Ávarp kirkjumálaráðherra á Útskálahátíð
Minningarathöfn um sr. Sigurð Br. Sívertsen,
sem þjónaði Útskálaprestakalli í 50 ár (1837-1887)
Góðir samkomugestir,
Mér er það mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag og taka þátt í þessari hátíðardagskrá sem er liður í heildarhátíðarhöldum á yfirstandandi ári til að minnast þess að kristni var lögtekin á Alþingi fyrir 1000 árum. Hér í þessum fornfrægu sóknum – Útskálum og Hvalsnesi – hefur um aldaraðir búið einstaklega dugmikið fólk, sem lagði hart að sér, ekki aðeins til að ala önn fyrir sér og sínum – heldur líka til að rækta og skapa betra mannlíf. Með tímanum hafa risið hér upp myndarlegir og blómlegir bæir, bæði Sandgerði og Garðurinn, og byggðirnar bera þess rækan vott að hér er gott og þróttmikið mannlíf, og íbúarnir eiga þakkir skildar fyrir sinn þátt í að skapa það velferðarþjóðfélag sem við búum við á Íslandi í dag.
Það leið ekki á löngu eftir að kristni var lögtekin á Alþingi fyrir 1000 árum, að menn hófust handa um að reisa kirkjur til að iðka trú sína. Kirkjan varð athvarf kristinna manna. Í kirkjunum hafa jafnan starfað prestar, en hlutverk þeirra hefur einkum verið að hafa áhrif á framferði og breytni manna. Það gerði presturinn með því að leggja út af texta hinnar helgu bókar og útskýra og túlka fyrir söfnuðinum boðskap heilagrar ritningar. Miklu skipti að boðskapur kirkjunnar tæki mið af tíðarandanum hverju sinni, og varðaði veginn í siðferðilegum efnum. Lengstum sóttu sóknarbörn messur af mikilli kirkjurækni, enda var lögð kirkjurefsing við því í kaþólskum sið, ef út af var brugðið. Með tíð og tíma hefur þetta breyst, og tíðarandinn er allt annar en þá var. Helgidagalöggjöfinni var síðast breytt fyrir nokkrum árum, og nú tekur hún eðlilegt mið afþreyingarþörf landsmanna, sem gjarnan vilja nota sunnudaga til íþrótta og útivistar svo nokkuð sé nefnt. Kirkjan hefur líka reynt að laga sig að þessari breytingu, t.d. fært guðsþjónustur út í skíðabrekkurnar. Hlutverk kirkjunnar er nú að ýmsu leyti annað en fyrr á tíð – þótt kjarninn, boðun fagnaðarerindisins, sé enn hinn sami og fyrr. Kirkjan hefur með tímanum misst eignir og völd, og margir halda því fram að áhrif hennar hafi dvínað. En á sviði mennta og menningar hefur hún sannarlega verið þjóðinni uppspretta og aflgjafi og fyrir þann þátt helst merki hennar hátt á lofti. Því á sama tíma og aðrar voldugar þjóðir liðuðust í sundur, töpuðu sjálfstæði sínu og misstu tungu feðra sinna, hafa Íslendingar verið svo lánsamir að þjóðin hefur aldrei eyðst, heldur náð að rétta við eftir sérhvert andstreymi, og hefur með tímanum orðið sjálfstæð og fullvalda þjóð, sem tekist hefur að varðveita menningararf sinn, sérstaklega þó hina fornu tungu. Kirkjan og kristin trú hafa átt afar stóran hlut í þeirri varðveislu.
Fróðlegt er að skoða hvernig trúar- og kirkjulífi var háttað hjá sjósóknurunum í byggðunum við sunnanverðan Faxaflóa á dögum Sigurðar B. Sívertsen sem hér er minnst í dag. Af harðbýlinu leiddi að fólkið hafði mikla trúarþörf og það rækti sína trú dyggilega.
Sjóferðabæn var ávallt ómisssandi þáttur, áður en lagt var í róður.
Á heimilunum voru kvöldlestrar tíðkaðir. Nokkuð var misjafnt hvaða guðsorð voru lesin, en víða var Vídalínspostilla í höfuðsæti. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar voru víðast ómissandi, en þeir voru lesnir á föstunni. Þá voru ennfremur lesnar hugvekjur. Kvöldbænir voru ávallt lesnar og sálmar jafnan sungnir.
Þrátt fyrir veraldlega fátækt bjó það iðulega yfir miklum andlegum auði og styrk, sem það sótti ekki hvað minnst í kristna trú. Fólkið bar sig að, eins og segir í sálmi þjóðskáldsins Matthíasar Jochumsonar ( Við freistingum gæt þín . . . nr. 124), það hafði Jesú ætíð í verki með sér. Þannig dugði guðsorðið sem veganesti fyrir íslensku þjóðina til að þrauka gegnum aldirnar, jafnt í meðbyr sem mótbyr. Við getum því af heilum huga fagnað því að þúsund ár eru liðin frá því að kristni var lögtekin á Íslandi og mun þess verða minnst víða um land með margvíslegum hætti.
Þáttur séra Sigurðar B. Sívertsen sem gegndi prestsstörfum á Útskálum og Suðurnesjum um hálfrar aldar skeið á öldinni sem leið, er skemmtilegt minningarbrot af þúsund ára sögu kristni í landinu, sem fullt tilefni er að halda í minningunni, eins og gert hefur verið hér í dag með ánægjulegum og eftirminnilegum hætti.