Kynning á jarðskjálftakveri
Kynning á jarðskjálftakveri, 25.01.00
Ræða dómsmálaráðherra í Selásskóla
Góðir gestir.
Ísland er land óblíðrar náttúru. Hamfarir í náttúrunni hafa oft veitt Íslendingum þungar búsifjar og jafnvel valdið mannsskaða.
Hins vegar verðum við æ betur í stakk búinn að bregðast við þeirri vá sem stafar af náttúruhamförum. Vísindaleg þekking á viðfangsefninu tekur framförum, tækni og búnaður verður æ fullkomnari, og þekking og reynsla viðbragðsaðila er mikil.
Eitt af því sem miklivægt er að efla er forvarnarstarf af ýmsum toga, bæði fræðsla um viðbrögð og hvernig megi best búa sig fyrir hættuástand. Það var því gott og þarft framtak þegar Almannavarnir ríkisins komu á fót forvarnarsvið í október 1998, og verður hér á eftir fjallað frekar um störf þess.
En forvarnir eru vandasamt verkefni. Viðvörunarorð hitta ekki alltaf í mark, og stundum er það svo að þau skilja lítið eftir.Við sjáum þetta gerast á ótal sviðum, s.s. um tóbak og fíkniefni. Sjálfsagt muna menn enn eftir því þegar flautur almannavarna voru þeyttar einu sinni í mánuði hér í borginni. Ég er ekki viss um að margir hafi vitað hvað hvert einstakt hljóðmerki þýddi, en menn gátu að vísu flett því upp í símaskránni. Man t.d. einhver hvað hljóðmerki í hálfa mínútu þýddi? Rétta svarið er að það táknaði að hætta væri liðin hjá!
Verkefnið er vandasamt og þeim mun meira reynir á að búa forvarnir þannig úr garði að skilaboðunum sé komið skýrt til skila og boðskapurinn sitji fastur í hugum manna.
Í ljósi þessa er mér er mikil ánægja að kynna hér í dag jarðskjálftakver fyrir skólastjórnendur og starfsfólk leikskóla og grunnskóla, sem útbúið hefur verið á vegum Almannavarna ríksins í góðri samvinnu við Námsgagnastofnun og skólastjórnendur, m.a. hér í Selásskóla.
Ég vil jafnframt þakka Námsgagnastofnun fyrir þeirra hlut í tilurð jarðskjálftakversins.
Betri grein verður gerð fyrir efni kversins hér á eftir, en ég tel það skipulega fram sett, þannig að auðvelt ætti að vera að miðla efninu áfram til nemenda með árangursríkum hætti.
Ég hef á því trú að þetta kver verði til þess að starfsfólk skólanna og nemendur verði betur undirbúnir fyrir jarðskjálftavá, og átti sig betur á þvi hvernig beri að bregðast við hættunni sem skapast og eins hverju þurfi að huga að eftir jarðskjálfta.
Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka Almannavörnum ríkisins, Sólveigu Þorvaldsdóttur framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum, fyrir þetta lofsverða framtak, svo og öðrum þeim sem lögðu gott til við samningu kversins. Vísa ég þar ekki síst til þeirra skólastjórnenda og kennara sem lögðu hönd á plóginn.
Ég vil einnig þakka Hafsteini Karlssyni, skólastjóra Selásskóla fyrir að standa að þessum fundi hér í skólanum. En hann er einn þeirra skólastjórenda sem komið hafa að vinnslu kversins.
Mér er það mikil ánægja að afhenda hér fyrsta eintak kversins, fyrir hönd Almannavarna ríkisins, og vil ég biðja Halldór Sigurðsson, skólastjóra grunnskólans í Þorlákshöfn, að veita því viðtöku.
Ég hef fulla trú á því að jarðskjálftakverið komi að gagni, og efli vitund og þekkingu um þessi málefni. Ég vona að það eigi eftir að skila sér beint til nemenda og auka öryggi í skólum þar sem jarðskjálftahætta er fyrir hendi. Þá er tilganginum náð!