Ræða dóms og kirkjumálaráðherra á prestastefnu, Sauðárkróki, 23. júní, 2003.
Til heiðurs staðfestunni,
ávarp á prestastefnu,
Sauðárkróki,
23. júní, 2003.
ávarp á prestastefnu,
Sauðárkróki,
23. júní, 2003.
Mér er ánægja að ávarpa prestastefnu við upphaf hennar hér á Sauðarkróki og að það skuli vera fyrsta opinbera ræða mín sem kirkjumálaráðherra. Þakka ég hlýhug ykkar í garð okkar Rutar í hinni góðu veislu í gærkvöldi og biskupshjónum fyrir gestrisni þeirra.
Á þessum stað í Sauðárkrókskirkju minnist ég þess að oft hef ég hlýtt á ræður presta, sem hér hafa þjónað, og margt lært af útleggingu þeirra á drottins orði.
Þegar ég var ungur að árum átti ég þess kost að kynnast séra Helga Konráðssyni, sem þjónaði Reynistað, þar sem ég var í sveit og hafði ég meðal annars það ábyrgðarhlutverk að hreinsa flugur úr kirkjugluggum, áður en séra Helgi messaði. Messudagar í sveitinni, þegar farið var í sparifötin og síðan drukkið súkkulaði með tertum og pönnukökum, eru sérstakir hátíðisdagar í minningunni og einnig hitt, að hafa heimsótt séra Helga hér handan við götuna og fengið að skoða hið góða bókasafn hans.
Eftir að séra Þórir Stephensen hvarf frá störfum hér á Sauðárkróki og varð dómkirkjuprestur í Reykjavík, sótti ég reglulega messu til hans um árabil og síðan sátum við séra Hjálmar Jónsson saman á alþingi, áður en hann varð dómkirkjuprestur.
Þessa ágætu vini leyfi ég mér að nefna hér í upphafi máls míns um leið og ég ítreka heillaóskir til herra Jóns Aðalsteins Baldvinssonar, nývígðs vígslubiskups á Hólum. Hin hátíðlega athöfn í gær staðfesti enn virðuleik og gildi embættis Hólabiskups og megi honum farnast vel í mikilvægu starfi sínu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem ég er við biskupsvígslu á Hólum eða flyt ávarp á prestastefnu hér í Skagafirði. Fyrir tólf árum bauð herra Ólafur Skúlason biskup mér að ræða um kristna trú og hrun kommúnismans, þegar prestar komu saman á Hólum í tengslum við biskupsvígslu herra Bolla Gústafssonar.
Mikið vatn er síðan til sjávar runnið og margt hefur breyst á þeim árum, sem síðan eru liðin, bæði í samskiptum ríkis og kirkju hér á Íslandi og þegar litið er til hinna stóru heimsmála.
Mér er minnisstætt, að það þótti nokkur nýlunda, að við Páll Skúlason prófessor skyldum fengnir til að taka þátt í umræðunum með ykkur prestunum. Báðir beindum við augum okkar, að hinu sögulega og menningarlega gildi kristninnar, hvort heldur litið væri til okkar eigin þjóðfélags eða þeirra þjóðfélaga, sem voru á þessum árum að brjótast undan oki hins guðlausa kommúnisma.
Við höfum síðan orðið vitni að því, að við hrun einræðisstjórna leysast kraftar sögu og trúarbragða úr læðingi. Spennan, sem þá myndast, leiðir oft til átaka og ófriðar. Skýrasta dæmið um þetta í Evrópu er að finna í Júgóslavíu sem var, þar sem menn telja sig geta rakið upphaf átaka í samtímanum allt aftur á fjórtándu öld, þegar múslímar létu verulega að sér kveða í Evrópu.
Þegar við skilgreinum grunnþættina í sögu ríkis og kirkju hér á landi, förum við einnig aftur í aldir til að finna orðum okkar stað. Er þar nærtækast að staldra við siðaskiptin og örlög herra Jóns Arasonar Hólabiskups og sona hans. Í afdrifum þeirra sameinast trú okkar og saga á einstæðan hátt, svo að vitnað sé í orð Jóns Sigurðssonar forseta:
"Með siðaskiptunum varð harðla mikil breytíng á Íslandi, einsog annarstaðar á Norðurlöndum. Konúngs valdið tók við af klerka valdinu, og á Íslandi réði höfuðsmaðurinn í konúngs nafni því er hann vildi. Það er því ekki um skör fram, að Íslendingar hafa skilið fall Jóns biskups Arasonar og sona hans svo, sem með þeim hefði fallið hinir seinustu Íslendíngar, hin innlenda stjórn liðið undir lok og hin erlenda byrjað."
Þarna var lagður grunnur að því sambandi ríkis og kirkju, sem við þekkjum nú og er staðfest í stjórnarskrá lýðveldisins. Þjóðkirkjan er meðal helstu kennileita íslensks samfélags og hlutur kristni og kirkju í sögu, menntun og menningu þjóðarinnar verður aldrei metinn til fulls.
Á undanförnum tólf árum hefur verið ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til þess sem þingmaður og ráðherra að samþykkja lög um sífellt meira sjálfstæði kirkjunnar. Má fullyrða, að vald íslensku kirkjunnar í eigin málum sé einstætt á sama tíma og henni eru tryggðar samningsbundnar tekjur úr ríkissjóði.
Ætti öllum, sem vilja farsælt og gott samstarf ríkis og kirkju, að vera kappsmál að ljúka gerð samninga milli þessara aðila um prestssetur og uppgjör vegna þeirra og þar með einnig um hlut kirkjunnar á Þingvöllum. Farsæl lausn Þingvallamálsins er mér sérstaklega skyld og hef ég í öllum umræðum um ráðstöfun Þingvallabæjar haldið því til haga, að ekki skuli á óréttmætan hátt gengið á hlut kirkjunnar, þótt ríkisstjórnin nýti bæjarhúsið til frambúðar.
Við hina miklu pólitísku umbyltingu í Evrópu á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar braust fram mikill trúarandi og trúarþörf, þegar heiðin stjórnvöld kommúnistaríkjanna hrökkluðust frá völdum. Umræður vegna þróunar þessara nýfrjálsu þjóðfélaga snúast ekki lengur um þennan þátt. Veraldlegri úrlausnarefni þykja fréttnæmari en frásagnir af þéttsetnum kirkjum eða hlutverki þeirra í baráttunni fyrir auknu frelsi.
Hið sama á almennt við, þegar við leitum fregna af atburðum í öðrum löndum eða hér heima, að stöðu kristni og kirkju ber almennt ekki hátt í fjölmiðlum. Þegar litið er á slíkar fréttir, eru þær því miður síður en svo alltaf til þess fallnar að vekja bjartsýni um stöðu kirkjunnar.
Á dögunum las ég til dæmis viðtal í franska blaðinu le Figaro við Odon Vallet, prófessor í trúarbragðasögu við Sorbonne-háskóla í París, þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir stöðu kristindómsins í heimalandi sínu. Nú væru kristnir í Frakklandi aðeins 2% allra kristinna manna í veröldinni. Í lok 19. aldar hefði Frakkland verið stóra systirin innan kaþólsku kirkjunnar, enda hefðu þar búið flestir kaþólskir í einu landi. Nú væri Frakkland litla systirin í kirkjunni og sjötta fjölmennasta kaþólska landið í heiminum.
Kirkjur í Evrópu væru hálftómar en söfnuðir sprengdu þær utan af sér í Afríku eða Suð-austur Asíu. Í Víetnam þyrftu menn að koma hálftíma fyrir messu til að fá sæti á kirkjubekkjum og víða væru hátalarar við kirkjuveggi til að vegfarendur gætu fylgst með messunni. Prófessorinn kvað fast að orði og sagði: "Kristindómurinn deyr, þar sem hann er gamall, og blómstrar, þar sem hann er nýr. Hann er í hættu á þessum endimörkum jarðar, þar sem við teygjum okkur lengst í vestur."
Mér er ljóst, að undanfarin misseri hefur verið unnið að víðtækri stefnumótun innan þjóðkirkjunnar og meðal annars greindar ógnir í ytra umhverfi hennar. Herra Karl Sigurbjörnsson biskup komst þannig að orði í gærkvöldi að tilgangur umræðna ykkar hér væri sá að hervæðast í þágu kristni á Íslandi. Óska ég ykkur góðs árangurs og heiti liðsinni mínu, ef það má að einhverju gagni verða. Verkefnið er brýnt og mikilvægt.
Hvarvetna takast menn á við þá spurningu, hvernig laga eigi meira en tveggja árþúsunda gamlan boðskap Krists að kröfum þjóðfélaga, þar sem afsiðun setur æ meiri svip á daglegt líf. Í því efni mega tískustraumar ekki gára meira en yfirborðið.
Spyrja má: Ber að líta á umræður hér á landi á dögunum um verslun og viðskipti á hvítasunnudag, sem ógn við kirkjuna? Ef enginn stendur vörð um helgi þessa dags eða heldur málstað hans fram frá trúarlegum sjónarhóli af ótta við að vera gamaldags eða ekki í takt við tíðarandann, hættir hvítasunnudagur auðvitað að verða stofndagur kirkjunnar í huga alls þorra fólks. Vitneskjan um að heilagur andi kom þennan dag yfir lærisveinana virðist einnig mjög á undanhaldi meðal Íslendinga, ef marka má svör, sem gefin voru sjónvarpsfréttamanni vegna umræðnanna um helgidagalöggjöfina.
