Ávarp dómsmálaráðherra á umferðarráðstefnunni
Bætt umferðarmenning.
Ráðstefnustjóri,
hæstvirtur samgönguráðherra,
þingmenn,
góðir gestir.
Sú var tíð að Íslendingar að sóttu lífsbjörgina í greipar hafsins við frumstæðar og hættulegar aðstæður. Mannfórnir voru óhjákvæmilegur fylgifiskur þeirrar hörðu lífsbaráttu, sem háð var með lélegum tækjum. En tímarnir hafa breyst og sjósóknin er ekki sama hættuspil og áður var. En samt hefur mannfórnum þjóðarinnar ekki linnt.
Síðustu tíu árin hefur að meðaltali um tuttugu manns látist árlega í umferðinni, eða rúmlega 200 manns. Góðir gestir – það eru litlu færri en hér sitja í salnum í dag.
Eru þetta óhjákvæmilegar fórnir í nútíma samfélagi, rétt eins við sjósóknina forðum daga? Eða fáum við rönd við reist?
Hér í dag höldum við ráðstefnu og höfum fengið til okkar forystumenn, á sviðum sem tengjast umferðaröryggi, til þess að fjalla um aðgerðir í þágu betri betri og öruggari umferðar.
Ég hef þá bjargföstu trú að þetta samfélagsmein megi lækna – við getum og eigum að færa stöðu umferðarmála í heillavænlegra horf. Til þess þurfum við efla eftirlit og löggæslu, breyta löggjöf og auka markvisst samvinnu allra þeirra sem að umferðarmálum koma. Samstillt átak allra landsmanna er það sem við þurfum.
Mikilvægast er að þjóðarvakning eigi sér stað, því umferðarmenning á Íslandi er ekki til sóma. Við ökum of hratt, gefum hvorki né virðum stefnumerki, allt of margir leyfa sér að aka undir áhrifum áfengis eða nota ekki bílbelti – svo dæmi séu nefnd um alvarlega ósiði í umferðinni. Við verðum að hafa í huga að umferðaröryggi ræðst auðvitað fyrst og síðast af því hvernig við sem ökum um götur og vegi landsins hegðum okkur. Það er lagaleg og siðferðileg skylda okkar að hegða okkur með þeim hætti að við setjum ekki eignir, heilsu og líf sjálfra okkar og annarra í hættu.
Frá árinu 1996 hefur verið starfað eftir umferðaröryggisáætlun sem ljúka á í lok þessa árs og skv. henni hefur staða umferðaröryggismála verið kynnt Alþingi á hverju ári tímabilsins þar sem fram hefur komið hvernig áætluninni miði í átt að settu marki. Þessu starfi verður haldið áfram og enn gert markvissara. Í samræmi við áætlunina hefur ýmsu verið hrint í framkvæmd; Rannsóknanefnd umferðaslysa hefur verið komið á fót, unnið er að samræmdri slysaskráningu, lækkun vörugjalda af bifreiðum hefur stuðlað að öruggari ökutækjum, ný námskrá um ökunám hefur tekið gildi, og punktakerfi komið á fót – svo nokkur mikilvæg dæmi séu nefnd.
Enn er lagt af stað með metnaðarfullan verkefnalista. Stefnt er að markvissri forgangsröðun umferðaröyggisverkefna, einföldun og eflingu sektarinnheimtu, fjölgun öndunarsýnamæla og betri tækjakosti lögreglu, eflingu umferðardeildar ríkislögreglustjóra og þjóðvegaeftirlits, svo sem fram kemur í skýrslu dómsmálaráðherra um stöðu umferðaröryggismála árið 2000, sem tekin hefur verið til umfjöllunar í ríkisstjórn, kynnt verður Alþingi og dreift hefur verið hér á ráðstefnunni.
Alþingi ályktaði 1996 að alvarlegum slysum og banaslysum í umferðinni skuli fækka fyrir árslok 2000 þannig að þau verði færri en 200 á ári í lok tímabilsins. Þrátt fyrir þetta markmið, er það aðeins áfangi að þeirri framtíðarsýn, að enginn láti lífið í umferðinni eða slasist alvarlega. Til að það takmark náist þarf nýja sýn og nýjar baráttuaðferðir og aðilar sem að umferðaröryggismálum koma þurfa að samræma störf sín og vinna markvissara að sameiginlegum verkefnum og markmiðum.
Nýja umferðaröryggisáætlun þarf að semja fyrir næstu fjögur ár (2001 – 2005) fyrir lok ársins. Einnig þarf að gera áætlun til lengri tíma, t.d. 12 ára í samræmi og með hliðsjón af vegaáætlun. Hún feli í sér bæði markmiðssetningu og framkvæmdaáætlun. Verkefnum verði forgangsraðað á grundvelli mats á því hvernig fjármunir nýtist best til að sporna gegn umferðarslysum. Bretar kynntu nýlega slíka stefnu, og mun Kate McMahon fjalla um þeirra áherslur og aðgerðir hér á eftir. Og til marks um þá pólitísku áherslu sem þar er lögð á málið hefur forsætisráðherrann verið í fararbroddi um kynningu stefnunnar og framkvæmd.
Brýnustu viðfangsefnin nú eru að mínu mati þau að auka notkun bílbelta, að sporna gegn ölvunarakstri og að draga úr ólöglegum hraðakstri. Niðurstöður Rannsóknanefndar umferðarslys fyrir árið 1999, en þær verða kynntar ítarlega hér á eftir, sýna að algengustu orsakir slysa eru skortur á bílbeltanotkun, áfengisneysla og hraðakstur, en nefndin komst að sambærilegum niðurstöðum árið 1998.
Við verðum að beina sjónum sérstaklega að ungum ökumönnum í þessu samhengi sem eiga of oft hlut að máli í umferðarslysum. Nefna má sem dæmi að árið 1999 voru þriðjungur þeirra sem létust í banaslysum á aldrinum 15-24 ára.
Dómsmálaráðuneytið og Umferðarráð hafa fengið niðurstöður úr könnun sem gerð var á akstursvenjum ungra ökumanna, en könnunina má nálgast í ráðuneytinu. Samkvæmt niðurstöðunum fylgir fjórðungur ungamenna á aldrinum 17-21 árs, sjaldan eða aldrei boðuðum hámakshraða, og 14% höfðu ekið undir áhrifum áfengis 6 mánuðum áður en könnunin var gerð. Helmingur ungmennanna notar farsíma iðulega meðan á akstri stendur. Allar þessar niðurstöður benda til þess að slæmar akstursvenjur séu algengar í þessum hópi, sem auk þess hefur minnsta reynslu ökumanna í umferðinni. Þetta er alvarlegt og sýnir hve mikil þörf er á því að undirbúa unga fólkið betur fyrir umferðina. Við höfum ekki aðeins áhrif á það með bættu eftirliti og viðurlögum, heldur jafnvel enn fremur með áróðri og fræðslu.
Þess vegna þurfum við kynningarátak gagnvart ungum ökumönnum og mun ég í kjölfar þessarar ráðstefnu beita mér fyrir því. Æfingaakstur hefst við 16 ára aldur og niðurstöður rannsókn sýna að ungmennin eru í sérstökum áhættuhópi til 25 ára aldurs – en að þessum hópi á umfjöllunin að beinast. Til þess að slíkt átak geti orðið að veruleika og skilað árangri þurfa margir að leggja hönd á plóg - málið er mikilvægt og brýnt að menn ljái því liðveislu.
Ég mun beita mér fyrir því að koma upp svokölluðu ökugerði á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við ökukennslu. Ökugerði er æfingasvæði með akbrautum, sem sérstaklega eru ætlaðar nemendum. Þar gætu nemendur, bæði með ökukennurum og foreldrum, spreytt sig á ýmsum aðstæðum sem oft er erfitt að finna á götum borgarinnar meðan á hefðbundnu námi og æfingaakstri stendur. Þegar liggur fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar, en finna þarf hentug landsvæði og koma þarf á samstarfi nokkurra aðila um að koma slíku á fót. Í mínum huga yrði þetta stórt framfaraspor fyrir ökukennsluna á höfuðborgarsvæðinu og að sjálfsögðu þarf einnig að huga að slíkri aðstöðu víðar.
Umferðareftirlit lögreglu er lykilatriði í umferðaröryggi. Í því er fólgið hið óhjákvæmilega aðhald og ögun sem umferðinni er brýn þörf á. Snar þáttur allrar viðleitni til þess að bæta umferðarmenningu er því bætt og virkara eftirlit lögreglunnar. Þess vegna verðum við að bæta tækjakost lögreglunnar, fjölga myndavélum og öndunarmælum, og fylgja eftir tækniframförum í umferðarlöggæslu. Við þurfum skilvikari og marksæknari stjórnun, með verkefnastýringu og árangursmati. Og við þurfum að auka mannaflann í umferðargæslunni. Fyrir þessu mun ég beita mér!
Margir aðilar koma með beinum eða óbeinum hætti að umferðaröryggisstarfinu. Afar mikilvægt er að störf allra séu samræmd með markvissum hætti og að aðilar leggi saman krafta sína og stefni að sama marki. Náist víðtæk samstaða í þjóðfélaginu um áherslur í umferðaröryggismálum má búast við að árangur náist og að umferðarslysum fækki.
Ég og mitt ráðuneyti ætlum okkur bæði að ná og sjá verulegan árangur í bættri umferðarmenningu:
- Við ætlum að gera nýja og markvissa öryggisáætlun, bæði til langs og skamms tíma.
- Efla rannsóknir enn frekar.
- Koma upp æfingaaðstöðu fyrir unga ökumenn
- Standa fyrir kynningarátaki gagnvart ungu fólki.
- Gera átak í umferðareftirliti lögreglunnar og
- efla löggæsluna tilfinnanlega
- Bæta tækjakost lögreglunnar.
- Berjast gegn hraðakstri og ölvunarakstri, og annarri hættuhegðun í umferðinni.
Við tökum umferðaröryggi alvarlega og setjum markið hátt.
Mér finnst fagnaðarefni að sjá hve margir hafa séð sér fært að mæta hér í dag til þess að ræða þennan vanda sem steðjar að okkar samfélagi. Ég vil nota þetta tækifæri til þakka ykkur og þeim sem flytja ávörp hér í dag. Ekki síst vil ég þakka samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, fyrir að vera með okkur hér í dag, enda eru samgöngumálin afar mikilvæg þegar rætt er um bætta umferðarmenningu.
Góðir áheyrendur,
Það er mikilvægt að umferðaröryggismál fái aukið pólitískt vægi í samfélaginu og að okkur takist að bægja mannfórnum umferðarinnar burt. Ljóst er að ekki næst árangur í umferðaröryggismálum ef ekki er fyrir hendi pólitískur metnaður bæði í sveitarstjórnum og hjá ríkinu.
Við megum ekki gleyma því að stór hluti ökumanna sýnir tillitssemi og ábyrgð í umferðinni. En það er ekki nóg. Við verðum að halda umræðu um umferðaröryggismál vakandi, því þetta er sannarlega mál sem snertir alla landsmenn með beinum hætti. Ég skora því á alla landsmenn að stíga nú á stokk og vinna það heit að koma bættri umferðarmenning á og láta það verkefni ganga fyrir í forgangsröðun. Hér er um líf og dauða að tefla.