112-dagurinn
Smáralind,
11. 2. 05
Ég býð ykkur velkomin hingað í Smárarlind á fyrsta 112-deginum. Fyrsta deginum, sem er helgaður neyðarnúmerinu 112. Enginn dagur er betri til þess en einmitt ellefti febrúar, ellefti annar.
Ég veit, að númerið 112 er vel kynnt. Gallup-könnun seint á síðasta ári sýndi, að 98,4% svarenda þekkti númerið – og á árinu 2004 bárust meira en 300 þúsund erindi til númersins.
En eins og við vitum, þá er góð vísa aldrei of oft kveðin. Og í dag viljum við í senn enn minna á númerið góða og kynna þá, sem að baki því standa. Öll getum við þurft að kalla á hjálp í neyð, hvort heldur fyrir okkur sjálf eða aðra. Þá skiptir öllu að þekkja neyðarnúmerið.
Neyðarnúmerið 112 leysti árið 1995 af hólmi mörg og eftir því mismunandi neyðarnúmer lögreglu, slökkviliðs og annarra viðbragðsaðila, um allt land.
Þá kom fyrirtækið Neyðarlínan til sögunnar, en hjá því starfa 20 þrautþjálfaðir starfsmenn búnir fullkomnum tækjum til að bregðast hratt og örugglega við hverju slysi og ógn, sem að steðjar.
88% af þeim, sem þurft hafa að leita til Neyðarlínunnar, lýsa ánægju með, hvernig leyst var úr erindi þeirra. Þetta sýnir, að hið markvissa starf, sem unnið er undir merkjum 112 stuðlar að auknu öryggi – auknu öryggi okkar allra.
Fyrir hvern þann, sem í hættu er staddur, skiptir sköpum, að aðeins örskömm stund líði frá því neyðarkall berst, þar til lögregla, sjúkralið, slökkvilið eða annað nauðsynlegt björgunarlið hefur lagt af stað til hjálpar. Neyðarnúmerið 112 tryggir, að viðbragðstíminn sé eins stuttur og frekast er unnt.
Gott skipulag og örugg yfirsýn við slys eða hættuástand er lykillinn að skjótum árangri. Í tengslum við Neyðarlínuna og í nánu samstarfi við hana hefur verið komið á fót samhæfðri björgunarmiðstöð í Skógarhlíð í Reykjavík. Þaðan er unnt að halda í alla þræði við björgunararstarf og skipta verkum milli ólíkra aðila. Á þetta hefur margoft reynt, ekki síst þegar alvarleg slys hafa orðið á vegum úti.
Þá hefur tekist að skipuleggja starfið úr fjarlægð, svo að hver komi þar að verki, sem hann nýtist best. Hver lokar vegi, hver stjórnar á vettvangi, hver sinnir slösuðum og hver flytur þá til sjúkrahúss, svo að dæmi séu tekin. Saga Neyðarlínunnar geymir fjölmörg atvik, þar sem mikill og dýrmætur tími hefur sparast vegna þessara öruggu og markvissu vinnubragða.
Við, sem höfum staðið að því að skipuleggja og efla samstarf neyðaraðila í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð, erum stoltir af þeim árangri, sem þar hefur náðst. Hann stenst samanburð við hið besta á heimsmælikvarða.
Erlendum gestum finnst einstakt hið víðtæka og góða samstarf, sem þar hefur tekist milli Neyðarlínunnar, lögreglu, björgunarsveita og almannavarna, og nú síðast landhelgisgæslunnar og vaktstöðvar siglinga. Þá hafa tæknilegar lausnir og þau kerfi, sem smíðuð hafa verið einnig vakið mikla athygli.
Varastjórnstöð Neyðarlínunnar og fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar á Akureyri, sem opnuð var á síðasta ári, er mikilvægur hlekkur í hinni sterku öryggiskeðju.
Nú þarf að semja nýja löggjöf og reglur um samstarf og samvinnu aðila í björgunarmiðstöðinni í þeim tilgangi að skýra ábyrgð og boðleiðir. Þá þarf að endurnýa lög um almannavarnir og heildarskipulag björgunarmála að öðru leyti. Vona ég, að niðurstöður úr þeirri vinnu liggi fyrir síðar á þessu ári.
Ánægjulegt er að sjá, hve margir leggja fram krafta sína í dag til að taka þátt í 112-deginum. Ég vil þakka þeim öllum – ég vil ekki síst þakka þeim vegna þess, að þetta eru þeir aðilar meðal okkar, sem mest á reynir, þegar neyðarverðir virkja fólk til starfa á hættustundu.
Hér á eftir mun Rauði krossinn heiðra skyndihjálparmann ársins 2004. Veitt verða verðlaun í eldvarnagetraun, sjúkraflutningamenn sýna búnað sinn, efnt verður til sýnikennslu í skyndihjálp, björgunarsveitarmenn sýna tæki sín og búnað, hér verður unnt að skoða tækjabíl umferðardeildar ríkislögreglustjórans og að kynnast starfi Neyðarlínunnar. Á Netinu er beintenging við varðstofu 112 og einnig við Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar í Skógarhlíð.
Hér fyrir utan verður mikil tækja- og björgunarsýning með þáttöku þyrlu Landhelgisgæslunnar, sjúkrabíl, slökkvibíl, björgunarbíl, vettvangsstjórnarbíl lögreglu og sprengjubíl landhelgisgæslunnar.
Í Skógarhlíð, á Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Selfossi, í Vestmannaeyjum og Keflavík verða lögregla og slökkvilið með opið hús og kynningu á starfsemi sinni.
Við stefnum að því að halda þennan dag á hverju ári. Hin virka og góða þátttaka þessara mörgu viðbragðsaðila um land allt, sýnir, að framtakið er vel til þess fallið að kynna innviði þeirra og störf.
Síðast en ekki síst vil ég vekja athygli á 23 ljósmyndum af störfum viðbragðsaðila, sem hér eru sýndar. Þær tóku ljósmyndarar Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og fleiri á síðasta ári.
Ég vona að 112 dagurinn verði ekki aðeins dagur neyðarnúmersins heldur dagur fróðleiks og gagns, bið alla vel að njóta og segi daginn settan.