Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. maí 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra á fundi samtaka um kvennaathvarf um kynbundið ofbeldi

Ávarp dómsmálaráðherra á fundi samtaka um kvennaathvarf um kynbundið ofbeldi, 12. maí 2000


Ágætu fundargestir

Mig langar að þakka kærlega fyrir boð á ráðstefnu ykkrar hér í dag og að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur í upphafi fundar. Jafnframt fagna ég þessu frumkvæði Samtaka um kvennaathvarf og er ánægja að því að fá að styrkja það. Mér þykir leitt að þurfa að víkja af þessum fundi en fulltrúi ráðuneytisins, Áslaug Þórarinsdóttir, mun sitja með ykkur hér í dag.

Því miður eru umræður um það efni sem rætt er hér í dag nauðsynlegar, jafnvel í þjóðfélagum sem telja sig standa framarlega meðal siðmenntaðra þjóða. Sem dómsmálaráðherra hef ég reynt að takast á við vandamál sem tengjast ofbeldi sem beinist sérstaklega að konum með ýmsum hætti. Það er staðreynd að þolendur ofbeldisbrota eru konur að stórum hluta og reyndar eru þær þolendur í mun fleiri málum en þeim sem koma upp á yfirborðið og fá meðferð innan réttarkerfisins. Aðgerðir til þess að vernda konur sérstaklega fyrir ofbeldi eru einn veigamesti liðurinn í átaki dómsmálaráðherra að efla verulega vernd brotaþola. Ég tel að verulega margt hafi áunnist á því sviði. Á undanförnum áratug hafa verið gerðar víðtækar breytingar á refsilögum, lögum um meðferð refsimála fyrir dómstólum til þess að auka refsivernd og bæta stöðu þolenda ofbeldisbrot sem hefur komið konum sérstaklega til góða. Má þar sérstaklega nefna lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sem tryggja þolendum ofbeldisbrota greiðslu bóta úr ríkissjóði. Einnig vil ég nefna víðtækar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála sem tryggja brotaþola í ofbeldismálum aðstoð réttargæslumanns í tengslum við rannsókn og rekstur sakamáls gegn meintum brotamanni. Seinni hluta árs 1997 skipaði dómsmálaráðherra þrjár nefndir sem falið var að fjalla um heimilisofbeldi og gera tillögur um úrlausnir á því sviði. Tvær nefndanna fjölluðu sérstaklega um hvernig mætti gera úrbætur á þessu sviði, annars vegar á rannsóknarstigi hjá lögreglu og hins vegar innan dómskerfisins. Nefndirnar skiluðu tillögum sínum vorið 1998 og hefur markvisst verið unnið að því að fylgja þeim eftir síðan.

Það er sérstök ánægja að greina frá því að nú á síðustu dögum þingsins náðist að afgreiða frá Alþingi frumvarp um nálgunarbann sem ég lagði fram í vetur. Hér er tvímælalaust um að ræða mjög markverða réttarbrot fyrir þolendur ofbeldsibrota, sérstaklega konur og er þetta stórt skref í viðleitni til þess að sporna við heimilisofbeldi. Með því að beita nálgunarbanni má koma í veg fyrir heimilisofbeldi og bregðast við því í þeim tilvikum sem því hefur verið beitt. Markmið nálgunarbanns er þannig að vernda fórnarlamb ofbeldisbrota og fyrirbyggja frekara ofbeldi. Hér höfum við fylgt fordæmi nágrannaþjóða okkar að grípa til þessa úrræðis og mun ég fylgjast með því af miklum áhuga hver verða áhrif þess í þá átt að stemma stigu við ofbeldisbrotum. Einnig vil ég nefna að á þessu þingi voru samþykktar breytingar á almennum hegningarlögum sem gera hótanir og ógnanir í garð vitna sjálfstætt refsivert brot. Er það enn eitt skref til þess að hjálpa brotaþolum að yfirvinna ótta við að kæra þá sem beitt hafa ofbeldi og gefur skýr skilaboð um hversu alvarlegt mál er að hafa í hótunum við þá sem hyggjast bera vitni fyrir lögreglu eða dómstólum um refsiverða háttsemi. Þess má einnig geta að haldið verður áfram að setja skýrar reglur um starfsemi svokallaðra dansstaða og ég stefni að því að gerð verði rannsókn á umfangi vændis hér á landi.

Ágætu fundargestir, ég vona að fundur ykkar hér í dag verði árangursríkur og varpi ljósi á úrræði sem er vænlegt að leita til lausna á vandamálum sem tengjast kynbundnu ofbeldi. Það von mín að sú viðleitni sem ég hef nú lýst til þess að stemma stigu við þessu vandamáli verði raunverulega til þess að hafa áhrif. Ég vil líka ítreka að öll opinská umræða um þetta er nauðsynlegt, en því má ekki gleyma að stór hluti ofbeldis gagnvart konum þrífst í skjóli leyndarinnar og þagnar gjarnan innan veggja heimilisins. Fundur sem þessi getur átt þátt í því að opna augu kvenna og karla fyrir þessu vandamáli sem snertir því miður alltof marga í okkar þjóðfélagi.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta