Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. janúar 2005 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Markmið, árangur og mat, ræða dómsmálaráðherra á fundi forstöðumanna.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið efndi í fyrsta sinn til sameiginlegs fundar með forstöðumönnum stofnana sinna að hótel Nordica fimmtudaginn 27. janúar. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, setti fundinn með ræðu.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið efndi í fyrsta sinn til sameiginlegs fundar með forstöðumönnum stofnana sinna að hótel Nordica fimmtudaginn 27. janúar. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, setti fundinn með ræðu. Þorsteinn Helgi Steinarsson kynnti átaksverkefni ráðuneytisins í upplýsinga- og fjárskiptatækni, Stefán Eiríksson kynnti skýrslu verkefnisstjórnar um nýskipan lögreglumála, Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, kynnti stjórnendanám skólans, Valtýr Sigurðsson, forstjóri Fangelsismálastjórnar ríkisins, kynnti vinnu við stefnumótun stofnunarinnar og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sýslumaður á Ísafirði, gerði grein fyrir stefnumörkun embættisins. Með pallborðsumræðum ráðherra, Ástríðar Grímsdóttur, sýslumanns í Ólafsfirði, Helga I. Jónssonar, dómsstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, Hildar Dungal, forstjóra Útlendingastofnunar, og Rúnars Guðjónssonar, sýslumanns í Reykjavík, lauk fundinum. Þorsteinn Geirsson, ráðuneytissjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, stjórnaði fundinum. Hér birtist ræða dóms- og kirkjumálaráðherra á fundinum

Forstöðumannafundur
27. janúar, 2005.

Ég býð ykkur velkomin til þessa fyrsta fundar forstöðumanna stofnana á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Ég fagna því, hve margir sækja fundinn, og vona, að við eigum hér gagnlegar stundir saman og verðum nokkru fróðari að þeim loknum.

Ráðherra og embættismenn ráðuneytisins hafa vissulega um langt árabil átt þess kost að hitta sýslumenn og dómara á fundum, flytja langar ræður og hlýða á umræður, en ráðuneytið hefur ekki áður sjálft átt frumkvæði að fundi sem þessum og ákveðið dagskrá hans.

Hugmyndin að fundinum er í sjálfu sér ekki nýstárleg á tímum, þegar lögð er áhersla á að miðlun upplýsinga og hvers kyns samhæfing við stjórn stofnana og fyrirtækja sé besta leiðin til árangurs. Nú eftir að hugmyndin er komin til framkvæmda er ég hins vegar viss um, að fundir sem þessir verða taldir sjálfsagðir, öllum til fróðleiks og ávinnings.

Til fundarins er boðað með fullri og lögbundinni virðingu fyrir sjálfstæði hinna öflugu og mikilsvirtu stofnana, sem starfa undir handarjaðri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Tilgangur ráðuneytisins er síður en svo og alls ekki að hlutast til um eða segja fyrir um niðurstöðu dómstóla, meðferð ákæruvalds eða rannsóknir lögreglu, svo að dæmi séu tekin.

Markmiðið er að ræða umgjörð og aðferðir til að auðvelda einstökum stofnunum að einbeita sér að mikilvægum verkefnum sínum og hvetja til umræðna með þátttöku sem flestra um það, sem betur má fara og er í höndum ráðuneytisins.

Á vettvangi sem þessum er ráðuneytinu unnt að miðla upplýsingum um stefnu sína á ýmsum sviðum, skýra frá stöðu einstakra verkefna, stórra eða smárra. Þá er mikils virði, að tóm gefist til að skiptast á skoðunum um einstök viðfangsefni og fræðast hvert af öðru.

Þegar tekist er á við margbrotin, flókin og viðkvæm úrlausnarefni, er nauðsynlegt að geta stundum horfið frá dæguramstrinu og fengið tóm til að íhuga og endurmeta, bera saman bækur og ráða saman ráðum um hvað helst sé til bóta og framfara. Sú líking er stundum notuð, að menn bregði sér af dansgólfinu upp á svalir, til að átta sig á því, hvað er í raun að gerast á gólfinu.

*

Allir, sem boðaðir eru til þessa fundar, gegna leiðtogastöðu. Við erum líka öll með lögfræðimenntun frá sama háskóla að baki.

Þegar ég var í lagadeildinni var ekki lögð nein áhersla á það í kennslu eða þjálfun, að búa nemendur undir að stýra eða bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri embætta eða stofnana. Menntunin fólst í því að gera nemendum kleift að tileinka sér hinn júridíska þankagang og glíma við fræðileg úrlausnarefni. Til að öðlast ákveðin starfsréttindi þurftu þeir síðan annað hvort að starfa í tilskilin tíma hjá opinberum vinnuveitanda eða þreyta sérstök starfsréttindapróf til málflutnings.

Ég held, að áherslur séu svipaðar enn þann dag í dag. Starfsumhverfi opinberra stjórnenda hefur hins vegar gjörbreyst. Ákvörðunum forstöðumanna um starfsmannamál og ráðstöfun fjármuna til einstakra verkefna er ekki lengur stýrt úr ráðuneytinu með dagsskipunum. Nú er ætlast til þess, að forstöðumenn fari með vald til ákvarðana um innri þætti stofnunar innan þess ramma, sem ráðuneyti setur honum með almennum reglum, erindisbréfi eða á grundvelli árangursstjórnunarsamnings.

Nýlega hitti ég forstöðumann ríkisstofnunar, sem hafði áður stundað verslun og viðskipti. Ég spurði hann, hvernig honum þættu vistaskiptin, hvað hefði komið honum mest á óvart við að hefja störf hjá hinu opinbera. Hann svaraði, að vissulega hefðu þetta verið viðbrigði, en honum hefði komið mest á óvart, hve virkt og kröfuhart hið opinbera kerfi væri á marga lund og einnig hitt, hve mikil áhersla væri á það lögð að gefa mönnum færi á að sækja endurmenntun og fylgjast með stefnum og straumum til að geta sífellt betur tekist á við dagleg verkefni. Sagðist hann vera mjög sáttur við starfsumhverfi sitt að þessu leyti.

Þessi forstöðumaður starfar ekki á vettvangi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, en ég er viss um, að hið sama á við ykkur forstöðumenn hér á þessum fundi, að tækifærin, sem þið hafið til að bæta við þekkingu ykkar og þjálfun til stjórnunarstarfa eru í raun fleiri en unnt er að nýta.

Ég veit, að margir í ykkar hópi hafið nýtt ykkur stjórnunarnám á vegum Lögregluskóla ríkisins. Þá er mér einnig kunnugt um, að nokkrir forstöðumenn hér á þessum fundi auk starfsmanna á málefnasviði ráðuneytisins eru í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu. Það er bæði ánægjulegt og lofsvert, að menn leggi á sig að fara að nýju á skólabekk með fullri vinnu.

Raunar þurfum við öll að verja töluverðum tíma næstum daglega til að átta okkur á breytingum og hvernig við ætlum að bregðast við þeim. Ef við gefum okkur ekki þennan tíma eða óttumst ný tæki eða starfsaðferðir, getum við einfaldlega dregist aftur úr eða hreinlega dagað uppi.

Lögfræðimenntunin veitir okkur öryggi til að leysa einstök viðfangsefni, sem við er að glíma. Hún auðveldar okkur skilning á lögum og reglum stjórnsýslunnar. En lögfræðimenntunin tryggir ekki endilega, að okkur farist það vel úr hendi að stjórna ráðuneyti eða stofnun. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að hinn lögfræðilegi grunnur sé mjög vel til þess fallinn að gera leiðtoga að góðum leiðtoga – færni hans ræðst mjög af því að átta sig á gildi reglna og sanngjarnri framkvæmd þeirra í samvinnu og samskiptum við aðra.

*

Á grundvelli tillagna nefndar fjármálaráðherra frá 1996 ákvað ríkisstjórnin að hefja nýskipan í ríkisrekstri með því að færa vald og ábyrgð til stjórnenda ríkisstofnana og laga starfsaðstæður þeirra sem mest að aðstæðum stjórnenda einkafyrirtækja. Undir merkjum árangursstjórnunar hafa kröfur um árangur í starfi stofnana verið auknar, stofnunum hafa verið sett skýrari markmið en áður og þeim gert skylt að gera grein fyrir því, hvernig til hefur tekist. Framkvæmd þessarar stefnu setur sífellt meiri svip á samband ráðuneyta og stofnana.

Í árangursstjórnun felst meðal annars, að gerðir eru rammasamningar milli stofnana og hlutaðeigandi ráðuneyta, sem skapa stofnunum nauðsynleg skilyrði til að skipuleggja rekstur sinn til lengri tíma. Gerðar eru áætlanir til langs og skamms tíma, þar sem fram koma meðal annars markmið og forgangsröðun verkefna. Sett eru mælanleg markmið til að nota við stjórnun og mat á árangri. Stofnanir gefa út ársskýrslur, árangur er metinn og hvatt til að gera betur, þar sem þess er þörf.

Árangursstjórnun byggist á þeirri hugmynd að stjórnun sé ferli og að í öllum rekstri sé um að ræða orsakasamhengi, sem sé háð áhrifavaldi stjórnenda. Árangur ráðist með öðrum orðum ekki af tilviljunum heldur markvissum aðgerðum.

Gott samstarf og traust milli ráðuneyta og stofnana er lykilþáttur í því að markmið árangursstjórnunar náist í ríkisrekstri. Hér er um samning að ræða og ráðuneyti og stofnanir verða því að taka höndum saman og vinna markvisst að því, að stjórnað sé til árangurs, að stofnanir gegni lögbundnu hlutverki sínu og stefna stjórnvalda á hverjum tíma nái fram að ganga.

Tilgangur og skylda ráðuneytis með gerð árangursstjórnunarsamninga er að gefa stofnunum veganesti til langtímastefnu og setja starfseminni mælanleg markmið. Þá ber ráðuneyti að fara yfir skýrslur stofnana og nota þær við töku ákvarðana um málefni stofnunar.

*

Ég er hlynntur því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið geri árangursstjórnunarsamninga og fylgi þeim markvisst eftir. Innan ráðuneytisins er unnið að gerð slíkra samninga við undirstofnanir þess aðrar en dómstóla, ríkissaksóknara og persónuvernd, sem njóta sérstöðu lögum samkvæmt. Ég hef ritað undir árangursstjórnunarsamninga við 16 sýslumannsembætti og af þeim hafa sex skilað langtímaáætlun á grundvelli samningsins.

Ber að skoða samningsgerðina í tengslum við þann kjarnaþátt í samskiptum ráðuneyta og stofnana, sem er að finna í reglum og reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana, sem nú er númer 106/2004. Þar segir, að í samræmi við áherslur og markmiðssetningu um árangursstjórnun, beri forstöðumenn ábyrgð á gerð langtímaáætlunar stofnunar, ársáætlunar og ársskýrslu. Langtímaáætlunin skuli endurspegla stefnumörkun og megináherslur starfseminnar. Ráðuneyti beri skylda til að taka afstöðu til langtímaáætlunar stofnana. Ársáætlunin skuli rúmast innan fjárheimilda auk þess að tilgreina einstök markmið og mælikvarða á árangur í starfi stofnunar. Í ársskýrslu skuli koma fram samanburður á útgjöldum og fjárheimildum, auk talnalegs samanburðar á markmiðum ársins og útkomu.

Að mínu mati er fjármálastjórn stofnana á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til fyrirmyndar, en ég hef lagt áherslu á skjót og markviss viðbrögð, ef eitthvað virðist fara úr skorðum. Ég vona, að forstöðumenn séu sammála mér um metnað ráðuneytisins í þessu efni og vönduð vinnubrögð í samræmi við settar reglur.

*

Ég hef átt þess kost að heimsækja margar stofnanir ráðuneytisins og af þeim ferðum dreg ég þá ályktun, að almennt sé mjög vel búið að húsakosti og ytri aðstöðu allri.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, að almennt séð hafi vel tekist við að tryggja stofnunum ráðuneytisins fjármuni til að sinna verkefnum sínum. Fyrir ári þótti dómstólaráði þrengt um of að fjárhag héraðsdómstólanna en úr því rættist með aukafjárveitingu, þegar leið á árið.

Þá dreg ég þá ályktun af viðhorfskönnunum, að stofnanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins njóti almennt trausts og virðingar í þjóðfélaginu.

*

Þegar leitast er við að meta, hvaða þættir í starfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins eða stofnana þess eru helst undir smásjá eða sæta gagnrýni, má nota ýmis mælitæki.

Fréttir eða umræður í fjölmiðlum gefa mikilvæga vísbendingu. Ég hef hins vegar ekki gert marktæka úttekt á því, hvað þar ber hæst, en ljóst er, að núverandi ritstjórnarstefna DV, svo að dæmi sé tekið, hefur að markmiði að segja sem mest frá viðfangsefnum á vettvangi dómstóla, lögreglu og fangelsismálastofnunar auk þess sem málefni útlendinga vekja einnig áhuga blaðsins.

