Umferðarstofa flytur
Borgartúni 6,
29. desember, 2003.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra
Breytingar á verkaskiptingu ráðuneyta gerast ekki á hverjum degi. Því gerist það ekki heldur oft, að opinberir starfsmenn komi saman af tilefni eins og þessu, þegar ráðuneyti kveður öfluga stofnun og góða starfsmenn hennar.
Umferðarstofa tók til starfa 1. október 2002, þegar Skráningarstofan ehf. og Umferðarráð voru sameinuð auk þess sem flutt voru verkefni til stofunnar frá dómsmálaráðuneytinu. Markmiðið var að auka skilvirkni og stuðla að árangursríkari stjórnsýslu á sviði umferðarmála. Enn er verið að stíga skref í sama tilgangi með því að færa Umferðarstofu frá dómsmálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins.
Alþingi samþykkti einum rómi hinn 12. desember síðastliðinn einfalt en skýrt frumvarp um breytingu á umferðarlögunum, flutt af forsætisráðherra, þar sem segir:
1. gr.
Í stað orðsins „Dómsmálaráðherra" í 2. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (með hástaf eða lágstaf eftir atvikum): Ráðherra.
2. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.
Í greinargerð með frumvarpinu segir:
„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera þá breytingu á verkaskiptingu ráðuneyta að flytja mál er varða umferð og eftirlit með ökutækjum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins. Í því felst að eftirlit með framkvæmd umferðarlaga og yfirstjórn Umferðarstofu mun framvegis heyra undir samgönguráðuneytið. Þó munu mál er varða fébætur og vátryggingu skv. XIII. kafla umferðarlaga heyra undir viðskiptaráðuneytið, enda fer það ráðuneyti með mál er varða vátryggingar að öðru leyti.
Mál er varða öryggi í samgöngum í lofti og á legi heyra nú þegar að meginstefnu til undir samgönguráðuneytið. Flutningur umferðarmála til samgönguráðuneytisins er því í rökréttu samræmi við þessa skipan mála í öðrum greinum samgangna. Þá er við því að búast að samlegðaráhrif af sameiginlegri yfirstjórn Vegagerðar og Umferðarstofu muni þegar fram líða tímar geta skilað sér í auknum árangri og betri þjónustu.
Í mörgum þeirra ríkja, sem stjórnvöld eiga hvað mest samstarf við, heyra umferðarmál undir það ráðuneyti sem ábyrgð ber á vegamálum. Yfirleitt eru það samgönguráðuneyti viðkomandi ríkja. Einnig hagkvæmni í alþjóðlegu samstarfi í samgöngumálum mælir því með að umferðarmál heyri undir samgönguráðuneytið.
Tekið skal fram að afskipti lögreglu vegna brota á umferðarlögum og slysa í umferðinni breytast ekki, né heldur rannsókn og saksókn í slíkum málum."
Í greinargerðinni með frumvarpinu segir einnig, að verði það að lögum skuli yfirstjórn umferðarmála ákveðin með reglugerð um Stjórnarráð Íslands og breytist hún á þann veg 1. janúar 2004, að umferð og eftirlit með ökutækjum færist undir samgönguráðuneyti og fébætur og vátryggingar ökutækja undir viðskiptaráðuneyti úr dómsmálaráðuneytinu.
Ágætu áheyrendur!
Eins og áður sagði komum við hér saman í dag vegna þessara sögulegu breytinga. Hvorki innan ríkisstjórnar né á alþingi var ágreiningur um málið og rann það ljúflega fram, eftir að við samgönguráðherra komum okkur saman um að gera tillögu um þessa breytingu á verkaskiptingu milli ráðuneytanna. Frá fyrsta degi hefur upplýsingum um málið verið miðlað til stjórnenda Umferðarstofu og þakka ég þeim og starfsfólki öllu góð viðbrögð.
Ég segi sögulegu breytinga, því að hinn 1. febrúar næstkomandi verða 100 ár liðin frá því að stjórnarráðið og þar með einnig dóms- og kirkjumálaráðuneytið kom til sögunnar og tók að sér það verkefni að sinna umferðarmálum. Þau voru annars eðlis á þeim tíma en nú á þessum tímamótum, þegar bifreiðaeign í landinu er orðin með því sem mest gerist í veröldinni og sífellt ríkari kröfur eru gerðar til umferðaröryggismála.
