Ræða dóms- og kirkjumálaráðherra við kynningu á skýrslu starfshóps um úrbætur á skemmtanahaldi á útihátíðum
17.júlí 2002
Ræða dóms- og kirkjumálaráðherra við kynningu á skýrslu starfshóps sem falið var að gera tillögur um úrbætur á skemmtanahaldi á útihátíðum
Ágætu tilheyrendur.
Hér verður kynnt ný skýrsla sem unnin hefur verið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um útihátíðir. Í ljósi þess að fjölmiðlar hafa sýnt þessu verkefni töluverðan áhuga var ákveðið að boða til þessarar kynningar hér í dag.
Hér er um að ræða margþætt viðfangsefni og því er mikilvægt að þær tillögur eða upplýsingar, sem fram koma í þessari skýrslu séu ekki slitnar úr samhengi eða að myndin, sem þar er dregin upp af verkefninu sé ekki blásin upp eða oftúlkuð.
Segja má að verslunarmannahelgin sé séríslenskt fyrirbæri, þrátt fyrir að í nokkrum nágrannalandanna séu langar helgar með mánudagsfríi yfir sumarmánuðina. Það er bæði gömul saga og ný að fólki ofbjóði sú mikla ölvun og atgangur sem oft á sér stað á útihátíðum. Fréttaflutningur um gróf kynferðisbrot, líkamsárásir og fíkniefni er ekki nýr af nálinni. Margoft hefur heyrst það viðhorf að skipulagðar útihátíðir af því tagi, þar sem unglingum sé safnað saman til margra sólarhringa drykkju með öllum þeim vandamálum sem slíkt hefur í för með sér, eigi ekki að láta viðgangast. Á móti má benda á, að ef engar útihátíðir væru skipulagðar, myndu unglingarnir samt sem áður safnast saman og neyta áfengis. Væru unglingarnir þá án eftirlits, aðhlynningar og öryggis sem þau búa við á vel skipulagðri hátíð.
Fréttaflutningur af atburðum síðustu verslunarmannahelgar fór ekki fram hjá neinum. Fjöldi þeirra kynferðisbrota sem tilkynntur var þessa helgi er mikið áhyggjuefni. Í kjölfarið fundaði ég með fulltrúum lögregluyfirvalda, landlækni ásamt fulltrúum frá Neyðarmóttöku og Stígamótum þar sem farið var yfir stöðu mála. Í framhaldinu ákvað ég að koma á faglegum starfshópi til þess að fara yfir þennan málaflokk.
Jón Þór Ólason lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, var skipaður formaður starfshópsins. Aðrir meðlimir í starfshópnum voru, Rúna Jónsdóttir fræðslu- og kynningarfulltrúi hjá Stígamótum, tilnefnd af þeim samtökum, Karl Gauti Hjaltason sýslumaður í Vestmannaeyjum, tilnefndur af Sýslumannafélagi Íslands, Guðjón Hjörleifsson fráfarandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyrún B. Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, tilnefnd af Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn, tilnefndur af embætti ríkislögreglustjóra og Haukur Valdimarsson yfirlæknir, tilnefndur af embætti landlæknis.
Starfshópnum var falið það verkefni að fara yfir gildandi lög og reglur er snerta skemmtanahald á útihátíðum og koma með tillögur varðandi undirbúningsferli og gæslu á þeim. Var starfshópnum einnig ætlað að skila tillögum hvernig samræma mætti enn frekar samstarf þeirra aðila sem koma að lög- og heilsugæslu á útihátíðum. Eins og við var að búast hefur starfshópurinn nú skilað vel unnum og góðum tillögum til úrbóta á þessu sviði, og leggur fram vandaða skýrslu hér í dag, sem að mínu mati er góður grundvöllur að frekari stefnumótun á þessu sviði. Það er auðvitað alltaf auðvelt að slá fram fullyrðingum um stórkostleg vandamál og kalla eftir einföldum lausnum. Það þjónar hins vegar sjaldnast miklum tilgangi eða gerir mikið gagn.
Ég hef fylgst náið með vinnu starfshópsins og kynnt mér þær tillögur sem lagðar eru fram hér í dag. Tillögurnar beinast margar að þáttum sem heyra undir verkefnasvið dómsmálaráðuneytinsins og munu fara í frekari úrvinnslu í ráðuneytinu. Aðrar varða önnur ráðuneyti og stofnanir og hljóta þar að fá vandaða skoðun. Tillögurnar eru margar hverjar athyglisverðar, en ljóst er að um ýmsar þeirra geta verið skiptar skoðanir. Ég ætla ekki að fjalla í ítarlegu máli um skýrsluna sem hér er til kynningar, en ég vil nefna hér nokkur áhersluatriði:
Starfshópurinn leggur áherslu á fastmótaðra samstarf þeirra aðila sem starfa við gæslu á útihátíðum og gerir ýmsar tillögur þar að lútandi. Að mínu mati er algjört lykilatriði að samstarf þeirra sem starfa að útihátíðum sé vel skipulagt enda hafa þessir aðilar oft þurft að vinna störf sín við erfiðar aðstæður. Með slíku samráði má koma í veg fyrir ýmis atriði sem misfarist hafa í undirbúningi, eða gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta vegna einhverra atvika sem upp koma á mótssvæði.