Þingmenn endurspegla oft gagnrýnisraddir með fyrirspurnum sínum til ráðherra. Á því þingi, sem nú situr, hef ég skriflega svarað spurningum um konur í fangelsi, afplánun eldri fanga, afplánunaráætlun fanga, árangurslaus fjárnám, umferðasektir, sektakerfi lögreglunnar, handlagningu fíkniefna og starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Ég ætla ekki að rekja hér, hverju ég svaraði hverri spurningu, en þegar litið er á spurningarnar í heild, er ástæða að geta þess, að unnið er að setningu nýrra laga eða breytingu á lögum varðandi þær allar nema þrjár.

*

Allsherjarnefnd alþingis hefur nú frumvarp til laga um fullnustu refsinga til meðferðar. Fyrir ári ákvað ég að kalla frumvarp um sama efni til baka, eftir að nefndinni höfðu borist umsagnir um það. Síðastliðið vor hófst stefnumótunarvinna innan fangelsismálastofnunar, sem setur svip á nýja frumvarpið og verður einnig lögð til grundvallar við framkvæmd áforma um smíði nýs fangelsis og stækkun þeirra, sem fyrir eru.

Allsherjarnefnd er einnig að fjalla um frumvarp, sem mun gjörbreyta aðferðum við innheimtu sekta og létta álagi af lögreglunni, verði það að lögum. Í sama frumvarpi er jafnframt að finna tillögur um einföldun aðferða við árangurslaust fjárnám.

Aðgerðir lögreglu og tollayfirvalda til að stemma stigu við smygli á fíkniefnum hafa síður en svo sætt gagnrýni, þvert á móti hafa þær sýnt, að þær skila árangri og undrast menn, hve mikið magn fíkniefna hefur fundist og hvaða aðferðir eru notaðar við smygl þeirra. Á þessu sviði eins og öðrum verðum við að halda vöku okkar og leitast við að gera betur.

Áhugi þingmanna á starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra endurspeglar þær áhyggjur, sem víða verður vart, að lögregla og opinberir eftirlitsaðilar hafi ekki í fullu tré við brotastarfsemi í tengslum við sívaxandi fjármálaumsýslu og viðskipti. Kröfur um skjót og markviss opinber viðbrögð við því, sem miður er talið fara á þessum sviðum, eru skiljanlegar. Þær ættu ekki síst að koma frá þeim, sem láta að sér kveða í viðskiptalífinu hér heima og erlendis.

Nú er að störfum nefnd skipuð fulltrúum frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti undir formennsku Páls Hreinssonar prófessors og fjallar hún um það álitamál, hvernig haldið skuli á rannsókn máls, þegar fleiri en ein opinber eftirlitsstofnun kemur að úrvinnslu þess. Ég tel mjög mikilvægt, að um þetta séu settar skýrar reglur, svo að ekki verði óvissa, eins og skapaðist á síðasta ári um forræði í rannsókn olíusamráðsins svonefnda.

Þegar ég svaraði fyrirspurninni um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, taldi ég æskilegt, að hún yrði efld til að geta tekið upp mál að eigin frumkvæði. Hið sama á við um efnahagsbrotadeildina og aðrar eftirlitsstofnanir, verkefni hennar aukast og verða margbrotnari með aukinni efnahagslegri umsýslu, fjölbreytni í viðskiptum og fjölgun og stækkun fyrirtækja. Kröfur varðandi starfsmenn efnahagsbrotadeildar lúta ekki aðeins að fjölda þeirra, heldur einnig menntun, reynslu og almennri þekkingu á hinum ólíku þáttum viðskiptalífsins hér á landi og erlendis.

*

Um nokkurt árabil hefur verið unnið að endurskoðun laga um meðferð opinberra mála, en sá mikilvægi lagabálkur snertir mjög starfsemi stofnana á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Sumarið 2003, stuttu eftir að ég hafði tekið við embætti dóms- og kirkjumálaráðherra, samþykkti ég, að Stefán Már Stefánsson prófessor mundi sinna grunnvinnu varðandi endurskoðun þessa mikla lagabálks og hefur hann síðan unnið að því í samvinnu við þá Eirík Tómasson prófessor og Markús Sigurbjörnsson, forseta hæstaréttar og formann réttarfarsnefndarinnar.

Á liðnu hausti skýrði ég frá því, að nauðsynlegt væri að herða framgang þessa verkefnis og hugsanlega breyta verklagi og ræddum við formaður réttarfarsnefndar leiðir til að tímasetja verklok á þessu ári. Áætlun um það liggur nú fyrir og nýlega kallaði ég þrjá menn til samráðs og tillögugerðar um málið á grunni starfs réttarfarsnefndar, en þeir eru Bogi Nilsson ríkissaksóknari, Pétur Guðgeirsson héraðsdómari og Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu ráðuneytisins mun Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri fylgja málinu eftir og leggja lokahönd á gerð frumvarpsins.