Raunar verða hinn 20. júní 2004 eitt hundrað ár liðin frá því að fyrsta bifreiðin eða mótórvagninn eins og sagt var 1904 kom til landsins. Eftir nokkrar deilur samþykkti alþingi að veita konsúl Ditlev Thomsen 2000 króna styrk til þess að útvega frá útlöndum mótorvagn og reyna hann á akvegum hér.
Tilraunin tókst ekki vel enda þótti bíllinn frekar lélegur. Fyrsta auglýsingin um almenningssamgöngur birtist í Vísi í júlí 1913 en þar kynnti Sveinn Oddsson, að hann ætlaði það sem eftir lifði sumars að halda uppi bifreiðarferðum fyrir almenning um alla vegu sunnanlands, sem færir væru, því að vegir hér væru síst verri en vegir þeir vestan hafs, sem farnir væru á bifreiðum, þótt hinu gagnstæða hefði verið haldið fram!
Samkvæmt auglýsingunni virðist árið 1913 hafa mátt aka bíl um 95 km í austur frá Reykjavík um Kambana, einnig til Þingvalla (50 km) og ekið hafi verið um 50 km suður með sjó. Vegakerfið út frá Reykjavík hefur fyrir 90 árum þannig verið um það bil 200 kílómetrar.
Í ævisögu Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, sem kom út núna fyrir jólin segir höfundurinn Jakob F. Ásgeirsson frá því, að mörgum hafi þótt furðulegt, að sjá þá Valtý og Ólaf Thors leggja af stað í kosningaleiðangur sumarið 1929 norður í land til Akureyrar án þess að vera reiðbúnir. Þeir héldu sjóleiðis fyrsta áfangann en akandi frá Hrútafirði. Vitnar Jakob í lýsingu Valtýs á því, hve miklu betra sé að vera í bíl en á hesti. Valtýr segir:
„Bílferð eftir sæmilegum vegum er eitthvað annað. Þá eru ferðamenn frjálsir og óháðir, óháðir veðri, geta haldið áfram nótt og dag, þotið hundrað kílómetra milli mála, eru alltaf ferðbúnir, þurfa hvorki dúður né tjasl né sækja hesta, leggja á, spenna og reyra og bíða eftir Pétri og Páli, fram eftir öllum dögum. Og einmitt vegna allra þessara þæginda og vegna þess að bílflutningar eru að jafnaði ódýrari en hestaflutningar, þegar mikið er að flytja í einu, þá ryðja bílarnir sér til rúms hvar sem þeim verður við komið."
Síðan Valtýr ritaði þessi orð hefur breytingin í samgöngumálum þjóðarinnar verið mikil og ör. Árið 1930 voru 1434 bifreiðar skráðar í landinu en 183 698 árið 2002. Sé litið hálfa öld aftur í tímann voru tæplega 24 íbúar á bak við hvern fólksbíl árið 1952 en aðeins tæplega 2 íbúar árið 2002. Hinn 1. janúar á þessu ári voru þjóðvegir landsins alls 12.973 km.
Þessar tölur endurspegla gífurlega breytingu á íslensku þjóðfélagi og hefur mikilvægi umferðarmála og umræðna um þau vaxið í réttu hlutfalli við bifreiðaeignina. Innan dómsmálaráðuneytisins og undir handarjaðri þess hefur í áranna rás verið lagður traustur grunnur að laga- og regluverki um þennan sívaxandi þátt þjóðlífsins auk öflugrar stjórnsýslu.
Þegar ráðuneytið afsalar sér yfirstjórn umferðarmála er gildi starfa ykkar, sem sinnið stjórnsýslu, fræðslu og aðgæslu í umferðinni, meira en nokkru sinni. Jafnframt er ljóst, að þarfasti þjónn nútímafjölskyldunnar á sér óvildarmenn, sem vilja lítið leggja á sig fyrir velgengni hans og lifa í þeirri trú, að unnt sé að venja okkur af því að nota einkabílinn. Kannski verða einhverjir til að minnast með söknuði 100 ára afmælis síðasta bíllausa dagsins á Íslandi 19. júní 2004?
Dómsmálaráðuneytið kveður ykkur með þökk og virðingu fyrir störfum ykkar í vissu þess, að hin nýja skipan á yfirstjórn þessara mála sé tímabær í ljósi hinna miklu breytinga í samgöngumálum. Megi ykkur farnast vel á nýjum vettvangi innan stjórnarráðsins!