Í tilefni af ádeilunni út af verslun á hvítasunnudag sagði í leiðara DV á dögunum: "Enn á ný stekkur forneskjan upp úr greni sínu og gerir landsmenn forviða." Út af þessum orðum er síðan lagt á þann veg, að íslenskri þjóðkirkju sé enginn greiði gerður með þessu, hún sé sýnd í aumkunarverðu ljósi og hafi orðið aðhlátursefni margra á síðustu dögum. Alþingi virðist ekki vilja styggja kirkjuna enda sé ríkistrúin algild og samband ríkis og kirkju hafið yfir samband ríkis og almennings. Þeir, sem framfylgja landslögum, eru sagðir virðast leggja áherslu á að afturhaldsseminni verði haldið við í hvívetna. Þá segir: "Það ætti reyndar að vera kirkjunni ærin ráðgáta að naumasti hlutur landsmanna virðist sjá eitthvert samhengi á milli trúrækni og kirkjusóknar enda kirkjur á Íslandi að mestu reistar undir tómlæti landans og andans." Klykkt er út með þessu: "Stutt er frá því að kirkjan og ríkið réð að mestu lífsvenjum fólks á völdum dögum valdsmanna og beinlínis kvaldi fólk til hlýðni og undirgefni. Þessi tími er blessunarlega liðinn í hugum fólks og enn eimir eftir af honum í samlífi ríkis og kirkju. Rök fyrir lokun matvörubúða hurfu með síðustu öld."
Góðir áheyrendur!
Hér er hátt og af mikilli óvild reitt til höggs og langtum fastar að orði kveðið en efni standa til miðað við álitamálið. Á því álitamáli þarf að taka á þeim vettvangi, þar sem helgidagalöggjöfin er rædd.
Mörg ákvæði laga eru vafalaust andstæð því, sem við sjálf kysum, ef hagsmunir okkar einir ættu að ráða. Að ágreiningur um slíkt gefi tilefni þess, að ráðist sé með slíku offorsi gegn þjóðkirkjunni er umhugsunarefni fyrir alla vini kristni og kirkju.
Minnir þessi reiðilestur helst á óskirnar árið 2000 um, að kristnihátíðin færi út um þúfur. "Alþingi og ríkisstjórn Íslands sáu til þess að mikið tilefni nýttist til fullrar sæmdar," skrifaði herra Sigurbjörn Einarsson biskup í Morgunblaðið um kristnihátíðina og stóð fastur fyrir, þótt aðrir hopuðu.
Á sínum tíma var sagt: Hér stend ég og get ekki annað! Of oft vaknar sú spurning, hvort ekki sé nauðsynlegt að endurtaka þá staðfestu í þágu kristni og kirkju. Ekki vegna lokunar matvörubúða heldur til að árétta hlut þess, sem stendur vörð um mikilvæg gildi. Óttafull kirkja í vörn er þverstæða, því að hún er reist á bjargi, - og að bregðast við ögrun með þögn er ekki í anda hins lúterska fordæmis.
Frá Danmörku berast fregnir um vandræði innan kirkjunnar vegna ágreinings um þá ákvörðun biskups að víkja til hliðar presti, sem segist ekki trúa á guð. Lögbundið mun vera, að danskir þjóðkirkjuprestar skuli trúa á hina heilögu þrenningu og þar sem presturinn trúir hvorki á guð í mannsmynd né á upprisu Jesú er talið, að hann fullnægi hvorki kirkjulegum né lögfræðilegum kröfum til presta.
Sumum finnst þó þessar kröfur til presta of strangar. Guðfræðidoktor og prófessor við guðfræðideildina í Árósarháskóla sagði í dönsku dagblaði, að maðurinn gæti vel haldið áfram að vera prestur, þótt hann tryði ekki á guð, hann væri einfaldlega maður framtíðarinnar og í hópi þeirra presta, sem gott væri að fjölga innan þjóðkirkjunnar.
Sé ekki litið á þetta háttalag sem ógn við þjóðkirkju, er líklega erfitt að skilgreina, hvar draga eigi mörk í því efni. Eða eigum við að trúa því, að til að kirkjan nái til framtíðarmannsins verði að falla frá kröfunni um að prestar trúi á guð?
Ég ætla ekki að hætta mér lengra út á braut rökræðna um guðfræðilega þætti. Árétta aðeins þá skoðun mína, að tískustraumar koma ekki í stað þeirra gilda, sem Biblían boðar. Betra er að ávinna sér traust og virðingu með því að standa vörð um þessi gildi en blakta eins og strá í vindi.
Herra Jón Arason og synir hans létu lífið fyrir trú sína og andstöðu við hið erlenda ríkisvald. Minningin um þá lifir með þjóðinni. Við heiðrum hana og minningu allra annarra staðfastra höfðingja á Hólum, þegar vígður er nýr biskup á staðinn og efnt til prestastefnu í tengslum við þann hátíðlega viðburð.
Megi sú prestastefna, sem nú er að hefjast, styrkja innviði kirkjunnar og efla veg kristni á Íslandi.