Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. mars 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp við kynningu á starfsemi Fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar , Neyðarlínunnar, og annarra öryggisaðila

Ávarp dómsmálaráðherra við kynningu á starfsemi Fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar, Neyðarlínunnar og annarra öryggisaðila að Skógarhlíð 14.

21.3.2001.



Góðir gestir,

Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér á þessari kynningu á starfsemi hins samþætta öryggiskerfis, sem komið hefur verið á fót á þessum stað. Þeir þættir, sem undir dómsmálaráðherra heyra,eru Neyðarlínan og Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, en ég tel tvímælalaust að hér sé verið að stíga stórt skref í því að bæta öryggi borgaranna. Ég vil gera hér sérstaklega að umtalsefni samhæfinguna á þjónustu Neyðarlínunnar og fjarskiptamiðstöðvarinnar, en þar tel ég að við séum komin með öryggiskerfi sem er á heimsmælikvarða.

Búið er að þróa hugbúnað, sem tengir þessar stofnanir saman. Biðtími styttist, því símtölum frá Neyðarlínunni er forgangsraðað. Þjónustusímtölum er beint til réttra aðila og léttir þannig af fjarskiptamiðstöðinni óþarfa erindum, en brýnum erindum er sinnt strax eða vísað til viðeigandi aðila. Neyðarlínan og fjarskiptamiðstöðin styðja þannig hvor við aðra, ekki síst vegna sameiginlegs tölvu- og símabúnaðar.

Einnig er þjónusta Neyðarlínunnar við löggæslu á landsbyggðinni betri en áður var, þar sem alltaf er unnt að leita aðstoðar fjarskiptamiðstöðvarinnar í vafatilvikum. Með þessum breytingum hefur þjónusta við almenning batnað þar sem útkallstími hefur styst og samstarf neyðarþjónustuaðila orðið nánara.

Samkvæmt mínum upplýsingum hefur t.d. meðal-svartími styst um allt að eina og hálfa mínútu, sem er vitaskuld mikill árangur. Við vitum að oft
skiptir viðbragðshraðinn öllu máli og þegar um mannslíf er að ræða getur
hver sekúnda ráðið úrslitum.

Þá vil ég líka nefna þá nýjung að fjarskiptamiðstöðin, sem er sítengd við lögreglubifreiðar á starfssvæði sínu sér ávallt staðsetningu þeirra út frá merkjum, sem sjálfvirkur GPS sendibúnaður í bifreiðunum sendir til stöðvarinnar. Í útkalli getur hún því alltaf séð á skjá hvar næstu bifreiðar við útkallsstað eru staddar og komið skilaboðum til áhafnar bílsins um að fara á staðinn. Með þessu hefur verið unnt að stytta útkallstíma verulega.

Neyðarlínan nær til alls landsins, en fjarskipti Fjarskiptamiðstöðvarinnar ná ennþá einungis til SV-hornsins, en að því er stefnt að þau nái síðar til landsins alls. Mun þjónustan þá batna samsvarandi. Ég tel reyndar að með hinni nýju fjarskiptatækni gefist kostur á að efla til muna löggæsluna í landinu, með betri skipulagningu, aðgerðastjórnun og upplýsingastreymi.

Við verðum auðvitað einnig að hafa í huga að aukin viðbragðssnerpa lögreglunnar er ekki einvörðungu til þess fallin að draga úr tjóni, heldur einnig til þess að varna afbrotum.

Íslendingar hafa komið sér upp afar skilvirku öryggiskerfi, sem byggt er á íslenskum aðstæðum og íslenskri reynslu. Við höfum ekki herlið eða þjóðvarðlið, sem við heyrum um í fréttum að sent hafi verið til að mæta vá af völdum náttúru eða stórslysa. Við byggjum kerfi okkar á öflugu liði sjálfboðaliða, sem leggja á sig fórnfúst starf í almannaþágu og uppskera fyrir þakklæti alþjóðar.

Við byggjum það líka á liði atvinnumanna í löggæslu, landhelgisgæslu, brunavörnum og heilbrigðisþjónustu, svo og sjálfboðnu liði í mannúðarsamtökum, svo sem Rauða krossinum. Það hefur oftsinnis reynt á þetta kerfi og það hefur sýnt sig að standast hverja raun. En það má alltaf bæta sig, stytta viðbragðstímann, bæta fjarskiptin o.fl.

Í þessum efnum hafa hér verið stigin stór skref í rétta átt hér í Skógarhlíðinni. Það byggist á vel heppnaðri samvinnu margra aðila og mikilli vinnu. Ég vil að endingu þakka öllum þeim, sem koma að þessu starfi hér í Skógarhlíð; embætti Ríkislögreglustjóra og starfsmönnum fjarskiptamiðstöðvarinnar og Neyðarlínunnar, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Securitas hf. Ég vil sérstaklega þakka Reykjavíkurborg gott samstarf.

Sú kynning, sem hér fer fram er þörf og gefur gestum vonandi góða innsýn í það mikilvæga starf, sem hér er unnið.

Ég þakka ykkur fyrir.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta