Ávarp dómsmálaráðherra við afhjúpun fyrsta umferðarmerkis við hættulega staði á þjóðvegunum. Seleyri undir Hafnarfjalli
Ávarp dómsmálaráðherra við afhjúpun fyrsta umferðarmerkis við hættulega staði á þjóðvegunum.
Seleyri undir Hafnarfjalli 4. ágúst 2000
Samgönguráðherra
Góðir gestir
Ég vil byrja á því að bjóða gesti velkomna til kynningar á nýju umferðarmerki. Þetta merki er fyrsta sinnar tegundar hér á landi, þó að fordæmin séu fyrir hendi erlendis.
Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við að mörg alvarleg slys eiga sér stað á þjóðvegunum. Árið 1998 urðu 80% banaslysa í umferðinni í dreifbýli og árið 1999 ríflega 70%. Langflest banaslys gerast í dreifbýli þar sem hámarkshraði er um og yfir 80 km/klst. Myndin er ekki ólík í slysum sem mjög alvarlegt líkamstjóns hlýst af.
Algengar ástæður eru of mikill hraði á vegunum og óvarkárni. Hraðakstur í þjóðvegunum er hættuspil sem endað getur með ósköpum og því miður sýna mælingar að slíkur glæfraakstur er alltof algengur. Á þessum slóðum hafa orðið mörg slys vegna hraðaksturs, eins og hið nýja merki gefur til kynna.
Hin nýju merki eru sett upp til þess að minna ökumenn á hætturnar sem leynast á þjóðvegunum, þau eru hvatning til þeirra um að taka tillit til aðstæðna og gæta sérstakrar varúðar á hættulegum stöðum.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur bent á að í yfirgnæfandi fjölda tilfella sé aðalorsök banaslyss tengd ökumanni. Hann hafi ekið of hratt, ekki spennt beltin, eða haft áfengi um hönd, svo algeng dæmi séu nefnd. Þetta er svipuð niðurstaða og þekkt er úr erlendum rannsóknum.
Því er staðreyndin sú að með meiri aðgæslu getum við forðað mörgum þeim slysum sem annars ættu sér stað. Í því átaki sem nú stendur yfir undir kjörorðinu, "Bætt umferðarmenning – burt með mannfórnir", höfum við m.a. reynt að höfða til ökumanna og hvetja þá til þess að gæta að sér og leggja sitt af mörkum til öruggari umferðar.
Það er engin einföld lausn til á umferðarvandanum. Það sem til þarf eru margháttaðar aðgerðir og víðtæk samstaða. Við þurfum lifandi umræðu, áróður og fræðslu, og sívirkt eftirlit lögreglu. Umferðarátakið miðast við að efla öll þessi atriði, þannig að hvert þeirra styðji við annað.
Við hvetjum ökumenn til þess að aka varlega, það eru skilaboð þeirra merkinga sem sett hafa verið upp. Einna helst ættu merkin þó að hjálpa ungum ökumönnum sem oft hafa ekki nægilega reynslu til þess að meta aðstæður réttilega. Þó ekki verði forðað nema einu slysi með varnaðarorðum merkjanna, þá er tilganginum náð.
Ég vil að lokum þakka samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, og Vegagerðinni fyrir framlag þeirra til umferðaröryggis. Það fer ekki á milli mála að samstaða skilar árangri.