*

Undanfarin misseri hafa dómstólar og lög um þá verið til skoðunar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Við þá skoðun hefur verið litið til ýmissa athugasemda og sjónarmiða, sem komið hafa fram á liðnum árum, en vissulega hefur ráðuneytið einnig sín viðhorf til þess hvernig skipulagi þessara mála verður best háttað.

Unnið hefur verið að frumvarpi til breytinga á dómstólalögum, og vonast ég til þess að geta kynnt það strax í næsta mánuði. Lokagerð þess liggur ekki fyrir enn, en meðal þeirra sjónarmiða, sem byggt verður á í frumvarpinu, er aukið sjálfstæði einstakra héraðsdómstóla og aukin ábyrgð forstöðumanna þeirra, dómstjóranna, á rekstri þeirra.

Með því að árétta ábyrgð þessara forstöðumanna skýrar en nú er gert, er alls ekki verið að segja, að illa hafi verið staðið að verki á vegum dómstólaráðs. Héraðsdómstólarnir eru hins vegar átta en ekki einn og dómstólaráð mun starfa áfram þeim til stuðnings.

Meðal annarra atriða væntanlegra tillagna við breytingar á dómstólalögum má nefna auknar heimildir aðstoðarmanna dómara, en gert er ráð fyrir að dómstjórum verði heimilað að fela þeim tiltekin dómstörf. Yrði í valdi hvers dómstjóra um sig hvort og í hverjum mæli hann nýtti þá heimild. Ég hef á undanförnum misserum talað fyrir þessum sjónarmiðum, bæði á alþingi sem utan þess, og ég geri sem sagt ráð fyrir því að þeirra sjái stað með frumvarpi nú í vor.

*

Almannavarnir voru fluttar til ríkislögreglustjóra í apríl árið 2003 með breytingu á almannavarnalögunum, sem að mínu mati tók ekki fullt tillit til þeirra miklu breytinga, sem orðið á almannavarna- og öryggismálum frá því á sjöunda áratugnum, þegar almannavarnalögin voru upphaflega sett. Hinn 1. janúar 2004 fluttust björgunarmál frá samgönguráðuneytinu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Í júní 2004 lauk þeim breytingum á skipulagi vaktþjónustu og fyrirkomulagi leitar- og björgunarmála á sjó, landi og í lofti, sem hófust með uppsetningu vaktstöðvar Neyðarlínunnar hf., stjórnstöðvar lögreglunnar og samræmingastöðvar Almannavarna um leit- og björgun í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Þá bættist þar við vaktstöð siglinga, sem starfslið Landhelgisgæslu og Neyðarlínu reka sameiginlega.

Ég tel, að innsigla þurfi þessar miklu breytingar á öryggis- og neyðarþjónustu með nýrri löggjöf um almannavarnir og björgunarstörf. Á mjög farsælan hátt hefur tekist að stofna til samstarfs, sem litið er til með aðdáun af annarra þjóða mönnum, um þjónustu á þessu mikilvæga sviði.

Vinna þarf að gerð þessara nýju laga samhliða endurskoðun á lögum um Landhelgisgæsluna. Stefnt er að því að flytja höfuðstöðvar gæslunnar í Skógarhlíð og fyrir liggur að nútímavæða skipa- og flugvélakost hennar. Þannig að mörg verkefni bíða nýs forstjóra á þessum vettvangi.

*

Útlendingastofnun er yngsta undirstofnun ráðuneytisins. Viðfangsefni hennar snúast að verulegu leyti um málefni, sem eru pólitískt mjög viðkvæm. Annars vegar er ljóst bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu, að efnahagsstarfsemi ríkja krefst innflutnings á fólki. Hins vegar er viðfangsefnið að búa þannig um hnúta, að útlendingar falli sem best að nýjum heimkynnum og ekki skapist togstreita milli ólíkra menningarhópa eða kynþátta.

Þátttaka okkar í Schengen-samstarfinu, þar sem útlendingastofnun gegnir veigamiklu hlutverki við framkvæmd sam-evrópskra reglna, setur æ meiri svip á landamæravörslu og eftirlitsskyldur lögreglu. Nú er unnið að því með þátttöku stofnunarinnar að undirbúa útgáfu nýrra vegabréfa, sem fullnægja kröfum um lífkenni.

Ég tel, að vel hafi til tekist með framkvæmd útlendingalaganna en er þeirrar skoðunar, að vegna vaxandi þunga við innflutning vinnuafls sé skynsamlegt að útgáfa dvalar- og atvinnuleyfa sé á einni hendi hjá útlendingastofnun.

Málefni útlendinga munu á komandi árum setja mikinn svip á öll verkefni og stofnanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Skiptir mjög miklu að vel takist við úrlausn þeirra.

*

Á síðasta ári voru gerðar nokkrar breytingar á skipulagi og yfirstjórn ráðuneytisins. Nokkur reynsla er komin á þessar breytingar og virðast þær hafa stuðlað að markvissari vinnubrögðum. Frekari breytingar kunna að verða gerðar í þeim tilgangi að styrkja og efla enn frekar starfsemi og þjónustu ráðuneytisins.

Málaþungi í ráðuneytinu er mikill, ekki síst vegna hvers kyns kærumála auk almennra afgreiðsluverkefna. Innan ráðuneytisins hefur verið hugað að því, hvort ekki væri unnt að fela stofnunum, til dæmis sýslumönnum, að taka að sér ýmsar afgreiðslur í nafni ráðuneytisins. Skilin á milli stefnmótunar og meðferðar á kærum til æðra stjórnvalds annars vegar og hvers kyns afgreiðsluverkefna hins vegar er eðlilegt að skerpa og mætti til dæmis gera það með því að færa afgreiðsluverkefni ráðuneytisins til stofnana þess.

Nýjungar af þessu tagi eru náskyldar ákvörðunum um tvo málaflokka, sem verða kynntir sérstaklega hér á fundinum og ég mun því ekki ræða nema lítillega að þessu sinni, það er átaksverkefnið í upplýsinga- og fjarskiptatækni og nýskipan lögreglumála.

Í ljós hefur komið að í stofnunum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefur víða verið unnið merkilegt nýsköpunar- og þróunarstarf á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni. Um leið og ráðstafanir verða gerðar til að virkja þessa tækni enn betur á starfssviði okkar, á að nýta vel þau sóknarfæri, sem felast í þekkingu og reynslu liðinna ára.

Ég met mikils, að hér er unnt að kynna skýrslu verkefnisstjórnar um nýskipan lögreglumála, sem starfað hefur í rúmt ár undir formennsku Stefáns Eiríkssonar skrifstofustjóra. Um leið og ég þakka öllum, sem hafa komið að gerð skýrslunnar, vil ég skýra frá því, að ég hef ekki tekið afstöðu til þeirra sjónarmiða, sem þar koma fram. Ég vil gjarnan fá tækifæri til að efna til funda um málið sérstaklega með sýslumönnum og lögreglumönnum, áður en ég geri upp hug minn.

Með þessum orðum er ég síður en svo að skorast undan að fylgja málinu eftir. Ég er eindreginn talsmaður þess að leitað sé allra skynsamlegra leiða til að efla og styrkja lögregluna og í skýrslunni eru reifaðar margar tillögur um það efni. Mikilvægt er, að breið samstaða verði um allar breytingar á skipan lögreglumála.

Góðir áheyrendur!

Það er komið að lokum máls míns að þessu sinni. Ég ítreka þá ósk, að þessi fundur verði okkur öllum gagnlegur. Oft finnst okkur nóg um fundi og námskeið, en ég tel mig hafa ástæðu til að ætla, að í dag verði ávinningurinn meiri en umstangið.

Takist að laða fram nýjar hugmyndir og lausnir, getur jafnvel aðeins eitt snjallræði skipt sköpum. Umræður og verkefni í stjórnendanámi lögregluskólans hafa til dæmis sýnt og sannað, að margir búa yfir góðum hugmyndum til ýmissa faglegra og fjárhagslegra umbóta.

Ráðuneytinu er kappsmál að reynsla og þekking starfsmanna allra stofnana þess nýtist sem best til nýsköpunar og þess vegna hefur verið rætt um að stofna hugmyndabanka DKM, þar sem tekið sé mið af reynslunni úr Lögregluskóla ríkisins. Ég læt nægja að varpa fram hugmyndinni að þessu sinni, hafi hún einhvern hljómgrunn hér í dag, verður unnið að henni frekar.

Með þessum orðum segi ég þennan fund settan og bið Þorstein Geirsson ráðuneytisstjóra að taka við fundarstjórn.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta