Konur og lýðræði, önnur ráðstefna, Reykjavík-Vilnius 2001, pallborðsumræður um verslun með konur
Konur og lýðræði, önnur ráðstefna, Reykjavík-Vilnius 2001
Pallborðsumræður um verslun með konur
Inngangur dómsmálaráðherra (í íslenskri þýðingu)
Íslensk stjórnvöld hafa vaxandi áhyggjur af þeirri staðreynd að verslun með konur teygir sig til landsins. Við leitum nú leiða til þess að berjast gegn verslun með konur og til þess að ná fram markmiðum, sem eru sett fram í viðauka Sameinuðu þjóðanna um varnir við verslun með konur og afnám hennar. Sem dómsmálaráðherra með verksvið, sem nær yfir bæði refsilöggjöf og alþjóðlega lögreglusamvinnu, finn ég til ábyrgðar minnar á þessu sviði.
Ég vil leggja sérstaka áherslu á fimm eftirfarandi lykilatriði í þessu sambandi:
Í fyrsta lagi verður að skilgreina vandann og áætla umfang hans. Við verðum að grípa til aðgerða s.s. rannsókna á aðstæðm eins og þær blasa við. Af því getum við dregið ályktanir, sem við reisum aðgerðir okkar á, til að kljást við vandann. Með slíkum rannsóknum öðlumst við líka mikilvægar upplýsingar, sem nýtast okkur til þess að stemma stigu við slíkum glæpum. Ég hef þegar látið gera sérstaka rannsókn á þessu vandamáli. Hún leiddi af sér ítarlega skýrslu á þessu ári um vændi á Íslandi. Þar var staðfest að skýr tengsl eru á milli nektardansstaða í Reykjavík og vændis. Það er staðeynd að fjöldi erlendra kvenna kemur árlega til Íslands til þess að starfa sem nektardansarar. Nýlega skipaði ég nefnd sérfræðinga til að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á refsilögum og einnig að kanna félagslegar aðstæður fórnarlamba og kynferðisbrotamanna og áhrif fíkniefnaneyslu þar á.
Annað atriði sem hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir baráttu gegn verslun með konur er nauðsyn þess að staðfesta SÞ viðaukann gegn verslun með konur. Ísland hefur undirritað viðaukann og undirbýr nú fullgildingu hans. Eitt af vandamálunum í réttarkerfum okkar er að löggjöfin hefur verið frekar óljós um það hvort verslun með fólk sé refsiverð, og af þeim sökum hefur verið erfitt að höfða refsimál. Nú höfum við í þessum alþjóðasamningi skýra skilgreiningu á verslun með fólk, sem refsiverðum verknaði. Þetta veitir okkur líka möguleika á því að samræma löggjöf okkar, sem auðveldar verulega alla alþjóðlega lögreglusamvinnu á þessu sviði. Við erum að fást við fjölþjóðlegt vandamál, sem verður að takast á við með samstilltu átaki allra þjóða. Því legg ég mikla áherslu á að allar þjóðir fullgildi viðaukann.
Þriðja meginatriðið, sem skiptir miklu máli, er að efla alþjóðlega lögreglusamvinnu. Við verðum að greiða fyrir því að lögregla geti skipst á upplýsingum bæði við rannsókn mála en einnig í tengslum við landamæralöggæslu. Á Íslandi hafa þegar komið upp tilvik þar sem fólk hefur farið um flughöfn á leið frá Evrópu til Bandaríkjanna. Við höfum notið frábærrar samvinnu við FBI og bandarísku innflytjendadstofnunina við að þjálfa lögreglumenn í landamæravörslu, sem hefur komið sér mjög vel fyrir íslensku lögregluna. Samvinna á milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna er gífurlega mikilvæg í baráttu gegn verslun með fólk. Nú þegar er mikil samvinna á milli Norðurlandanna, annars vegar milli ráðherra, hins vegar milli löggæslustofnana. Norrænir dómsmálaráðherrar hafa sérstakar áhyggjur af þessu vandamáli, sem verður rætt á næsta fundi okkar í ágúst.
Í gær ræddum við einnig tillögu um norrænt-baltneskt átak, sem verður samstarsverkefni ráðherra dómsmála og jafnréttismála á þessu sviði. Á þessu ári tekur Ísland við formennsku í PTN-lögreglusamstarfi Norðurlanda, sem hefur reynst afar árangursríkt. Ég vil líka leggja áherslu á samstarf við Eystrasaltsríkin í þessu sambandi, en fjöldi kvenna frá þessum ríkjum þiggur vafasöm atvinnutilboð frá Norðurlöndunum.
Í fjórða lagi vil ég minna á að verslun með konur er brotastarfsemi, sem skapar fórnarlömbunum gífurlegar þjáningar. Það brýtur ekki aðeins niður líkamlegt og andlegt þrek fórnarlambanna, heldur eru þau einnig í hættu stödd ef þau leita til lögreglu. Við verðum að hvetja fórnarlömbin til þess að gefa sig fram, en jafnfram veita þeim nauðsynlega vernd í gegnum erfiða málsmeðferð í refsimálum og hugsanlega aðstæður til þess að hefja nýtt líf.
Að lokum vil ég leggja sérstaka áherslu á þörf þess að opna augu almennings fyrir því hversu alvarlegur glæpur verslun með fólk er. Við verðum að breyta almenningsálitinu og eftirspurn eftir vændi. Við verðum að grípa til aðgerða, s.s. fjölmiðlaherferða í því markmiði. Stór þáttur í þessu er að stjórnvöld eigi gott samstarf við frjáls félagasamtök s.s. kvennaathvörf og önnur félög, þar sem konur leita hjálpar. Ekki er síður mikilvægt að nálgast þessar konur beint til þess að kynna þeim réttindi þeirra.
Við höfum nú skilgreint aðgerðir og tæki til þess að nota í baráttunni gegn verslun með fólk. Það er kominn tími til að nota þau.