Í skýrslunni er einnig að finna ítarlega umfjöllun um kynferðisbrot á útihátíðum enda eru þau einhver alvarlegustu brot sem framin eru á slíkum hátíðum. Oft kemur fram gagnrýni á hve fá mál eru kærð miðað við þau mál sem eru tilkynnt. Staðreyndin er sú að oft og tíðum er því miður ekki vitað hvern á að kæra. Enginn er til frásagnar um það hver hafi verið að verki eða ekki er hægt að bera kennsl á brotamann í mjög stuttum kynnum. Auðvelt er að hverfa inn í fjöldann á þeim útihátíðum þar sem mörg þúsund manns eru saman komin, kannski í niðamyrkri. Þá eru mál oft tilkynnt eða kærð mörgum mánuðum eftir lok útihátíðar og þá er oft erfiðara að rannsaka málin. Þá vil ég minna á þá staðreynd að ungur aldur og mikil áfengisneysla virðist einkenna þær aðstæður þar sem kynferðisbrot eru framin, þar sem viðnám brotaþola er þá lítið eða ekkert. Þá má einnig nefna til sektarkennd brotaþola. Það er von mín að skýrsla starfshópsins sé mikilvægt skref í þessum málaflokki.
Ég hef á undanförnum árum lagt stóraukna áherslu á fíkniefnavarnir tengdum útihátíðum. Tel ég að aukin samvinna lögregluliða í landinu undir stjórn ríkislögreglustjóra og betri undirbúningur og markvissara skipulag varðandi eftirlit lögreglu með fíkniefnum, hafi skilað góðum árangri á undanförnum árum. Áfram verður haldið á þeirri braut og enn verður hert á tökunum. Sýnileg löggæsla með þjálfaða fíkniefnahunda er að mínu mati mjög mikilvæg og hefur mikið forvarnargildi. Embætti ríkislögreglustjóra mun um komandi verslunarmannahelgi viðhafa sérstakan viðbúnað vegna þessa. Færanleg og sérþjálfuð teymi lögreglumanna með fíkniefnahunda munu fara milli helstu hátíðarsvæða og er um að ræða viðbót við þá löggæslu sem fyrir er á hátíðunum. Auk þess verða á næstunni boðaðar fleiri aðgerðir um stóreflda löggæslu um komandi verslunarmannahelgi, m.a. aðgerðir til þess að auka öryggi í umferðinni, þessa mestu ferðamannahelgi ársins.
Þá eru í skýrslunni athyglisverðar tillögur um skipulag hátíðarsvæðisins, sem virðast vel til þess fallnar að auka öryggi samkomugesta. Þá er einnig í skýrslunni að finna umfjöllun um skipulag löggæslu, lagaumhverfi, heilsugæslu, hollustuhætti, brunavarnir o.fl. sem nýtast mun í komandi vinnu.
Eins og fram kemur í skýrslunni náðist ekki full samstaða í starfshópnum um útfærslu á tillögum nefndarinnar varðandi aldursmörk á útihátíðum og er sérálit minnihluta að finna í viðauka II. Meirihluti nefndarinnar leggja til að áfram eigi að miða aðgang ungmenna að útihátíðum án fylgdar forráðamanna við 16 ára aldur. Telur meirihluti nefndarinnar að með því að hækka aldursmarkið væri verið að bjóða þeirri hættu heim að unglingar safnist saman á óskipulögðum samkomum þar sem öryggi þeirra er lítið og þeir án eftirlits, aðhlynningar og öryggis sem þeir búa við á vel skipulagðri hátíð. Töldu umboðsmaður barna, forstjóri Barnaverndarstofu, félagsmálaráðuneytið og embætti ríkislögreglustjóra að miða ætti við 16 ára aldurinn m.a. með vísan til ofangreindra raka. Eru þetta að mínu mati sterk rök fyrir því að miða áfram aðgang að útihátíðum við 16 ára aldur.
Hluti nefndarmanna er hér á fundinum og og munu kynna efni hennar en ég er hins vegar tilbúin að svara þeim spurningum sem hér kunna að vakna.
Ég vil að lokum þakka starfshópnum fyrir mikla og góða vinnu, sem ég tel að muni verða okkur til mikils gagns við þá vinnu sem framundan er í þessum málaflokki.