Ávarp dómsmálaráðherra við undirritun samnings um íslensku alþjóðabjörgunarsveitina 24. mars 2000
Undirritun samnings um íslensku alþjóðabjörgunarsveitina,
ávarp dómsmálaráðherra 24. mars 2000
Undirritun samningsins um íslensku alþjóðabjörgunarsveitina hér í dag finnst mér stórmerkur áfangi í sögu íslenskra björgunarsamtaka, sem ber að fagna sérstaklega. Það er mjög ánægjulegt að Slysavarnarfélagið Landsbjörg skuli nú í samvinnu við íslensk stjórnvöld taka með skipulögðum og markvissum hætti gerast þátttakandi í alþjóðlegu hjálpar- og björgunarstarfi.
Björgunarsveitirnar hafa á yfirstandandi vetri sýnt hvers þær eru megnugar, með því að hafa margoft, og við mjög erfiðar aðstæður, ekki hikað við að leggja eignir og líf að veði til að bjarga mannslífum í þeim veðraham sem dunið hefur yfir landið. Björgunarsveitarmenn eiga miklar þakkir skildar fyrir fórnfýsi sína, dug og djörfung og náungakærleikann sem í þeim býr.
Íslenskir björgunarsveitarmenn hafa þannig sýnt að þeir eru fyllilega jafnokar erlendra björgunarsveitarmanna og hafa margt fram að færa sem komið getur öðrum þjóðum að miklu gagni. Ég er sannfærð um að þátttaka íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar í alþjóðlegu björgunarstarfi mun verða mikilsverð lyftistöng fyrir Slysavarnarvarfélagið Landsbjörgu, ásamt því að stuðla að björgun mannslífa víðs vegar í heiminim.
Ég vil að lokum þakka fyrir farsælt samstarf og ítreka árnaðaróskir mínar til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og óska liðsmönnum íslensku alþjóðlegabjörgunarsveitarinnar guðsblessunar og heilla í störfum sínum í framtíðinni.