Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2003 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp ráðherra, á fréttamannafundi 22. september 2003

Ávarp ráðherra


Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur haft aðsetur í Arnarhvoli í 48 ár eða síðan 1955, þegar það flutti úr Túngötu 8, en þar hafði ráðuneytið verið til húsa í nokkur ár. Það eru því mikil tímamót, þegar ráðuneytið fær aðstöðu í þessu ágæta húsi, sem vafalaust mun duga því hálfa þessa öld ef ekki miklu lengur. Ákvörðun um að flytja ráðuneytið hingað var tekin um síðustu áramót. Hefur allur undirbúningur þess gengið vel eins og flutningurinn sjálfur, en segja má, að ekki hafi fallið niður einn starfsdagur vegna hans.

Ráðuneytið er nú til húsa í hjarta Skuggahverfisins við Skuggasund en nafnið er eftir tómthúsbýlinu Skugga, sem var byggt um aldamótin 1800, en komið í eyði um 1845. Skuggi stóð niður við sjó, rétt fyrir austan Klöppina. Um 1840 reis annað kot, Klöpp, vestanvert á Klapparnefinu. Klapparvörin var talin besta vörin í Skuggahverfi og var stundað útræði þaðan. Skuggahverfi byggðist upp af tómthúsmönnum sem byggðu að mestu torfbæi. Steinbæjum fjölgaði undir lok nítjándu aldar. Um 1870 voru aðeins tvö timburhús í Skuggahverfi.

Á sjöunda áratug 19. aldar hófst þilskipaútgerð í Reykjavík, en með henni var lagður grundvöllur að atvinnuuppbyggingu bæjarins. Á síðasta fjórðungi aldarinnar, skútuöldinni, fjölgaði íbúum Reykjavíkur ört og byggðin breyttist. Í stað torfbæja risu steinbæir og timburhús og í lok aldarinnar mynduðust götur í hverfinu. Af þeim götum má nefna Lindargötuna, en hún var lögð fyrst og var hún árið 1910 fjórða fjölmennasta gatan í bænum, en þá bjuggu þar 533 manns. Við Lindargötu stóðu þá 49 hús, 39 timburhús, 6 steinbæir, 3 hlaðin steinhús og einn torfbær.



Björn Bjarnason tekur við lyklum að nýju húsnæði ráðuneytisins úr hendi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
Lindargata dregur nafn sitt að Móakotslind sem var helsta vatnsból í Skuggahverfi. Eftir að taugaveikifaraldur sem kom upp í hverfinu var rakinn til vatnsins í lindinni, var fyllt upp í hana. Kotið Lindarbær sem stóð rétt austan við þar sem nú er Vatnsstígur, dró einnig nafn af lindinni. Klapparstígur dregur nafn sitt af tómthúsbýlinu Klöpp, sem stóð niður við sjó. Ingólfsstræti er nefnt eftir fyrsta landnámsmanninum í Reykjavík, en gatan myndaðist til suðurs frá Laugavegi eftir 1880, þegar Hverfisgata var lengd til vesturs. Skömmu eftir aldamót var Ingólfsstræti lengt til norðurs niður að sjó. Skúlagata var í fyrstunni slóði meðfram sjónum, sem myndaðist að fyrirtækjunum sem þar risu. Járnbrautin sem notuð var til flutninga við hafnargerðina 1913 – 1917 var lögð meðfram sjónum og þegar hlutverki hennar var lokið, voru teinarnir teknir upp , gatan lagfærð og hlaðinn steingarður meðfram sjónum. Á síðustu áratugum hafa síðan miklar landfyllingar verið gerðar þar fyrir framan og strandlínunni þar með stórlega breytt.
Sölvhólsgata er nefnd eftir býlinu Sölvhól, sem stóð rétt fyrir austan það hús, sem í dag hýsir menntamálaráðuneytið.

Í kringum þessa byggð sem hér er fjallað um, var mikið óbyggt land. Var það að mestu í ríkiseign og hafði landshöfðinginn töðu fyrir bústofn sinn af þessum túnum. Þegar nokkuð var liðið á tuttugustu öldina hóf ríkissjóður að byggja yfir stofnanir sínar á svæðinu og hefur sá hluti þess gengið undir nafninu Stjórnarráðsreitur, en Samband íslenskra samvinnufélaga hóf einnig byggingar á svæðinu á öndverðri tuttugustu öld, sem ríkissjóður eignaðist síðar. Á síðustu árum hafa svo nokkur háhýsi risið við Skúlagötuna og enn eru þar stórframkvæmdir í gangi.

Það hús sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið fær nú til umráða er upphaflega byggt af Sambandi íslenskra samvinnufélaga sem prentsmiðju- og skrifstofuhús, þar sem áður stóð kotið Litlaland, sem byggt hafði verið árið 1909. Þórir Baldvinsson arkitekt teiknaði húsið og hann kom einnig að síðari breytingum þess ásamt Árna H.Möller, en húsið var hækkað 1946, og viðbyggingar gerðar við það á því ári og á árinu 1958. Í húsinu hafa m.a. verið ritstjórnarskrifstofur Tímans og prentsmiðjur sem prentuðu blaðið, fyrst prentsmiðjan Acta og síðar prentsmiðjan Edda. Einnig má nefna ýmsar skrifstofur á vegum Sambandsins, skrifstofur Framsóknarflokksins og Tóbakseinkasölu ríkisins sem hér var um skeið.Einnig var hér skrifstofa Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Árið 1990 flutti Hagstofa Íslands í húsið og fékk það þá einkennismerkinguna Skuggasund 3, en áður hafði það verið einkennt bæði sem Lindargata 9a og Lindargata 1d.

Hagstofan flutti síðan úr húsinu um síðustu áramót og var þá ákveðið að dóms- og kirkjumálaráðuneytið flyttist í húsið, jafnframt því sem það yrði að ýmsu leyti endurgert. Menn geta sannfærst um að það verk hefur tekist vel og þess skal getið að fundarsalir hússins hafa fengið nöfn eftir gömlum bæjarnöfnum héðan í hverfinu og einnig að í herbergishurðir hússins hefur á haganlegan hátt verið komið fyrir filmum með áletrunum, sem teknar eru úr fornum lagaritum okkar, Grágás og Jónsbók.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta