Ávarp ráðherra á ráðstefnu SAFT á Íslandi og Heimilis og skóla um örugga netnotkun barna
Ávarp á ráðstefnu SAFT á Íslandi
og Heimilis og skóla um örugga netnotkun barna.
Borgarleikhúsinu,
6. febrúar, 2004.
Það er tímabært, að efnt sé til þessarar ráðstefnu um rétt barna til öryggis á Netinu. Við eigum auðvitað öll rétt til til öryggis á Netinu – en börn eru varnarlausari gagnvart því, sem þar er að finna, en við hin eldri og þess vegna er eðlilegt að koma saman til að ræða stöðu þeirra sérstaklega.
Ég hef haldið úti eigin vefsíðu í meira en níu ár og átt tölvusamskipti við þúsundir manna á þeim tíma, bæði unga og gamla. Í störfum mínum sem menntamálaráðherra lagði ég áherslu á að tryggja aðgang sem flestra skóla, nemenda og kennara að Netinu. Varð árangur af því starfi öllu mun meiri og örari en mig gat nokkru sinni grunað, þegar lagt var af stað.
Á örfáum árum varð hér til rafrænt menntakerfi, sem enn vex og dafnar. Fjarnám er algengara hér en í flestum löndum. Aðgangur að hvers kyns gagnagrunnum, námsefni og öðru þroskandi efni er auðveldur og almennur, því að ekkert land stenst okkur snúning, þegar um aðgengi að Netinu er að ræða.
Um þessa kosti Netsins til samskipta og öflunar upplýsinga þarf ekki að orðlengja. Við þekkjum þá öll en vitum líka, ekkert er svo með öllu gott, að ekki boði eitthvað illt. Netið hefur reynst vettvangur fyrir miður góðar athafnir misjafnra manna, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Þar má nefna dreifingu kláms, útbreiðslu fordóma af ýmsu tagi, ærumeiðingar og viðleitni til að blekkja eða draga fólk á tálar.
Eins og við var að búast endurspeglar Netið ekki aðeins hið besta í fari manna heldur einnig hið versta. Allt, sem finnst í samfélaginu, bæði gott og illt, er einnig á Netinu og þar er auðveldara að koma því á framfæri en með nokkrum öðrum miðli. Unnt er að kaupa milljónir netfanga fyrir fáeina tugi króna og nota þau til að senda eitthvað á hraða ljóssins til allra heimshorna.
Tæknilegu varnarkerfin gegn því að ruðst sé inn á tölvu manns með slíkum aðgerðum eru alltaf að verða öflugri. Er ástæða til að vekja rækilega athygli á þeim tæknilegu síum, sem unnt er að nota til að verja einkalíf sitt og sinna gegn slíkri ásókn. Skólar hafa gripið til öflugra úrræða í þessum efnum til að tryggja öryggi nemenda sinna. Heimilin geta einnig varist með þessum hætti.
Í íslenskri löggjöf eru úrræði til að sporna við að Netið sé notað í ólögmætum tilgangi. Ekki hafa verið sett nein ein lög um allt, sem birtist eða fer fram á Netinu, heldur gilda öll lög samfélagsins jafnt um þá háttsemi sem aðra. Þannig gilda sömu refsiákvæði um birtingu og dreifingu kláms á Netinu og um birtingu og dreifingu þess með öðrum hætti.
Samkvæmt 210. gr. almennra hegningarlaga getur varðað sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum að birta, búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum. Ef slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan hátt getur refsing þó varðað allt að 2 árum. Þessi lagagrein nær til þess að dreifa klámi á Netinu eða á annan rafrænan hátt.
Hvað varðar ábyrgð þeirra sem hýsa efni hér á landi gilda lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu nr. 30/2002. Samkvæmt þeim lögum bera þeir sem hýsa barnaklámefni ekki ábyrgð á því, svo framarlega sem þeir fjarlægja efnið eða hindra aðgang að því um leið og þeir fá vitneskju um það. Geri þeir það ekki eru þeir ábyrgir fyrir vörslu efnisins.
Sumir vilja ganga lengra en þetta og gera þá, sem reka netþjóna ábyrga fyrir því, sem er að finna undir handarjaðri þeirra. Þeim sé gert skylt að eyða eða stöðva frekari útbreiðslu á ákveðnu efni, þar á meðal barnaklámi. Við setningu slíkra ákvæða er óhjákvæmilegt að taka tillit til evrópskra reglna og hljótið þið, sem standið að þessari ráðstefnu, að hafa kynnst umræðum um slíkar takmarkanir og lögmæti þeirra í Evrópustarfi ykkar.
Eitt er að setja reglur með landslögum og grípa til aðgerða gegn heimamönnum – annað að ná til þeirra, sem misnota frelsi Netsins á fjarlægum stöðum og senda ólögmætt efni þaðan. Til að tryggja friðhelgi borgara sinna sem best hafa mörg ríki heims brugðist við með sameiginlegu átaki og gripið til fjölþjóðlegra aðgerða gegn misnotkun Netsins. Í þessu sambandi má nefna aukna lögreglusamvinnu milli landa en bæði EUROPOL og INTERPOL, sem Ísland á aðild að, beita sér fyrir baráttu gegn misnotkun Netsins í ólögmætum tilgangi.
Þá vil ég sérstaklega nefna Evrópuráðssamninginn um tölvuglæpi eða „Convention on Cyber Crime" frá árinu 2001. Samningurinn, sem fulltrúi Íslands undirritaði um leið og hann var lagður fram til undirritunar, tekur annars vegar til atriða sem tengjast uppbyggingu og gerð veraldarvefsins og hins vegar til þess efnis sem þar er að finna. Meðal annars er þar sérstaklega fjallað um barnaklám og skylda lögð á aðildarríkin að banna birtingu barnakláms á netinu. Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að nauðsynlegri undirbúningsvinnu til að unnt sé að fullgilda samninginn.
Þrátt fyrir samstöðu ríkja um að berjast gegn því að Netið sé notað til að fremja afbrot er löggjöf einstakra ríkja æði mismunandi og það sem telst refsivert brot í einu ríki er það ekki í öðru. Svo er því til dæmis háttað með klám. Stór hluti þess klámefnis sem finnst á Netinu kemur frá ríkjum, þar sem slíkt efni telst löglegt og því ekki refsivert að setja upp slík vefsvæði. Flest ríki heims hafa þó bannað barnaklám.
Eins og áður sagði skiptir viðbúnaðurinn við hverja einstaka tölvu raunar mestu. Hvaða síur er unnt að setja á tölvuna? Hvernig er unnt að nota þær til varnar?
Hér á ráðstefnunni á að leggja fram niðurstöður í tveimur könnunum, þar sem leitað hefur verið eftir viðhorfum foreldra og barna til þess, hvað börn eru á gera á Netinu. Ég veit ekki um niðurstöðu þessara kannana en ég minnist könnunar á vegum SAFT, sem kynnt var í maí á síðasta ári.
Þar kom fram, að öll íslensk börn á aldrinum 9 til 16 ára hafa notað tölvur. Rúmlega helmingur þeirra segist hafa haft tækifæri til að vafra á Netinu án vitundar foreldra sinna. Börnin segja foreldrum sínum sjaldan frá reynslu sinni á Netinu. Börnin segjast einnig vita meira um Netið en foreldrar þeirra. 87% foreldra sögðust sitja hjá börnum sínum þegar þau væru að vafra um Netið, en einungis um 22% barna upplifðu að svo væri.
Þessar tölur segja okkur, að það er verk að vinna, sé markmiðið að efla samskipti foreldra og barna við notkun Netsins, tryggja að foreldrar veiti börnum sínum sem besta leiðsögn á þessu nýja sviði mannlegra samskipta. Réttur barna til öryggis á Netinu byggist ekki aðeins á lagaákvæðum eða viðbrögðum þegar gegn þeim er brotið – heldur einnig á því öryggi, sem umhverfi þess tryggir því, heimili og skóli.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun stefnu um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2004-2007. Þar er fjallað um tækifæri, ábyrgð öryggi og lífsgæði í krafti upplýsingatækninnar. Í þessu stefnuskjali ríkisstjórnarinnar segir meðal annars:
"Foreldrar standa frammi fyrir því að með nýjum samskiptamiðlum hafa börn nú nánast óheftan aðgang að upplýsingum og ýmsu efni inni á heimilum sínum eða hvar sem er. Þetta felur bæði í sér gífurlega möguleika til að þroskast og menntast en einnig ýmislegt sem ber að varast. Foreldrar og skólar þurfa að bregðast við nýjum aðstæðum og axla ábyrgð á tölvu-, Net- og símanotkun barna sinna". Og ríkisstjórnin hefur ákveðið að menntamálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti skuli huga sérstaklega að velferð barna á þessum breytingatímum. Foreldrar og skólar verði hvattir til að axla ábyrgð á tölvu-, Net- og símanotkun barna sinna sem eru að feta sig áfram í flóknu upplýsingasamfélagi.
Góðir gestir.
Eins og ég sagði í upphafi máls míns hef ég verið virkur netverji í tæpan áratug mér til mikils gagns og ánægju. Ég hef starfað í umhverfi, þar sem mér hefur gefist kostur á að vera í miklu tölvusambandi við börn og unglinga í íslenskum skólum. Það heyrir til algjörra undantekninga, að þessi tölvutengsl mín hafi verið misnotuð á einn eða annan hátt af þessu unga fólki – þvert á móti dáist ég oft af því, hvernig þau nota þennan nýja áhrifaríka miðil til samskipta og til að sýna hvað í þeim býr.
Ég hef nær einvörðungu kynnst hinni björtu hlið á notkun Netsins og reynt að haga samskiptum mínum þannig að ég sé ekki að ganga á rétt neins. Ég hef einnig oftar en einu sinni fundið að því, þegar einstaklingar eða skoðanir þeirra eru lagðar í einelti af nafnlausum notendum Netsins, sem vega úr launsátri. Enn verri eru þó þeir, sem vega að blygðunarkennd manna og þó sérstaklega barna eða nýta sér opin hug þeirra og varnarleysi á ósæmilegan hátt.
Við eigum hiklaust að ræða kosti og galla Netsins. Hlutur þess á vafalaust enn eftir að vaxa og nauðsynlegt er að gera sér sem gleggsta grein fyrir öllu, sem það býður, eins og því, sem þar þarf að varast. Ég vil því óska SAFT á Íslandi og Heimili og skóla til hamingju með þetta mikilvæga framtak í vissu þess, að það mun skila góðum árangri.