Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. apríl 2002 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Forvarnarstarf - undirritun samnings

Undirritun samnings dómsmálaráðuneytis, Sýslumannsins í Kópavogi og félagsmálayfirvalda um forvarnarstarf í fíkniefnamálum

Ræða dómsmálaráðherra


Ágætu gestir,

Hér í dag er til undirritunar samningur sem markar nokkur tímamót. Með honum verður samstarf bæjaryfirvalda og lögreglu gert mun nánara, sem ég tel að geti leitt til þess að störf beggja aðila, félagsmálayfirvalda í Kópavogi og lögreglunnar hér í bænum, verði markvissara.

Fíkniefnabölið er vandamál sem er Íslendingum áhyggjuefni og það er ekki að ófyrirsynju. Alltof margir einstaklingar eyðileggja líf sitt með ofneyslu fíkniefna og dapurlega mörg ofbeldisverk og önnnur afbrot eru framin undir áhrifum þeirra.

Við náum ekki árangri í þessari baráttu nema með því að takast á við vandann með öllum þeim aðferðum sem okkur eru mögulegar og alls staðar þar sem hann birtist. Við verðum að leggja áherslu á löggæslu og tollgæslu, alþjóðlega samvinnu, meðferðarúrræði og síðast en ekki síst, forvarnir. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld einmitt unnið eftir þessari forskrift og uppskorið nokkurn árangur sem sýnir sig í könnunum um minnkandi neyslu kannabisefna í grunnskólum landsins. En betur má ef duga skal.

Við þurfum enn að herða róðurinn og vona ég að með því samkomulagi sem hér verður ritað undir komist enn meiri kraftur í þessa baráttu hér í Kópavogi.

Ég hef sagt það áður að þörf sé á því að fjölga lögreglumönnum í Kópavogi, enda hefur á síðustu árum verið bætt við fjárveitingum til embættisins hér í Kópavogi til þess að fjölga í lögreglunni. Ég tel að halda þurfi áfram að efla lögregluna hér í Kópavogi og mun ég vinna að því.

Það samkomulag sem hér liggur fyrir felur í sér að einn starfsmaður félagsþjónustu bæjarins hafi aðsetur hjá lögreglunni, hafi aðgang að upplýsingum hennar, samskiptakerfi lögreglunnar og hafi nána samvinnu um fræðslu í skólunum og eftirlit með ungmennum. Við vitum öll hve mikilvægt er að grípa snemma inn í þegar ungmenni byrja að leiðast út í fíkniefnaneyslu. Það getur ráðið úrslitum í lífi þess einstaklings. Þetta fyrirkomulag sem hér er komið á getur aukið til muna möguleika félagsþjónustunnar til þess, enda verður upplýsingaflæði meira og skilvirkara.

Það er ljóst að nánast umhverfi ungmenna ræður mestu um það hvort þau leiðast á glapstigu fíkniefnanna eða ekki. Vinahópurinn, sambandið við foreldrana, félagsstarfið og skólinn eru allt þættir sem sköpum skipta. Mikilvægasta forvarnarstarfið felst í því að þessar stofnanir, -nærsamfélagið -, slái skjaldborg um ungemennin og brynji þau fyrir þeim straumum samtímans sem ekki þykja æskilegir. Í þeim efnum getur bæjarfélagið og lögreglan haft lykiláhrif á að vel takist til.

Ég vil þakka þeim sérstaklega sem komið hafa að því að undirbúa þetta samkomulag, vil ég þar sérstaklega nefna þá Þorleif Pálsson sýslumann, Sigurð Geirdal bæjarstjóra og Gunnar Birgisson, forseta bæjarstjórnar og alþingismann.

Það er auðvitað svo að menn ná mestum árangri með samvinnu, eins og þetta samkomulag er gott dæmi um. Ég vil að lokum þakka bæjarfélaginu sérstaklega fyrir uppbyggilega samvinnu og samstarf sem ber ávöxt í þessu samkomulagi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta