Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. desember 1999 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ræða á ráðstefnunni "Frá foreldrum til foreldra" í Kópavogi.

Ræða dómsmálaráðherra á ráðstefnunni ,,Frá foreldrum til foreldra" í Kópavogi 1.12.99.



Forseti Íslands, góðir ráðstefnugestir.

Fíkniefnamál og varnir gegn ólöglegum fíkniefnum hafa verið ofarlega á baugi í þjóðfélagsumræðu síðustu mánuða og missera. Það er að vonum. Ólögleg fíkniefni eru alvarlegasta váin sem vofir nú um stundir yfir íslenskum ungmennum og ungmennum um heim allan.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir alþjóðlegu samhengi fíkniefnavandans. Því fer fjarri að við séum að fást hér við eitthvað séríslenskt vandamál. Þetta kom skýrt fram á fundum mínum fyrr í þessum mánuði bæði með kvendómsmálaráðherrum heimsins í New York og einkafundi sem ég átti í Washington með Janet Reno, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Á fundi mínum með Janet Reno kom fram að Bandaríkjamenn hafa miklar áhyggjur af þróun í dreifingu og sölu ólöglegra fíkniefna. Þessi þróun tengist ekki síst mikilli alþjóðavæðingu glæpastarfsemi. Ég ræddi sérstaklega við bandaríska dómsmálaráðherrann um aukna samvinnu milli Íslands og Bandaríkjanna í baráttunni gegn fíkniefnum. Við ákváðum að efla þessa samvinnu og styrkja því það er brýnt að þjóðir heims taki höndum saman í baráttunni gegn þessum vanda, bæði í tvíhliða samvinnu og fjölþjóðlegri. Í þessu sambandi vil ég og geta þess að í síðasta mánuði stýrði ég fundi dóms- og innanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna. Þar voru rædd mál og teknar ákvarðanir er varða undirbúning að aðild Íslands og Noregs að Schengen-samkomulaginu. Í þessu samstarfi er mikil áhersla lögð á baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, m.a. á sviði fíkniefnasölu. Schengen samstarfið er því mjög þýðingarmikið í alþjóðabaráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum. Það skiptir miklu fyrir baráttu okkar gegn fíkniefnum að taka virkan þátt í þessu samstarfi.

Til að árangur náist í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum þarf margt að koma til. Ég tel þó tvennt vega þyngra en annað:
· Annars vegar að draga úr magni ólöglegra fíkniefna í umferð. Til þess þarf öfluga tollgæslu og löggæslu. · Hins vegar að styðja svo við bakið á unglingunum okkar að þeir hafi kjark, kraft og þor til að segja NEI þegar fíkniefni eru annars vegar. Til þess þurfa foreldrar að vera meðvitaðir um mikilvægi uppeldis og uppeldisaðferða, samveru við börnin sín og heilbrigt æskulýðs- og tómstundastarf þarf að vera öflugt og kraftmikið.

Um þessar mundir eru þrjú ár síðan ríkisstjórn Davíðs Oddssonar setti fram víðtæka stefnumörkun í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum, síðla árs 1996, fyrst ríkisstjórna hér á landi. Stefnumörkunin er einbeitt og markviss og hún leggur til grundvallar þá þætti sem líklegastir eru til að skila mestum árangri í baráttunni gegn fíkniefnum. Jafnframt eru með þessari stefnumörkun lagðar skyldur á herðar þeim ráðherrum og ráðuneytum sem forvarnir á sviði fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvarna heyra undir. Auknum fjármunum hefur verið beint til fíkniefnavarna og munar þar mestu um meira fé til tollgæslu og löggæslu.

Frá því ég tók við embætti dómsmálráðherra hef ég lagt ríka áherslu á baráttuna gegn fíkniefnavandanum. Ég hef einnig boðað nýjar áherslur. Ég legg mikla áherslu á eflingu grenndarlöggæslu sem felur í sér nánari tengsl og samstarf lögreglu og hins almenna borgara. Ef lögreglan verður sýnilegri í hverfunum, og nálæg almenningi í daglegu amstri skapast traust sem aldrei verður ofmetið. Víða sjáum við árangurinn af slíkum áherslum í starfi lögreglunnar, ekki síst þar sem lögreglan leggur rækt við skólana með fræðslu og umræðum og skapar þannig persónuleg tengsl og traust við unga fólkið og foreldra þess. Slíkt starf er ekki einungis löggæsla í hefðbundinni merkingu þess orðs heldur einnig forvarnarstarf.

Þau stjórnvöld sem fara með löggæslu og tollgæslu hafa að undanförnu unnið með markvissum hætti að því að draga úr magni fíkniefna í umferð. Auknu fé til þessara málaflokka hefur verið varið til að fjölga stöðugildum og bæta tækjakost. Samvinna löggæslu og tollgæslu hefur jafnframt verið aukin og á sl. vori gerðu ríkislögreglustjóri og ríkistollstjóri með sér sérstakan samstarfssamning. Ég veit að sá árangur í stórum málum, sem náðst hefur á undanförnum vikum og skilmerkilega hefur verið getið í fjölmiðlum er afrakstur af þessu samstarfi og aukinnar áherslu yfirvalda á þennan málaflokk. Frekari árangur þessa mikilvæga starfs á örugglega eftir að verða almenningi enn betur ljós.

Með sama hætti og löggæsla og tollgæsla leika lykilhlutverk í að takmarka fíkniefni í umferð eru foreldrar í aðalhlutverki þegar kemur að því að hafa áhrif á afstöðu ungmenna til fíkniefna. Rannsóknir hafa sýnt, og frá þeim verður greint hér á eftir, að samvera foreldra og barna og þátttaka barna og unglinga í heilbrigðu tómstundastarfi skipta sköpum í forvörnum. Mikilvægur liður í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar var því að virkja foreldra í þessari baráttunni. Það hefur verið gert af miklum krafti í verkefninu Ísland án eiturlyfja sem ríkisstjórnin hratt af stað í tengslum við áðurnefnda stefnumörkun. Samvinna við foreldra og aðila sem tengjast tómstundastarfi ungmenna hefur verið þungamiðja í starfi Íslands án eiturlyfja.
Ég legg mikla áherslu á að efla rannsóknir og byggja aðgerðir á þessu sviði á traustum rannsóknarniðurstöðum. Ég hef ákveðið að láta framkvæma sérstaka rannsókn sem taki til afbrota- og ofbeldishegðunar ungs fólks. Þar verða ýmis atriði tekin til skoðunar: svo sem umfang og útbreiðslu ofbeldis meðal íslenskra unglinga, greining á tengslum ofbeldis við félagslega skýringarþætti, og greining á tengslum ofbeldis við önnur afbrot á borð við neyslu vímuefna.

Ég leyfi mér að telja teikn á lofti um að hið öfluga foreldrasamstarf sem rekið hefur verið á síðustu árum í grunnskólum landsins og víðar sé að skila árangri. Könnun sl. vor á neyslu 10. bekkinga í grunnskóla á ýmsum fíkniefnum, löglegum sem ólöglegum, sýndi í fyrsta sinn í mörg ár samdrátt í neyslu þessara efna.

En þó slíkar niðurstöður kunni að benda til að árangur sé að nást getum við ekki dregið úr kraftinum í þessari baráttu því henni lýkur aldrei. Þvert á móti þurfum við að efla sóknina. Í þeirri sókn þarf ríkisstjórnin að sýna samstillta forystu og marka leiðina.

Góðir ráðstefnugestir.

Við þurfum að herða baráttuna gegn fíkniefnum og beita í þeirri baráttu öllum tiltækum ráðum. Í þeirri baráttu þarf samstillt átak allra sem að þessum málum koma, ekki eingöngu stjórnvalda, löggæslu og tollgæslu, heldur alls almennings í landinu. Framundan eru árþúsundamót. Látum það verða eitt af aldamótaheitum þjóðarinnar að blása til enn öflugri sóknar í baráttunni gegn fíkniefnum. Strengjum þess heit að gera enn betur á nýrri öld í þessari baráttu, baráttu sem hefur það meginmarkmið að vernda börnin okkar, framtíð Íslands, gegn fíkniefnum.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta