Ávarp dómsmálaráðherra á borgarafundi á Akureyri þann
Ávarp dómsmálaráðherra á borgarafundi á Akureyri þann 11. apríl 2000
Fundarstjóri,
ágætu gestir.
Mér er mikill heiður að vera hér með ykkur í kvöld og ræða málefni kvöldsins. Aðstandendur þessa fundar eiga hrós skilið, en það er grundvallaratriði eigi árangur að nást í baráttunni við vímuefnin að menn taki höndum saman og ræði málin frá sem flestum hliðum.
Ég átti einmitt mjög góðan fund hér í hádeginu með aðilum sem koma að þessum fundi hér, Sýslumanninum o. fl. og var hann mjög árangursríkur að mínu mati.
Í dag hef ég kynnt mér aðstöðu og starfsemi Sýslumannsembættisins, Fangelsisins og dómstólsins hér í ykkar fallega bæ, en mikið og gott starf á er unnið hjá þessum embættum. Akureyri hefur til þessa ekki haft það orð á sér að áfengis- og vímuefnanotkun séu sérstakt áhyggjuefni, þvert á móti er bærinn mjög tengdur öflugu æskulýðs- og skólastarfi í hugum landsmanna, og þekkt sem vinalegt og gróskumikið samfélag. Án efa þarf hins vegar hafa fyrir því að svo verði áfram í raun, en í því augnamiði eru fundur af þessum toga einmitt afar mikilvægur.
Ýmsum spurningum hefur verið varpað fram sem ræðumenn munu án efa leitast við að svara. Ég vil setja fram nokkur atriði sem ég legg áherslu á.
Frá því að ég tók við starfi dómsmálaráðherra hafa löggæslumálin verið eitt af mínum helstu áherslumálum. Bætt og efld löggæsla, ekki síst í baráttunni við fíkniefnin, hefur verið sérstakt stefnumál mitt og ríkisstjórnarinnar allrar. Á undanförnum árunum hefur gríðarlegt átak verið gert í löggæslumálum, og einkanlega lagðir miklir fjármunir til þess að berjast gegn fíkniefnum. Á þessu ári var fjárveiting til löggæslunnar í þessu skyni hækkuð um 50 milljónir króna og um 25 milljónir króna til tollgæslunnar til þess að auka við mannskap og bæta tækjakost. Menn eru líka að átta sig á því að lögreglan í landinu verður að vinna sem ein heild þegar kemur að brotastarfsemi sem starfar með öllu óháð umdæmamörkum lögreglustjóra í landinu og reyndar óháð landamærum milli ríkja.
Á sama tíma og yfirvöld hafa hert tökin í baráttunni, hefur vandamálið orðið æ erfiðar við að eiga. Fíkniefnasala er umfangsmikil og vel skipulögð, og án nokkurs vafa rekin í samstarfi við erlend glæpasamtök. Sú breyting hefur í raun átt sér stað að upp hefur sprottið ný stétt manna sem hefur atvinnu af þessari iðju – en eru ekki endilega í neyslu sjálfir eins áður var algengara.
Við verðum einnig að líta til þess að fíkniefnavandinn er öðrum þræði alþjóðlegt vandamál og því verður að efla samvinnu við erlend ríki í því augnamiði að ná betri tökum á vandanum. SCHENGEN-samningurinn hefur verið til umfjöllunar í þinginu og að mínu mati ekki hlotið verðskuldaða athygli, en þar er um stórmál að ræða. Ég tel að SCHENGEN samninginn megi með réttu nefna ,,hinn nýja varnarsamning Íslands", en SCHENGEN-samstarfið miðar ekki síst að því að treysta samvinnu lögreglu landanna, m.a. með skilvirkri miðlun upplýsinga sem koma að notum við rannsókn sakamála og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn brotastarfsemi.
Stefnt er að því að Akureyrarflugvöllur geti gegnt hlutverki sem alþjóðaflugvöllur samkvæmt Schengen-samstarfinu. Ljóst er, að til að hægt verði að fullnægja þeim kröfum sem samkomulagið leggur okkur á herðar hvað snertir vegabréfaskoðun og persónueftirlit, þarf að endurhanna flugstöðina með tilliti til þessa. Drög að teikningum liggja þegar fyrir og ráðist verður í framkvæmdir innan skamms. Mun vegabréfaeftirlitið verða markvissara, og er langtímamarkmiðið jafnframt að efla tollgæsluna verulega.
Verulegur árangur hefur hins vegar náðst á liðnum misserum í fíkniefnmálum, eins og landsmönnum er kunnugt um, því fjölmiðlar hafa gert uppljóstrun afar viðamikilla mála góð skil. Nefna má ýmis atriði sem stuðla að þessum árangri:
· Meiri samvinna hefur verið milli lögregluliðanna.
· Betri yfirsýn en áður yfir fíkniefnavandann, brotamenn og hvaða aðgerðir lögreglan hefur í frammi í hinum ýmsu umdæmum.
· Vinnubrögð eru orðin faglegri og þjálfun lögreglumanna í afskiptum af fíkniefnamálum er almennt orðin mjög góð.
· Langtímarannsóknir eru orðnar hnitmiðaðri og betur hefur náðst til þeirra sem standa aða baki innflutningi fíkniefna.
· Aðkoma efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans hefur leitt til enn betri árangurs og þar er orðin til rannsóknarreynsla, sem er ákaflega mikilvæg. Með þessu er farið að ná ávinningnum af fíkniefnabrotunum úr höndum brotamanna, en gróðavonin er jú eins og menn vita hvati brotanna.
- Fíkniefnastofa ríkislögreglustjórans hefur byggt upp tengsl við embættin, veitt aðstoð og þjálfun og aflað upplýsinga til uppbyggingar fíkniefnalöggæslunni. En hér er einmitt staddur með okkur Guðmundur Guðjónsson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra sem hefur yfirumsjón með fíkniefnastofunni. Hann mun fylgjast með umræðunum hér í kvöld og þeim ábendingum sem fram koma.
Lögreglan á Akureyri hefur að undanförnu aukið virkt fíkniefnaeftirlit bæði með meiri þátttöku almennra lögreglumanna í afskiptum og eins með tilkomu sérstaks starfsmanns sem sinnir þessum málaflokki sérstaklega. Þetta hefur m.a. skilað sér í því að meira hefur verið haldlagt af fíkniefnum en áður og handtökum hefur fjölgað verulega. Daníel Snorrason lögreglumaður mun án efa fjalla ítarlega um þróun fíkniefnalöggæslunnar hér á Akureyri, en sem dæmi um hina miklu virkni í fíkniefnalöggæslunni má nefna að milli áranna 1998 og 1999 fjölgaði handtökum um 100%.
Það veldur vissulega áhyggjum hversu mikið magn fíkniefna er komið í umferð hér á Akureyri, og það er alveg ljóst að þegar litið er á síðasta ár að framboðið er mikið – en þá voru handtökur alls 178. Harðari efni eru líka komin í umferð, árið 1998 voru kannabis-efni og amfetamín aðalefnin, en á síðasta ári hafa einnig komið til E-pillan og kókaín.
Meðal annars má skýra þessa miklu aukningu með því að lögreglan hefur unnið markvisst í því að taka á fíkniefnamálunum, og hefur staðið sig afar vel að mínu mati. Mikið samstarf er milli lögreglunnar hér og embættis Ríkislögreglustjóra, m.a. þannig að tryggður er aðgangur að fíkniefnaleitarhundum, þegar á þarf að halda.
Góður árangur hefur því náðst í ýmsum tilliti, en það eru mikil verkefni fyrir höndum og brýn þörf fyrir að skerpa baráttuna enn frekar.
Ég legg mikla áherslu á eflingu grenndarlöggæslu, sem er byggð á sýn um samstarf og samstillt átak í samfélaginu. Ég hef sérstakan áhuga á því að efla samvinnu lögreglu, foreldra, skóla og félagasamtaka um forvarnir og málefni ungs fólks.
Með grenndarlöggæslu og auknum tengslum borgara og lögreglu aukast líkur á því að borgarar veiti lögreglu upplýsingar um brotastarfsemi. Þannig geta lögreglumenn leitast við að grípa inn í áður en vandamálin verða illviðráðanleg. Þekking lögreglumanna á hverfinu eða bæjarfélaginu, íbúum þess og ekki síst traust íbúa til lögreglumannsins leiðir því til þess að lögreglan fær oft mun betri upplýsingar um ýmsa brotastarfsemi og á auðveldara með að vinna úr þeim upplýsingum í ljósi fyrri reynslu og þekkingar. Traust milli unglinga og lögreglu hefur einnig áhrif á viðhorf unglinganna til laga og réttar, og sýnir að lögreglan vinnur með þeim, en ekki gegn þeim. Þetta traust skapast t.d. með starfi lögreglumanna í skólunum, í félagsmiðstöðvunum – og í raun hvar sem unglingarnir halda sig.
Samtvinnun hefðbundinnar löggæslu og hverfislöggæslu, og efling grenndarlöggæslu hefur sannað sig og sýnt að hún er líkleg til árangurs. Þar sem lögreglan hefur lagt rækt við forvarnarstarf, tekið þátt í fræðslu í skólunum, verið í sambandi við Félagsþjónustuna, stofnanir og fyrirtæki á svæðinu og kynnt sér aðstæður og vandamál sem upp hafa komið innan svæðisins lætur árangurinn ekki á sér standa .
Ég vil því fagna því sérstaklega að lögreglan hér á Akureyri starfar að meginstefnu á grenndargrunni, enda er nálægðin við borgarana mikil.
Mér er enn fremur ánægja að geta sagt frá því hér að ég hef, í samráði við sýslumanninn á Akureyri, o.fl. unnið að því að komið verði á laggirnar tímabundnu átaksverkefni með starfi forvarnarfulltrúa hjá embætti sýslumannsins á Akureyri. Stefnt er að því að ráða í hálfa til heila stöðu í átaki til þess að efla forvarnir í bænum. Sá sem gegnir slíku starfi þarf að hafa góð tengsl við grunnskólanemendur, íþróttahreyfinguna og kirkjuna, og starfa í nánu samráði við lögregluna og hafa framangreindir aðilar átt mikilvægt frumkvæði að þessu máli. Mál þetta hefur átt sér nokkurn aðdraganda, og er rétt að nefna ræðu Jóhannesar Bjarnasonar íþróttakennara í Akureyrarkirkju í maí 1999, sem hreyfði mjög við mönnum og varð til þess að Svavar A. Jónsson sóknarprestur, Stefán Gunnlaugsson forystumaður í KA og Tóma Ingi Olrich alþingismaður settu fram þessa hugmynd.
Hlutverk forvarnarfulltrúa yrði í fyrstu að móta hugmyndir um farveg fyrir þetta samstarf og helstu leiðir til að virkja sem best æskulýðsstarf Knattspyrnufélagsins og kirkjunnar í þágu baráttunnar gegn fíkniefnum. Mikill áhugi er á því innan Knattspyrnufélags Akureyrar, sem rekur öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf, og Akureyrarkirkju, sem leggur vaxandi áherslu á uppeldis- og æskulýðsstarf, að leggja sitt af mörkum til þess að efla forvarnarstarf gegn fíkniefnavandanum. Kirkjan og íþróttafélög geta án efa með sameiginlegu átaki unnið að því að efla sjálfsmynd og sjálfstraust einstaklinga innan áhættuhópa og styrkja forvarnarstarf til hjálpar þeim sem veikastir eru fyrir af samfélagsástæðum.
Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt tillögu mína um að leggja fram hálfa milljón króna til þessa verkefnis og dómsmálaráðuneytið mun leggja fram sambærilega fjárhæð. Ég vænti þess jafnframt að Forvarnarsjóður Áfengis- og vímuvarnarráðs muni fallast á beiðni um að styrkja verkefnið. Hér yrði um að ræða tímabundið átaksverkefni, utan hefðbundins fjárlagaramma, sem tekið yrði út að ákveðnum tíma liðnum og árangurinn metinn.
Verkefni slíks forvarnarfulltrúa yrði ekki síst að efla samstarf meðal allra hlutaðeigandi, eins og áður sagði, honum er ætlað að stuðla að samtilltu átaki og starfa í anda grenndargæslu-hugmyndafræðinnar.
Forvarnir gegn neyslu ólöglegra vímuefna eru af sama meiði og forvarnir gegn unglingadrykkju. Þeim verður að beita með svipuðum hætti, og beinast gegn sömu þáttum; með því að styrkja eftirlit yfirvalda og bæta félagslegt umhverfi ungmenna.
Vitaskuld er verið að vinna í þessum málum. t.d. liggja fyrir Alþingi frumvörp um breytingar á lögum um Atvinnuréttindi útlendinga, þ. á m. um dansmeyjar og breytingar á lögum um Veitinga- og gististaði. Enn fremur er í tengslum við þessar breytingar hafin vinna við nýjar reglugerðir í dómsmálaráðuneytinu. Það skiptir auðvitað miklu máli að sveitarstjórnir geti haft sem mest áhrif á umhverfi sitt í þessu sambandi . Þar að auki hefur verið starfandi nefnd á vegum dómsmálaráðherra og Ríkislögreglustjóra um áfengisauglýsingar, og önnur nefnd á vegum dómsmálaráðuneytsins um áfengiskaupaaldur sem mun vætanlega skila tillögum sínum innan skamms. Þá er ljóst að beina verður meiri athygli að gerð lögreglusamþykkta og samræmingu á þeim vettvangi.
Veruleg ábyrgð hvílir á stjórnvöldum, en málið varðar svo sannarlega fleiri. Fjölskyldan, skólinn, og félagsstarfið gegna veigamiklu hlutverki í að halda utan um lífstíl ungmenna og brynja þau fyrir þeim straumum menningar og lífsstíls sem taldir eru óæskilegir. Á undanförnum árum hafa menn vaknað æ meira til vitundar um mikilvægi þess að horfa á málefni ungs fólks, sérstaklega vímuefnaneyslu, í samhengi við aðra þætti í lífi þess. Þeir þættir sem mynda félagslegt umhverfi ungmenna, svo sem staðbundin menning þeirra og lífsstíll og tengsl ungmenna við hinar ýmsu stofnanir samfélagsins, s.s. fjölskyldu og skólann eru hvað mikilvægastir í uppeldislegu tilliti. Það er gömul saga og ný að félagslegt umhverfi ungmenna hefur mikil áhrif á það hvernig þeim farnast í lífinu; hvernig þau hugsa og hvernig þau hegða sér.
Tengsl foreldra og barna eru lykilatriði og verður mikilvægi góðra samverustunda þeirra seint vanmetið. Sjálfsagt er þar um ræða einna mikilvægustu forvörnina sem sem hugsast getur fyrir ungmenni.
Ég vil óska Akureyringum til hamingju með þennan borgarafund hér í kvöld – frumkvæði af þessum toga vegur þungt, því hér er einmitt unnið á þeim grundvelli sem öllu skiptir.
Fíkniefnaneysla veldur vaxandi áhyggjum meðal fólks hér á landi, og það hlýtur því að vera sameiginlegt markmið okkar allra að ná árangri á þessu sviði og snúa þróuninni til betri vegar. Við náum árangri með því að stilla saman strengi okkar og framkvæma í sameiningu. Samvinna og samhugur munu ríða baggamuninn, og færa okkur nær takmarkinu. – Framtíðin er björt ef við öxlum ábyrgðina og setjum markið hátt.