Ávarp dómsmálaráðherra á kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna (CSW69), 10.-21. mars 2025.
Það er heiður að ávarpa 69. kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna og fagna þeim merku tímamótum að 30 ár séu liðin frá því að heimurinn tók höndum saman og gerði tímamótasamkomulag um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna.
Peking yfirlýsingin og aðgerðaráætlunin sem henni fylgdi fólu í sér sögulegt afrek - sem enn í dag er hornsteinn baráttunnar fyrir réttindum kvenna og stúlkna út um allan heim.
Miklar framfarir hafa átt sér stað og stór skref hafa verið stigin í átt að jafnrétti. Við þurfum þó að horfast í augu við það að enn er langt í land og við stöndum frammi fyrir ýmsum langvarandi og nýjum áskorunum.
Á undanförnum árum hefur orðið bakslag gegn mannréttindum og fjölbreytileika, þar á meðal þegar kemur að jafnrétti kynja og kyn- og frjósemisréttindum kvenna. Við verðum að vinna gegn þessari þróun og snúa henni við.
Virðulegu gestir,
Ofbeldi gegn konum og stúlkum er birtingarmynd kynjamisréttis, sem byggist á rótgróinni og samtvinnaðri mismunun og kerfisbundnu valdaójafnvægi. Eitt af meginmarkiðum Peking yfirlýsingarinnar var að tryggja að hver kona og stúlka gæti notið lífs án ofbeldis. Nú 30 árum síðar er staðan þó því miður enn sú að kynferðislegt- og kynbundið ofbeldi er eitt stærsta mannréttindamál samtímans.
Við á Íslandi erum staðráðin í því að koma í veg fyrir og berjast gegn öllum tegundum kynbundis ofbeldis. Á undanförnum árum höfum við lagt áherslu á stefnumótun og lagabreytingar sem miða að því að vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi. Sérstök áhersla hefur verið lögð á umbætur í réttarvörslukerfinu, með það að markmiði að tryggja gæði, skilvirkni og réttláta málsmeðferð. Hefur m.a. verið leitast við að auka traust og bæta upplifun þolenda af réttarvörslukerfinu, með því að veita þeim aukinn rétt til upplýsinga og með því að bæta verkferla þegar kemur að kærum til lögreglu.
Virðulegu gestir,
Ísland tók nýlega sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og mun sija í ráðinu næstu þrjú árin. Á meðan á setunni stendur munum við leggja sérstaka áherslu á börn og ungmenni, réttindi kvenna og stúlkna og réttindi hinsegin fólks. Við gerum okkur grein fyrir því að það eru enn ekki öll aðildarríki sem hafa komist að sömu niðurstöðu og við: Að tryggja jafnrétti kynja og mannréttindi allra einstaklinga, óháð kyni eða kynhneigð, sé lykilatriði þegar kemur að því að ná fram því besta sem samfélagið hefur upp á að bjóða; og það eru ekki einungis grundvallar mannréttindi, heldur nauðsynleg forsenda fyrir réttlátt, friðsælt og velmegandi samfélag.
Kynjajafnrétti hefur lengi verið forgangsmál hjá íslenskum stjórnvöldum og við erum stolt af því að vera leiðandi á því sviði. Við erum staðráðin í að halda áfram að leggja okkar að mörkum, bæði heima og erlendis. Við verðum að halda áfram og verja þær framfarir sem við höfum barist svo hart fyrir. Við munum ekki gefast upp fyrr en fullu jafnrétti hefur verið náð fyrir allar konur - í öllum sínum fjölbreytileika.
Takk fyrir