Ávarp dómsmálaráðherra á kristnitökuhátíð Kjalarnesprófastsdæmis í Mosfellsbæ
Kristnitökuhátíð Kjalarnesprófastsdæmis í Mosfellsbæ
5. mars 2000,
ávarp Sólveigar Pétursdóttur, kirkjumálaráðherra
Forseti Íslands,
Góðir hátíðargestir,
Við erum hér saman komin í dag til að minnast þess og fagna því að þúsund ár eru liðin síðan kristni var lögtekin á Alþingi. Á vegum Kjalarnesprófastsdæmis hafa verið skipulagðar fimm slíkar hátíðir. Sú fyrsta, sem haldin var í Garðabæ 30. janúar sl., þótti takast sérlega vel. Þessi er önnur í röðinni. Dagskráin sem fyrir liggur ber þess merki að til hennar hefur verið vandað af alúð og stórhug og jafnframt er hún fjölbreytt. Ég vil þakka þeim sem lagt hafa hönd og hug að málinu fyrir góða undirbúningsvinnu, og óska öllum viðstöddum til hamingju með daginn. Ég er sannfærð um að við eigum eftir að njóta hans hér í Mosfellsbæ, þessum blómlega og myndarlega bæ, sem hefur dafnað og vaxið við túnfót höfuðborgarinnar undanfarna áratugi.
Á þessum þúsund ára tímamótum er hollt að líta um öxl og hugleiða hvað það var sem breyttist í kjölfar kristnitökunnar, þegar heiðnum dómi var varpað fyrir róða. Það þykir hreint einsdæmi að kristni hafi verið í lög leidd af heilli þjóð svo skjótt og friðsamlega, og að ekki hafi verið reynt að sporna við hinum nýja sið með minnsta ofsa. Skýringa má meðal annars leita í því að öll lönd sem Ísland átti helst skipti við, voru orðin kristnuð árið 1000. Þá vildu menn heldur ekki að eiga neitt á hættu gagnvart Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi, sem gat verið til alls vís. M.a. hélt hann sonum nokkurra merkra Íslendinga í gíslingu í Noregi.
Trúarskiptin um árþúsundamótin árið 1000 gerðust að ýmsu leyti á vegamótum í sögu íslensku þjóðarinnar og leiddu smám saman af sér rót á lífsskoðun hetjualdarinnar og afskipti erlends kirkjuvalds um íslensk mál. Með hinum nýja sið komu lærðir menn að utan til þess að kenna undirstöðuna og innleiða siðinn og margt breyttist. Kirkjur voru reistar mjög snemma og í sögu Egils Skallagrímssonar er greint frá því að Grímur, sem var mágur Egils og bjó að Mosfelli hér í Mosfellsdalnum, hafi reist þar kirkju skömmu eftir að hann gerðist kristinn.
Þrennar orsakir leiddu öðru fremur til þess ófriðar er síðar gerðist. Fyrst skal nefna baráttu fárra og ofríkra höfðingja eða ætta um völd innanlands, í öðru lagi deilur kirkju og höfðingja og í þriðja lagi ásælni Noregskonungs. Þingheimur á Þingvöllum árið 1000 gerði sér tæpast ljóst hvað í hönd fór. Hefði Þorgeir frá Ljósavatni skýrt frá því í ræðu sinni hvaða kröfur voru gerðar um föstuhald, afskipti af hjúskaparmálum, bannfæringar og refsingar, er óvíst að trúarskiptin hefðu gerst jafn friðsamlega. Og hefði Síðu-Hall og Gissur hvíta rennt í grun hvað síðar yrði, t.d. um staðarforráð og kirkjulög, sem skyldu vera æðri landslögum, er alls óvíst hvort þeir hefðu beitt sér fyrir kristnitökunni.
Þegar á heildina er litið má leiða getum að því að rökin fyrir úrslitunum á Alþingi árið 1000 hafi m.a. byggst á stjórnmálalegum hyggindum. Með hinum nýja sið fylgdi nýr siðaboðskapur og siðmenningarstefna kaþólskrar kirkju sem mótaðist af siðaboðun kirkjunnar um alla Evrópu. Þar með var lagður grunnur að starfsemi sem leitaðist við að efla mannréttindi og mannhelgi og lagði ennfremur grundvöll að þeirri samevrópsku kaþólsku menningu, sem skapaði forsendur til varðveislu fornra mennta og þeirrar nýsköpunar í bókmenntum, listum og sagnfræði, sem hafa lifað með þjóðinni æ síðan.
Of langt mál yrði að gera kristnisögunni einhver frekari skil nú. Aldirnar hafa á undanförnum þúsund árum runnið upp og síðan runnið sitt skeið, jafnt í meðlæti sem í mótlæti. Náttúrhamfarir og óblíð náttúröfl hafa á tíðum skilið eftir stór skörð. En andstætt því sem víða hefur gerst erlendis á þessum tíma, þar sem mörg voldug ríki hafa eyðst eða misst þjóðerni sitt eða tungu feðra sinna, þá hefur íslenska þjóðin aldrei eyðst; heldur náð að rétta við eftir sérhvert andstreymi, og hefur með tíð og tíma orðið sjálfstæð og fullvalda þjóð, sem tekist hefur að varðveita menningararf sinn, sérstaklega þó hina fornu tungu.
Kristni hefur fylgt þjóðinni frá því að ljós hennar tvístraði myrki heiðninnar árið 1000 og ávallt síðan hefur hún verið samofin menningunni í landinu og þjóðlífinu, og tekið breytingum með öllum þeim ótal stefnum, kenningum og áhrifum, sem gengið hafa yfir. Mesta breytingin varð þó þegar siðbót Lúthers þurfti til að komast út úr þeirri villu og vanþekkingu, sem varð þegar myrkur miðalda ætlaði að slökkva hið andlega ljós og líf hér á landi sem víða annars staðar.
Enn ein kynslóð er að vaxa úr grasi sem mun halda merki kristni áfram á lofti. Það vill svo til að æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar er haldinn í dag. Því er sérstakt fagnaðarefni hve æska Kjalarnesprófastsdæmis tekur ríkulegan þátt í hátiðinni í dag. Ekki aðeins í menningardagskránni, þar sem nefna má myndlist, tónlist og sönglist, heldur líka í guðsþjónustunni hér á eftir, þar sem börn úr leikskólum prófastsdæmisins fá að spreyta sig með hátíðarkór og leggja sitt að mörkum til hátíðarinnar. Ég vænti þess að hátíðin verði börnunum eftirminnileg í minningunni þegar fram líða stundir, og að þau skynji á hvern hátt þessi hátíð skpar tengsl við fortíðina annars vegar og og horfir hins vegar yfir í framtíðina.
Að lokum ítreka ég árnaðaróskir mínar með kristnihátíðina hér í dag og vona að allt gangi að óskum með guðs blessun.