Hoppa yfir valmynd
31. mars 2025 Dómsmálaráðuneytið

Hinsegin veruleiki - Ávarp á málþingi um réttindi, líðan og stöðu hinsegin fólks á Íslandi, haldið í Hannesarholti, fimmtudaginn 20. mars 2025

Góðir gestir.

Mikið er gaman að sjá ykkur öll hér í Hannesarholti í dag.
Sjálf er ég bæði ánægð og stolt yfir að fá tækifæri til að standa hér frammi fyrir ykkur því eins og ég hef sagt frá opinberlega sóttist ég sérstaklega eftir því að taka ábyrgð á málaflokki jafnréttis og hinsegin mála í viðræðum um stjórnarmyndun fyrir jól. Fyrir því er einföld ástæða, ég brenn fyrir málaflokknum og mun leggja mig alla fram um að stuðla að framþróun hans á kjörtímabilinu.

Við lifum á umbrotatímum.
Ég er nýkomin af Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna í New York. Nú ætla ég að leyfa mér að vera örlítið persónuleg og trúa ykkur fyrir því að í ferðinni bærðust með mér ólíkar tilfinningar.

Ég var stolt yfir árangri Íslendinga á sviði jafnréttis og hinsegin mála. Stolt yfir því að tilheyra framvarðasveit Norðurlandaþjóðanna, miðla, ráðleggja og hvetja aðrar þjóðir til afreka á sömu sviðum.

Á hinn bóginn var ég döpur.
Ég var döpur yfir því að fleiri þjóðir skyldu ekki hafa áttað sig á því að mannréttindi eru grundvallarþáttur í uppbyggingu góðra samfélaga. Döpur yfir því að konur þyrftu enn að berjast fyrir frelsi sínu, menntun og þeim grundvallar réttindum að ráða yfir sínum eigin líkama.

Ég var döpur yfir því að í þessari mögnuðu borg hefði fjöldi fólks með einu pennastriki verið svipt þeim grundvallarmannréttindum að fá að skilgreina sig sjálft, njóta sömu mannvirðingar og frelsis og samborgarar þeirra. Ég var döpur yfir því að manneskjum eins og mér, eins og ykkur, hefði verið útskúfað og réttindi þess fótum troðin.

Bakslagið í Bandaríkjunum er vissulega ekki einsdæmi. Því miður ber á sömu tilburðum meðal nágrannaþjóða okkar í Evrópu. Nú síðast bönnuðu ungversk stjórnvöld Gleðigöngu í Búdapest. Hér heima höfum við ekki farið varhluta af bakslaginu, upplifað fordóma og jafnvel áreiti gagnvart hinseginfólki, meira að segja börnum og ungmennum. Afstaða núverandi stjórnvalda er skýr, hegðun af þessu tagi líðst ekki.

Hér á landi hafa verið stigin stór skref í réttindabaráttu Hinsegin fólks með löggjöf á borð við lögum um kynrænt sjálfræði frá árinu 2019.

Þá var stórt framfaraskref stigið þegar fyrsta þingsályktunin um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks var samþykkt árið 2022. Aðgerðaráætlun hefur að geyma fjölmargar aðgerðir um rannsóknir og upplýsingaöflun um hinsegin veruleika.

Hér á eftir ætlar einmitt dr. Þorsteinn Vilhjálmsson að kynna afrakstur einnar þessara aðgerða – nefnilega skýrslu hans um kortlagningu á stöðu, líðan og réttindum hinsegin fólks á Íslandi.
Gögn af þessu tagi eru þýðingarmikill grunnur að þróun frekari aðgerða inn í nýja aðgerðaáætlun um bættar aðstæður hinsegin fólks. Nú er verið að hefja undirbúning að nýrri aðgerðaáætlun í hinsegin málefnum í ráðuneytinu. Við þróun þeirrar áætlunar verður áhersla lögð á vítt samráð um mótun aðgerða.

Ég hlakka til að kynna fyrir ykkur skipulag stefnumótunarinnar og vona að sem flestir eigi eftir að taka þátt í mótun nýrra aðgerða.

Góðir gestir.
Íslendingar hafa sannarlega náð góðum árangri á sviði hinsegin málefna. Við trónum á toppnum á réttindakorti trans fólks í Evrópu (Trans Rights Map). Við erum í öðru sæti á eftir Möltu á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe) og stefnum að því að tróna á toppnum áður en langt um líður.

Baráttunni er þó hvergi nærri lokið. Gera þarf frekari lagaumbætur og efna til aðgerða til að tryggja sjálfsagða virðingu, aðstæður og aðbúnað hinsegin fólks í samfélaginu.
Við munum í senn leggja okkur fram um að bæta hinsegin veruleika á Íslandi og stuðla að umbótum á alþjóðavísu. Þar leggjumst við á árarnar með hinum Norðurlandaþjóðunum, brýnum raust okkar í Mannréttindaráðinu og tökum þátt í fjölda alþjóðlegra verkefna.
Nú ætla ég að fara að hleypa Þorsteini að. Ég er viss um að þið eruð jafn spennt og ég að heyra hvað hann hefur að segja. Á eftir gefst okkur tækifæri til að velta fyrir okkur hvaða lærdóm við getum dregið af niðurstöðunum.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég þó bæði þakka honum og RIKK kærlega fyrir gott samstarf við gerð skýrslunnar.

Við erum alltaf betri saman heldur en eitt og sér.

Þannig vonast ég til þess að okkur munu með samtakamætti lánast að taka örugg næstu skref inn í enn betri hinsegin veruleika.

Takk öll og bestu óskir um gott og uppbyggilegt málþing.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta