Ávarp ráðherra við vígslu Björgunarmiðstöðvarinnar Skógarhlíðar.
Mér er það ánægja að ávarpa ykkur við vígslu Björgunarmiðstöðvarinnar Skógarhlíðar og fagna því nafni, sem Jón Gunnarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hefur hér lýst.
Ég vil einnig að láta í ljós ánægju með hið góða samstarf, sem hér hefur tekist með ríki, sveitarfélögum og sjálfboðnum björgunarmönnum um uppbyggingu þessarar veglegu aðstöðu.
Þá er mér þakklæti í huga til allra, sem hafa komið að því, að þessi einstæða miðstöð kemur til sögunnar. Ég segi einstæða, því að hvarvetna er að því stefnt að sameina sem best krafta þeirra, sem helga sig því góða starfi að tryggja öryggi meðborgara sinna. Hér á þessum stað hefur það tekist á þann veg, að til fyrirmyndar er á heimsvísu.
Þetta markmið næst ekki nema með góðri samvinnu um leiðir að því og umgjörð við hæfi. Við stöndum í þeim sporum í dag, að hafa náð þessum áfanga.
Stjórnvöld leggja mikla áherslu á öryggi borgaranna og hafa raunar vart brýnna hlutverk en að gæta að því. Við viljum að hver og einn fái lifað því lífi sem hann helst kýs og geti verið öruggur um sig og sína, um líf sitt og eignir. Þar hefur hins vegar alltaf verið margs að gæta eins og við vitum. Íslendingar hafa alla tíð þurft að hafa vara á sér, náttúrunnar vegna, og aldrei kemur sá dagur að okkur sé óhætt að láta eins og hún hefði ekki í fullu tré við okkur ef í það færi. Og þó ekki væri við önnur en okkur sjálf að eiga, þá þarf jafnan að fara með gát.
Slys verða í daglegu lífi okkar og þarf ekki að segja neinum sem hér er staddur hversu miklu skiptir að þá sé brugðist bæði rétt og hratt við. Nú eru auk þess komnir þeir tímar að við þurfum að glíma við hættur og jafnvel hörmungar sem menn valda með vilja og til þess að gera fullu viti. Það að stjórnvöld og hinn almenni borgari séu vakandi og gæti að öryggismálum hefur því sjaldan verið mikilvægara en nú, hversu þægilegt sem það kann nú að vera að hugsa til þess. Ekki er samt ástæða til að ganga of langt í viðbúnaði og má í því sambandi minna á að eitt sinn sá ágætt félag ástæðu til að senda frá sér áskorun til fólks um að vera "vel á verði gagnvart móðurmálinu" - og er það Íslandsmet í varkárni.
Sú glæsilega aðstaða sem við tökum formlega í notkun í dag er til þess fallin að tryggja öryggi borgaranna verði betur en áður. Vitaskuld er ekki svo að skilja að hingað til hafi ekki allir þeir aðilar er hér koma saman lagt sig fram um að sinna sínu hlutverki. Nú eru þeir hins vegar komnir á sama stað og á það að bæta mjög samvinnu og samskipti og stytta allar boðleiðir sem miklu getur skipt á örlagastundu, eins og þeir vita sjálfsagt betur en ég.
Við samgönguráðherra rituðum í morgun undir samkomulag vegna vaktsöðvar siglinga en daglegur rekstur hennar verður hér í þessu húsi og jafnframt er að því stefnt, að höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar flytjist hingað.
Þess er að geta að unnið er að uppsetningu varastöðvar fyrir almannavarnir, fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og Neyðarlínuna. Sú varastöð verður á Akureyri og mun hún geta þjónað viðbragðssveitum þar nyrðra auk þess sem henni er ætlað að geta sinnt öllu landinu, ef atvik verða svo að það verður ekki gert héðan.
Góðir áheyrendur.
Ég fagna þessum áfanga í öryggismálum borgaranna. Þeim málum verður sífellt að sinna af kostgæfni og þar geta mistök orðið bæði dýr og sár. Ég treysti því að með þessari stöð sé stigið heillaskref og vona að gifta verði yfir þeim mikilvægu störfum sem hér verða unnin.