Landsþing Landssambands lögreglumanna
Ávarp dómsmálaráðherra á 24. landsþingi Landssambands lögreglumanna í Munaðarnesi 15. apríl 2002 .
Ágætu lögreglumenn og aðrir gestir.
Það er mér í senn heiður og ánægja að þiggja boð ykkar um að ávarpa 24. þing Landssambands lögreglumanna sem hefst hér í Munaðarnesi í dag. Ég met það mikils að eiga gott samstarf við alla lögreglumenn í landinu enda fara markmið okkar og áherslur saman á mörgum sviðum. Tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag er því kærkomið.
Mikil umræða hefur verið að undanförnu um lögregluna á Íslandi og stöðu hennar. Umræða um lögregluna er ekki ný af nálinni og eðlilegt að menn hafi skoðanir á lögreglunni og hennar störfum, enda snertir starfsemi lögreglunnar alla landsmenn með einum eða öðrum hætti. Pólitísk umræða um lögregluna er oft á tíðum fyrirferðarmikil, enda hefur varla liðið sá vetur að ekki hafi komið fram spurningar eða skýrslubeiðnir á Alþingi um málefni lögreglunnar.
Umræða af þessu tagi er að sjálfsögðu af hinu góða almennt séð, það er nauðsynlegt að allir séu vel upplýstir um lögregluna, hvernig hún sinnir sínu starfi og að menn ræði hugmyndir um hvernig unnt er að efla starfsemi hennar. Það veldur mér hins vegar áhyggjum þegar gengið er of langt í hinni pólitísku umræðu og fullyrðingum varpað fram um stöðu lögreglunnar sem lítið sem ekkert stendur á bak við. Fullyrðingar um að lögreglan sinni illa eða ekki því meginhlutverki sínu að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu eru alvarlegar fullyrðingar sem ávallt eru skoðaðar ofan í kjölinn. Fullyrðingar af þessu tagi eru til þess fallnar að valda ótta meðal fólks um eigið öryggi og fólk hlustar þegar málsmetandi stjórnmálamenn setja slíkt fram. Því er ábyrgð þeirra mikil á því að fullyrðingar um lögreglan sinni ekki sínum störfum séu réttar, en því miður er það reynsla mín að í of mörgum tilvikum er ekki stuðst við fullnægjandi rök.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að ítarlegri skýrslu í dómsmálaráðuneytinu, í náinni samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra og lögregluliðin í landinu, um stöðu og þróun löggæslu samkvæmt beiðni frá Alþingi. Ígreinargerð með skýrslubeiðninni má sjá ýmsar fullyrðingar sem við nánari skoðun eiga ekki við rök að styðjast. Þar er til dæmis fullyrt að niðurskurður hafi verið á framlögum til löggæslu á undanförnum árum og að lögreglumönnum hafi fækkað verulega. Hvorug af þessum fullyrðingum er rétt. Umtalsverð raunhækkun hefur orðið á framlögum til löggæslu á síðustu árum sem og fjölgun lögreglumanna. Það er auðvitað ekki rétt að ég fjalli ítarlega um skýrslu þessa hér, hún var í dag formlega send Alþingi og hefur því ekki komið fyrir augu þingmanna enn sem komið er, en ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur skýrsluna, því þar er margt athyglisvert að sjá.
Eins og þið lögreglumenn þekkið best allra hafa umtalsverðar breytingar orðið á skipulagi löggæslu hér á landi á síðustu árum. Töluverð reynsla er komin á lögreglulögin sem öðluðust gildi árið 1997 og er það mat mitt og vonandi ykkar einnig að með þeim hafi verið stigið mikilvægt framfaraspor sem orðið hafi lögreglunni í landinu til framdráttar. Ýmis fleiri framfaraspor fylgdu í kjölfar lögreglulaganna. Í greinargerð með frumvarpi til lögreglulaga var sérstaklega fjallað um tvö atriði sem sérstaklega þyrfti að huga að og var annars vegar um að ræða bætta stöðu kvenna innan lögreglunnar og hins vegar aldur lögreglumanna. Hvað hið fyrrnefnda varðar er óhætt að segja að á þeim árum sem liðin eru frá gildistöku laganna hafi orðið mikil breyting á stöðu kvenna innan lögreglunnar. Ríflega helmingi fleiri konur eru nú í starfi innan lögreglunnar en fyrir fimm árum síðan og er hlutfall kvenna í lögreglunni í dag rúmlega 9%. Af nemendum sem nú stunda nám við Lögregluskólann er þriðjungur konur og því fyrirsjáanlegt að hlutfall kvenna í lögreglu muni áfram aukast. Hvað varðar aldur lögreglumanna þá hefur verið unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að ná fram lækkun á hámarksaldri lögreglumanna. Nú sér vonandi fyrir endann á þeirri vinnu, en frumvörp til breytinga á lögum eru til umræðu á Alþingi og niðurstöðu að vænta á allra næstu dögum. Margt fleira mætti einnig nefna af framfaramálum innan lögreglunnar á liðnum árum, en ég læt hér staðar numið.
Eitt af þeim málefnum sem Landssamband lögreglumanna beinir nú sjónum að er ofbeldi gegn lögreglumönnum. Ég er sammála því að þar eru á ferðinni alvarleg afbrot sem taka ber hart á í réttarvörslukerfinu enda kveða almenn hegningarlögin á um sérstaka réttarvernd í slíkum tilvikum. Í þeirri skýrslu til Alþingis sem ég gat um kemur fram að aukning hafi sem betur fer ekki orðið á þessum brotum á allra síðustu misserum. Þó er ljóst að ýmislegt í samfélag samtímans eykur hætturnar sem fylgja lögreglustarfinu, svo sem fíkniefnaneysla. Embætti Ríkislögreglustjóra hefur tekið þetta viðfangsefni til sérstakrar skoðunar og bind ég vonir við sú vinna geti skilað okkur áleiðis að því sameiginlega markmiði okkar, að tryggja lögreglumönnum öruggara starfsumhverfi. Í þessum samhengi er ástæða til þess að fagna því að samkomulag hafi náðst milli ríkis og lögreglumanna um tryggingamál.
Krafa Landssambands lögreglumanna um að einungis menntaðir lögreglumenn fái að starfa í lögrelgunni er rétt og eðlileg og í samræmi við mín viðhorf. Það verður hins vegar að horfast í augu við það að enn er skortur á menntuðum lögreglumönnum til starfa, sérstaklega á landsbyggðinni. Það góða uppbyggingarstarf sem unnið er í Lögregluskólanum leiðir vonandi fljótlega til þess að allir lögreglumenn í landinu verði menntaðir til starfsins.
Hvað varðar alþjóðlega samvinnu þá hefur Ísland aðkomu að starfi Evrópska lögregluskólans, sem í dag er net lögregluskóla í ríkjum Evrópusambandsins, á Íslandi og Noregi. Við munum fylgjast náið með þróun mála á þessum vettvangi, það er sannfæring mín að samstarf af þessu tagi geti skilað okkur góðum árangri.
Það eru mörg atriði innan lögreglunnar sem hafa fyllt mig stolti á íslenskum lögreglumönnum á þeim tíma sem ég hef gegnt embætti dómsmálaráðherra. Nefna má frammistöðu lögreglunnar við rannsóknir alvarlegra afbrota, góðan árangur við rannsóknir ýmissa fíkniefnamála, hverfalöggæslu, árangursríka samvinnu við sveitarfélög í forvarnamálum og aukið umferðareftirlit. Síðast en ekki síst má nefna niðurstöður í alþjóðlegum úttektum á starfsemi lögreglunnar í tengslum við þátttöku okkar í Schengen samstarfinu, þar sem undirbúningur lögreglunnar undir þátttöku í þessu samstarfi sem fram fór undir yfirstjórn lögregluskólans svo og skipulag alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra hlaut sérstakt lof og vakti mikla athygli alþjóðlegra úttektarnefnda. Það gladdi mig einnig mjög hversu mikið traust Íslendingar bera til lögreglunnar í landinu. Í nýlegri skoðanakönnun Gallup kom í ljós að ríflega 70% landsmanna bera traust til lögreglunnar, og nýtur einungis Háskóli Íslands meira trausts af opinberum aðilum. Þetta er niðurstaða sem íslenskir lögreglumenn geta verið mjög stoltir af og sýnir svo ekki verður um villst að staða lögreglunnar í landinu er sterk.
Að síðustu vil ég nota tækifærið og þakka fráfarandi stjórn ánægjulegt samstarf á liðnum árum og þá sérstaklega Jónasi Magnússyni fráfarandi formanni, sem nú lætur af formennsku eftir margra ára farsælt starf í forystusveit lögreglumanna.