Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. apríl 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp kirkjumálaráðherra á kristnihátíð í Reykjanesbæ

Kristnihátíð í Reykjanesbæ 2. apríl 2000 , ávarp ráðherra



Forseti Íslands,
Ágætu hátíðargestir,

Mér er það mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag og taka þátt í þessari hátíðardagskrá, sem er liður í heildarhátíðarhöldum til þess að minnast þess að kristni var lögtekin á Alþingi fyrir 1000 árum. Í aldaraðir hefur búið hér á Suðurnesjum einstaklega dugmikið fólk sem lagði hart að sér, ekki aðeins til að ala önn fyrir sér og sínum, heldur líka til að rækta og skapa betra mannlíf. Með tímanum tók byggðin að þéttast og í dag eru hér á Reykjanesskaganum bæði myndarlegir og blómlegir bæir, sem bera þess rækan vott að hér er gott og þróttmikið mannlíf. Íbúarnir eiga þakkir skildar fyrir sinn þátt í að skapa það velferðarþjóðfélag, sem við búum við á Íslandi í dag.

Kristnitakan á Íslandi var einstök í sinni röð. Þá sneri heilt samfélag baki við hefðbundnum átrúnaði sínum, norrænni heiðni, og gekk kristni á hönd. Þetta gerðist án verulegs aðdraganda og kristinni trú var að mestu tekið friðsamlega af landsmönnum og án verulega undangenginna átaka. Til að tryggja friðsamlegan framgang hinnnar nýju trúar var heiðnum mönnum gefinn nokkur umþóttunartími, þannig að þeir sem fastheldnastir voru á hinn gamla sið fengu aðlögunartíma, eins og nú er sagt.

Við mat á kristnitökunni er nauðsynlegt að hafa í huga að kristnitakan hafði áhrif á flesta þætti íslenskrar menningar og samfélag. Með tilkomu kirkju og kristni opnaðist Íslendingum sýn allt suður til Rómar og annarra miðstöðva kristinnar Evrópumenningar. Þaðan veittu þeir síðan viðtöku nýjum hugmyndum, viðhorfum, siðum og venjum. Kirkjur voru byggðar vítt og breitt um landið og ritöld hófst, en með henni styrktu landsmenn samstöðu sína innbyrðis og innri uppbyggingu samfélagsins.

Þjóðkirkjan sá samfélaginu fyrir grundvallargildum og viðmiðun í siðferðilegum efnum og reyndi að hafa áhrif á framferði og breytni manna. Á meðan kirkjurækni var mikil og fólkið sótti almennt kirkjur, heyrði það boðskap kirkjunnar með túlkun og útlistun á heilagri ritningu. Kirkjan er í eðli sín nokkuð svifasein, og þarf því stöðugt að laga sig að tíðarandanum. Hún hefur með tímanum misst eignir og völd, og margir halda því fram að áhrif hennar hafi dvínað. En á sviði mennta og menningar hefur hún verið þjóðinni uppspretta og aflgjafi. Og fyrir þann þátt helst merki hennar hátt á lofti.

Á sama tíma og aðrar voldugar þjóðir liðuðust í sundur, glötuðu sjálfstæði sínu og misstu tungu feðra sinna, hafa Íslendingar verið svo lánsamir að þjóðin hefur aldrei eyðst, heldur náð að rétta sig við eftir sérhvert andstreymi, og hefur með tímanum orðið sjálfstæð og fullvalda þjóð, sem tekist hefur að varðveita menningararf sinn, sérstaklega þó hina fornu tungu. Kristni og kristin trú hafa átt afar stóran hluta í þeirri varðveislu.

Þótt Íslendingar hafi lengstum búið við veraldlega fátækt, þar á meðal sjósóknararnir á Suðurnesjum sem sóttu sjóinn fast, þá bjuggu þeir iðulega yfir miklum andlegum auði og styrk, sem þeir sóttu ekki hvað minnst í kristna trú. Guðsorðið dugði vel sem veganesti fyrir íslensku þjóðina til að þrauka gegnum aldirnar, jafnt í meðbyr sem í mótbyr. Því getum við af heilum huga fagnað þúsund ára samfylgd þjóðar og kristni á Íslandi.

Íslensk þjóðmenning er samsett úr mörgum þáttum, og einn þeirra er svæðisbundin menning einstakra héraða. Þetta er mikilvægur þáttur í menningu hverrar þjóðar. Sem dæmi um slíkt má nefna að á undanförnum áratugum hafa tónlistarmenn af Suðurnesjum verið í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna. Það er því mjög ánægjulegt að sjá hversu ríkulega hefur verið sótt í tónlistarbrunninn við dagskrárgerðina. Hin fjölmörgu tónlistaratriði sem sett hafa verið á dagskrána, bera öflugu tónlistarlífi vitni, og eru hvert öðru áhugaverðara.

Að lokum þakka ég Kjalarnesprófastdæmi og kristnihátíðarnefndinni fyrir undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar, svo og þeim fjölmörgu, sem lagt hafa á sig mikla vinnu til að gera hátíðina jafn ánægjulega og eftirminnilega og raun ber vitni. Einstaklega ánægjulegt er að sjá hversu stórt framlag barnanna er í hátíðahöldunum.

Ég óska ykkur til hamingju með þessa glæsilegu hátíð og vænti þess að þið eigið eftir að njóta hennar.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta