Rafræn Stjórnartíðindi
Við komum hér saman af sögulegu tilefni, góðir gestir, þegar formlega er gengið til þess verks að hefja rafræna útgáfu Stjórnartíðinda á vefnum, því að í rúmt 131 ár hafa þau verið gefin út á prenti, eða síðan í ágúst 1874.
Hin rafræna útgáfa er lokaáfangi vinnu, sem hófst árið 2000, með skipun nefndar til að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag á birtingu laga og stjórnvaldaerinda.
Í ársbyrjun 2002 var ákveðið að gera Stjórnartíðindi aðgengileg á netinu og er nú hægt að nálgast þar allt efni A- og B-deilda Stjórnartíðinda frá og með 2001 og C-deildar frá og með 1995.
Í samræmi við ný lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sem tóku gildi 22. mars sl., er lokaskrefið nú stigið og eru réttaráhrif birtingar framvegis bundin við hina rafrænu útgáfu.
Hin rafræna útgáfa felur í sér byltingu í birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Reglugerðir verða aðgengilegar almenningi á netinu, um leið og þær öðlast gildi, og reyndar daginn áður, þar sem gildistaka miðast við daginn eftir birtingu þeirra. Hin rafræna útgáfa kemur í stað þess að prenta Stjórnartíðindi í nokkur hundruð eintökum og dreifa þeim til áskrifenda.
Með rafrænu útgáfunni er unnt að veita aukna þjónustu og að því er stefnt. Leitarskilyrði á vef Stjórnartíðinda munu bætast til muna. Auk þess að birta efni á svonefndu PDF sniði mun textinn einnig birtast á HTML formi, sem þýðir, að unnt er að framkvæma orðaleit í öllu efni, sem birtist í Stjórnartíðindum.
Eldra efni Stjórnartíðinda, sem nú er á netinu, en þar er um að ræða um 6000 auglýsingar, verður fært inn í hið nýja kerfi. Þetta efni er nú aðgengilegt frá forsíðu hins nýja vefjar.
Þrátt fyrir rafræna útgáfu verður einnig unnt að kaupa prentaða útgáfu Stjórnartíðinda á kostnaðarverði. Unnt er að gerast áskrifandi að öllum eða einstökum deildum Stjórnartíðinda eða kaupa einstök hefti. Þannig munu viðskipti við prentsmiðjuna Gutenberg halda áfram, en Gutenberg hefur gefið Stjórnartíðindi út í meira en sjö áratugi og vil ég þakka það góða samstarf auk þess sem ég færi öllum þakkir, sem hafa komið að því að þróa útgáfuna á rafrænan hátt, en þar hafa starfsmenn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs átt gott samstarf við Hugvit.
Það kerfi, sem nú verður tekið í notkun, mun ekki umsvifalaust kalla á breytt vinnubrögð hjá viðskiptavinum Stjórnartíðindi. Þeir senda handrit inn á venjulegan hátt, bæði í prentuðu og rafrænu formi, og mun starfsfólk Stjórnartíðinda sjá um að setja inn efni inn á vefinn eins og verið hefur. Þegar fram horfir, og reynsla er komin á kerfið, er stefnt að því að viðskiptavinir muni sjálfir setja inn efni og fullvinna það með sem bestum hætti inn í kerfið.
Ritstjórn Stjórnartíðinda starfar áfram, annast prófarkalestur, gæða- og öryggiseftirlit. Rík áhersla verður lögð á öryggisþáttinn eins og fram kemur í reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda, sem birt var í dag. Þar segir meðal annars, að til að tryggja öryggi og áreiðanleika birtra upplýsinga skuli útgefandi gæta þess að birt efni sé frá réttum og þar til bærum aðilum; upplýsingar séu, svo sem kostur er, varðar gegn skemmdum, þjófnaði, eldi, náttúruhamförum og þess háttar atburðum; upplýsingar séu, svo sem kostur er, varðar gegn rafrænum árásum og alltaf séu til áreiðanleg og örugglega varðveitt afrit af birtu efni og hugbúnaðarkerfum.
Innan ráðuneytisins hefur verið rætt, að ritstjórn Stjórnartíðinda starfi í nánari tengslum við ráðuneytið en nú er, til að sem best sé tryggt, að ekki sé unnt að efast um áhersluna á góða framkvæmd við allt, er útgáfuna varðar. Jafnframt hefur verið hugað að því, að Lögbirtingablað og Stjórnartíðindi þurfi ekki að lúta sömu ritstjórn, án þess að slakað sé á kröfum við ritstjórn Lögbirtingablaðsins.
Að lokum nokkrar sögulegar staðreyndir:
Á þjóðveldistímanum 930-1262 voru lög kunngjörð þannig á Íslandi að lögsögumaður skyldi segja upp lög á hverju þingi, þingfararbálk árlega, en aðra þætti löggjafarinnar svo, þannig að lögsögu allri skyldi lokið á þremur sumrum.
Eftir lok þjóðveldisins voru lög einnig almennt birt á Alþingi, allt þar til það var aflagt með tilskipun frá 11. júlí 1800.
Lög voru birt í Landsyfirdóminum eftir 1800, en hann var stofnaður þegar Alþingi var lagt niður. Jafnframt birtingu þessari fyrir land allt, voru lögin einnig birt í héruðum, fyrst á leiðarþingum goðanna og síðan á manntalsþingum. Þinglestur laga í héraði var þó ekki lögboðinn fyrr en með konungsbréfi 7. desember 1827, er lögleiddi hér danska tilskipun frá 8. október 1824 um það efni.
Í 10. gr. stjórnarskrárinnar frá 1874 var svo fyrir mælt, að konungur skyldi annast birtingu laga, en eigi var þar kveðið nánar á um birtingaraðferð.
Árið 1874 hófst útgáfa Stjórnartíðinda og þar með nýir birtingarhættir. Samkvæmt lögum nr. 11/1877 skyldi birting þar vera „skuldbindandi fyrir alla“, sbr. 1. gr. laganna. Hafa lög síðan verið birt með þeim hætti hér á landi eða rúmlega 131 ár.
Í 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir: „Birta skal lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fer að landslögum.“ Þau lög eru nú nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.
Góðir áheyrendur!
Samkvæmt heimild í þessum lögum opna ég nú rafræna útgáfu Stjórnartíðinda. Í dag hef ég ritað undir nýja reglugerð um Stjórnartíðindi, sem er nr. 958/2005. Er hún hin síðasta sem birt er með gamla laginu. Ný gjaldskrá Stjórnartíðinda verður fyrsta auglýsingin, sem birt er með nýjum hætti.
Fyrir rúmu 131 ári, eða í ágúst 1874, birtist fyrsta auglýsingin í B-deild Stjórnartíðinda og hún hafði að geyma reglur fyrir fangana í hegningarhúsinu í Reykjavík. Eitt af því fyrsta, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið mun birta í hinni rafrænu útgáfu Stjórnartíðinda er ný reglugerð um fullnustu refsingu. Þótt tíminn líði og tæknin breytist eru viðfangsefni stjórnsýslunnar hin sömu!