnig hvernig við tölum út á við. Á sama tíma í fyrra höfðu 1.585 umsóknir um alþjóðlega vernd borist. Á þessu ári hafa 669 umsóknir borist. Þetta er tæplega 60% lækkun og hún verður ekki af sjálfum sér.
Það eru mörg brýn mál í dómsmálaráðuneytinu og mörg þeirra hafa beina tengingu við mitt kjördæmi á Suðurlandi.. Frá því að ég tók við embætti hef ég viljað hefja uppbyggingu til framtíðar í fangelsismálum. Ég hef kosið að líta heildrænt á málin þar sem við styðjum bæði við innviði fangelsismála en endurskoðum jafnframt fullnustukerfi okkar Íslendinga. Markmið okkar er að auka skilvirkni kerfisins en jafnframt tryggja að refsingum sé fullnægt á mannúðlegan og uppbyggilegan hátt.
Vinna við endurskoðun fullnustukerfisins er hafin og einnig vinna við að stórbæta aðstöðu í fangelsum landsins og er þar stærsta, einstaka verkefnið bygging nýs fangelsis að Litla-Hrauni. Sú uppbygging þarf að gerast hratt og örugglega og grundvallast á nútímaþekkingu á sviði endurhæfingar og öryggismála, með hagsmuni fanga, starfsmanna og fjölskyldna fanga í huga. Opnum rýmum í fangelsinu á Sogni verður einnig fjölgað, þar sem 14 ný rými verða tekin í notkun á næstu mánuðum. Endurkoma fanga er minni hjá þeim sem eru í opnum fangelsum, samanborið við endurkomu fanga í lokuðum úrræðum. Samhliða þessu verður komið á betri aðskilnaði milli kynja þannig að tryggt verði að konur geti vistast þar öruggar. Að auki vil ég forgangsraða meðferðarstarfi fyrir konur og auka aðgengi kvenfanga að sérfræðiaðstoð og sálfræðingum vegna áfalla og áfallastreitu. Það er mjög mikilvægt að finna velvildina frá Suðurkjördæmi í þessum málaflokki og stuðninginn sem héðan kemur.
Mig langar líka að nefna við ykkur löggæslumálin, en ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja þurfi öruggt samfélag. Umfang og eðli skipulagðrar brotastarfsemi hefur tekið verulegum breytingum til hins verra hér á landi. Vitað er að hópar innlendra jafnt sem erlendra aðila hafa það að atvinnu að fremja afbrot með skipulögðum hætti. Það eru alvarleg brot, ofbeldisbrot, þjófnað, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti. Þetta er verulegt áhyggjuefni og nauðsynlegt er að mæta þessari stöðu með markvissum afbrotavörnum enda eru afbrotavarnir grundvallaratriði í því að halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu.
Þess vegna er brýnt að gera breytingar á lögreglulögum. Skýra þarf heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna og sérstaklega til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þess vegna lagði ég í haust fram frumvarp þess efnis og með þeirri von að með lagabreytingu verði betur hægt að fyrirbyggja afbrot og stuðla að auknu almannaöryggi. Ég vænti þess að málið verði klárað strax á þessu þingi.
Þá get ég einnig nefnt að frá því síðasta haust höfum við ítrekað verið minnt á mikilvægt hlutverk almannavarna. Endurtekið hefur gosið á Reykjanessskaga, grípa þurfti til rýmingar í heilu bæjarfélagi sem enn sér ekki fyrir endann á og íbúar Vestmannaeyja stóðu frammi fyrir alvarlegri stöðu þegar vatnsleiðsla bæjarins varð fyrir skemmdum. Til viðbótar við samþykkt laga um varnargarða og stuðning við Grindvíkinga stendur nú yfir vinna við heildarendurskoðun laga um almannavarnir. Ég fæ ekki nógsamlega þakkað öllum þeim viðbragðsaðilum, lögreglu, björgunarsveitum og almannavarnarfólki sem staðið hefur erfiðar og langar vaktir í þeim hremmingum sem skekið hafa íslenskt samfélag á síðastliðnum misserum.
Ég ætla að ná árangri og ég ætla að halda vegferðinni áfram. Ég vil þakka sérstaklega fyrir stuðninginn héðan úr kjördæminu í þessum mikilvægu málum. Vinnum saman til að tryggja bjartari og öruggari framtíð fyrir allt Suðurland. Takk kærlega fyrir mig.